Er ekki nóg að hafa grafið einn Plymouth í Tulsa og geymt hann neðanjarðar í hálfa öld? Jú, það ættu nú flestir að geta sammælst um. En hvað ef ég fullyrti að þessi sem grafinn var upp árið 2007 og fjallað um í fyrradag hafi ekki verið sá eini? Það þætti ótrúlegt, en satt er það engu að síður.
Árið 1998, níu árum áður en Plymouth Belvedere ´57 kom upp á yfirborðið í Tulsa í Oklahoma, ákváðu menn að hola öðrum bíl, öllu ljótari Plymouth reyndar, niður. Bíðum nú við! Hvers vegna í ósköpunum? Jú, vegna þess að nú var komið að því að fagna 100 ára afmæli.
Hvað á þetta að þýða?
Eins gott að eiga ekki stórafmæli þarna í Tulsa! Eitthvað yrði ábyggilega grafið – kannski maður sjálfur. Já, þarna var bíl holað niður og hann á að hífa aftur upp á 150 ára afmæli Tulsa.
Þetta er einmitt bíll sem er svo ljótur að fæstir vilja hafa hann fyrir augunum en það var ekki hugsunin þegar þessi frumgerð af Plymouth Prowler fór undir yfirborð jarðar þann 18. janúar 1998. Í almenningsgarði í Tulsa. Hér er hlekkur á staðsetninguna.
„Jarðaður“ með alls kyns dóti
Rétt eins og í sögunni sem hér var rakin í fyrradag, þótti fólki bráðsnjallt að koma nýjum bíl ofan í jörðina með ýmsu dóti. Í þetta skiptið var kassa af Weber´s rótarbjór komið fyrir í bílnum, tuskudýrum, farsíma, skjá af hraðbanka, matseðlum veitingahúsa í nágrenninu, fjárhagsskýrslu bæjarins, bunka af ritgerðum krakka í þriðja bekk grunnskóla um hvernig þau sáu Tulsa fyrir sér eftir 50 ár auk hellings til viðbótar af dóti.
Bæjarstjórinn sjálfur, Susan Savage,var með í för þegar Joe E. Cappy stjórnarformaður Chrysler og forstjóri Dollar Thrifty Auti Group ók bílnum inn í „tímahylkið“.
„Þetta er dásamleg leið til að segja frá því hvernig lífið hafi verið á þessum tímapunkti [1998] í sögu Tulsa. Svona var andinn í samfélaginu og þetta er það sem börnin okkar voru að gera og við stóðum frammi fyrir þessum áskorunum. Og að það sé von okkar að lífið sé gott árið 2048,“ sagði bæjarstjórinn.
Ætli engum hafi dottið í hug að skrifa bara bók? Nei, gröfum bíl! Það hllýtur að vera besta aðferðin til að varðveita söguna… Æjæj. Hvað getur maður sagt? Þarna vissu þau ekki hversu hrapallega fór fyrir bílnum sem fór niður 1957. En samt er þetta spes. Mjög spes.
Hvað sem manni kann að finnast um þessi uppátæki þar vestra er nokkuð ljóst að nú hefur þessi bíll verið neðanjarðar tæplega helming þess tíma sem honum er ætlað að vera þar. Það er að segja rúm 24 ár af fimmtíu.
Stóra spurningin er hvernig bíllinn muni nú líta út eftir 26 ár þegar hann kemur upp úr jörðinni. Hvernig mun hann þá líta út? Jú, sennilega mun betur en flest okkar.
Þessu skylt:
Afleit hugmynd að grafa bílinn og geyma í hálfa öld
Toyota-kirkjugarðurinn á hafsbotni
Gleymdi hvar hann lagði bílnum: Svo liðu 20 ár
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein