Fjölskyldu „kappaksturs” bíll
Tesla Model 3 er einn vinsælasti bíll á Íslandi í dag. Það er svo sem ekkert að undra. Bíllinn er að mörgu leyti langt á undan samkeppnisaðilum í rafbílageiranum þrátt fyrir að hann sé alls ekki gallalaus. Það eru reyndar fáir bílar þó.
Að aka um götur borgarinnar nú til dags þar sem Tesla Model 3 blasir við á hverju götuhorni minnir óneitanlega á þegar Bjallan var uppá sitt besta og annar hver bíll var af þeirri tegundinni.
Nú eða þegar „allir” óku á Fiat Uno eða Toyota Corolla. Nú er það Tesla Model 3 sem trónir ofarlega.
Tæknilega framúrskarandi
Við hjá Bílablogginu fengum lánaða Teslu fyrir fáeinum dögum og nutum þess að aka um götur borgarinnar og út á Reykjanesskagann til að reynsluaka ökutækinu. Árgerð 2021 hefur reyndar fengið talsverða uppfærslu. Þar má helst nefna varmadælu sem nýtir hita rafhlöðunnar til upphitunar farþegarýmis bílsins.
Það sparar orku og bíllinn fer því lengra á hleðslunni.
Talandi um hleðslu, þá er Tesla Model 3 með um 75 kwst. rafhlöðu sem er svipað og í til dæmis VW ID.3 og ID.4. Hinn nýi Mustang Mach e, er sennilega helsti keppinautur Model 3 en uppgefin drægni skv. WLTP staðlinum ívið minni.
Léttar og liprar árgerðar breytingar
Önnur breyting sem ber að nefna frá fyrri árgerð er að „píanó” glansandi miðjustokkurinn er það ekki lengur – sem betur fer fækkar þannig fingraförum sem klístrast óneitanlega við svona glansandi fleti. Rétt undir mælaborðinu er síðan plussklædd þráðlaus hleðsludokka fyrir tvo alvöru snjallsíma.
Við erum að tala um nýjar 19 tommu felgur, nýjar 20 tommu Performance felgur úr léttari málmi, svarta áferð á listum í kringum glugga og svarta umgjörð um myndavélar á frambrettum. Skotthleri er kominn með rafdrifna opnun/lokun og hliðarrúður að framan eru úr tvöföldu gleri sem dregur töluvert úr hljóðmengun.
Of mikið afl?
Það er ekki nema von að maður spyrji því bíllinn er innan við 5 sekúndur í 100 km/klst. Nú má reyndar hvergi aka hraðar en á 90 km/klst. á Íslandi svo þetta er kostur sem nýtist lítið hér á íslenskum vegum. Hvers vegna finna verkfræðingar Tesla ekki leið til að beisla þetta afl í rafhlöðuorku í stað þessa ógurlega upptaks?
Að sama skapi veltir maður fyrir sér ungu kynslóðinni sem fær bílinn lánaðan hjá mömmu og pabba að þau ráði við svona tæki. Að sjálfsögðu eru þetta bara vangaveltur.
Eins og „go-kart”
Maður sest ansi mikið ofaní bílinn enda bara um „venjulegan” stallbak (sedan) bíl að ræða. Sætin eru frábær, halda vel við og auðvelt að stilla á alla vegu þannig að þau henti manni.
Tölvuskjárinn er kristaltær og nánast eins og maður sjái inní framtíðina í gegnum hann.
Allt sem skiptir máli er innan seilingar á skjánum, hraðinn blasir við manni, myndrænar upplýsingar í gegnum 360° radarkerfið sýna manni umferð í rauntíma fyrir framan, aftan og til hliðanna.
Undir stýri og við akstur minnir Teslan óneitanlega á go-kart bíl. Snöggar hreyfingar, stífur, þó ekki hastur og nákvæmt og lítið stýri er sú upplifun sem við strákarnir komum okkur saman um að væri sú rétta.
Við ætlum ekkert að ræða um hleðslu – um þann hluta geta áhugasamir lesið á öðrum vettvangi. Þó ber að nefna að Telsa Model 3 getur hlaðið allt að 250 kwst. á klukkustund í Tesla Supercharge hleðslustöðvanetinu sem verið er að setja upp í kringum landið. Þar skákar Teslunni enginn enn.
Gott verð
Tesla Model 3 hefur svo sannarlega hitt í mark. Tæknin er framúrskarandi sem þýðir að bíllinn skarar fram úr á ákveðnum sviðum t.d. eins og drægni, hleðsluhraða og afl. Enda Tesla mun frekar hugbúnaðarfyrirtæki en bílaframleiðandi – allavega í byrjun. Það sést reyndar á samsetningu bílsins, ef grannt er skoðað, því mismunandi bil eru á milli hurða og bretta ásamt því að framhurð stóð talsvert utar en afturhurð á reynsluakstursbílnum.
Þetta er reyndar sér-amerískt fyrirbæri og þykir bara flott og kaninn hefur kallað þetta „hand-made with pride” hér áður fyrr (ekki lengra síðan en 2005).
Verðið er frá tæpum 5,9 milljónum en dýrasta gerðin er á um 7,5 milljónir en svo er að sjálfsögðu hægt að bæta allskyns skrauti á bílinn og við það fer verðið eðlilega upp.
Notagildi
Já, stóra spurningin. Tesla Model 3 hefur að okkar mati mjög gott notagildi. Þrátt fyrir sportlegt útlit er bíllinn mjög rúmgóður, gríðarstór farangursgeymsla með djúpu hólfi undir sem gæti hæglega rúmað litla ferðatösku eða kælibox í útileguna. Fjórir fullorðnir rúmast vel í bílnum.
Tesla Model 3 rúmar hæglega tvo fullorðna frammí, tvo unglinga og eitt yngra í míðjusætinu afturí. Teslan er því frábær kostur fyrir stórar fjölskyldur sem langar að ferðast innanlands (enda drægnin næg) á þægilegan rafrænan hátt.
Helstu tölur:
Verð frá 5.800.000 til 7.500.000 kr.
Rafhlaða: 75 kWh.
Drægni: 614 km.
Hestöfl: 450.
0-100 km á klst. 4,3 sek.
Farangursgeymsla: 649 ltr.
CO2: 0 g/km.
Þyngd: 1.884 kg.
L/B: 4693/2087
Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson