Fjölhæfur Subaru Outback klikkar ekki
Subaru hefur verið leiðandi í framleiðslu fjórhjóladrifinna bíla í áratugi. Subaru voru þeir sem voru brautryðjendur í að færa jeppa-módelið yfir í fólksbílinn og síðar jepplinga-módelið.
Fjórhjóladrif Subaru hefur verið þekkt fyrir frábæra eiginleika og á síðustu 25 árum þróast sem eitt fullkomnasta aldrifið(AWD).

Skutbíll sem leynir á sér
Við fyrstu sýn gæti maður haldið að nýr Outback væri ef til vill Forester eða VX bíllinn frá Subaru en þegar betur er að gáð er hér á ferð hinn eini sanni Subaru Outback sem við höfum þekkt fyrir sérstaka hönnun og aksturseiginleika um árabil.
Allt frá því að fyrsta kynslóð bílsins leit dagsins ljós hefur hann haldið „persónu einkennum” sínum og meira að segja þessi nýja gerð hans með smá „retró” lúkki finnst manni.
Það gerir ef til vill gróf plastklæðining sem rammar bílinn inn að neðanverðu ásamt nokkuð áberandi svörtum plastklæddum þakbogum með þverbitum.

Stútfullur af öllu því nýjasta
Nýr Subaru Outback skorar hátt í öll box. Öryggislega séð er bíllinn framúrskarandi og fékk fullt hús stiga hjá NHTSA öryggisprófunarstofunni.
EasySight búnaðurinn fylgist með árverkni ökumanns, lætur hann vita ef honum finnst hann ekki vera nægilega vakandi við aksturinn.
Þannig lætur bílinn mann vita ef maður lítur of lengi af veginum og stingur upp á kaffibolla ef maður er að breyta aksturslaginu eitthvað frá því sem við erum vön að viðhafa. Kerfið er einnig óþreytandi við að minna mann á að halda athyglinni – eitthvað sem veitir víst ekki af í umferðinni í dag á tímum sítruflandi snjallsíma.

Subaru Outback skynjar hættu frá hlið, hann er með árekstrarvara að framan og aftan sem kemur til hjálpar og hemlar ef með þarf. Radarkerfi skynjar gangandi og hjólandi fyrir framan bifreiðina og beitir hemlum ef með þarf.
Öflugra myndavélakerfi gerir alla skynjun í umhverfi næmara en áður. Átta loftpúðar eru í bílnum, bæði gardínu- og hliðarloftpúðar.

Stór margmiðlunarskjár
Mælaborðið er Subaru-legt þrátt fyrir nánast allt það nýjasta sem við þekkjum í bílnum dagsins í dag. 11.6 tommu skjár fyrir miðju með öllu því sem við þurfum á að halda. Apple CarPlay og Android Auto, íslenskt leiðsögukerfi, tvöföld stafræn miðstöð, hiti í framrúðu, rafaðfellanlegir og upphitaðir hliðarspeglar, hiti í stýri, skynvæddur hraðastillir og rafopnanlegur afturhleri.


Í fyrstu lítur margmiðlunarkerfið út fyrir að vera ef til vill pínu flókið en í raun eru bara örfáar snertingar sem opna á allt í kerfinu. Grafíkin er skýr, snertiskjárinn er snöggur og allt innan seilingar í mælaborðinu.
Mælaborðið sjálft er með hefðbundnum „analóg” mælum en tölvuskjár í miðju sýnir valkvæma hluti eins og eyðslutölur og framgang aksturs.

Vandaður frágangur
Að innan var reynsluakstursbíllinn afar vel búinn enda Premium týpan sem var prófuð. Nappa leður á sætum, mælaborð er nánast allt klætt mjúku yfirborðsefni og stunginn saumur víðast hvar í innréttingunni. Sætin mátulega mjúk, bökin breið og lúkka mjög öflug. Rafdrifin stýring á sætum frammí og setur halda mjög vel við.
Reikna má með að nýr Outback fari afar vel með mann á langkeyrslu. Í bílnum eru síðan hörkugræjur frá Harman & Kardon með tólf hátölurum.


Afköst og akstur
Subaru Outback 2021 kemur með 2,5 lítra, fjögurra strokka boxer vél. Sú gefur um 182 hestöfl og togar um 245 Nm. Bíllinn kemur með 8 „þrepa” CVT skiptingu og er um 10,8 sekúndur í 100 km/klst.
Vélin er bensínknúin eingöngu og er því þessi nýi Subaru í sí minnkandi hópi bíla með þennan orkukost. Subaru Outback kemur í þremur útfærslum.
Premium, Field og Lux. Field er með svartan útlitspakka, svarta skrautlista, svart uggaloftnet, svartar felgur og svört speglahús.

Hvernig er að aka?
Okkur hjá Bílabloggi fannst aflið nægt. Bíllinn er enginn kvartmílu kaggi en snúningssvið vélarinnar er breitt og hann togar lengi í hverjum gír – ef til vill aðeins of lengi. Kominn á ferð er lítið mál að botna og taka framúr án þess að finna fyrir því að aflið sé að svíkja.
Aksturinn er einstaklega þægilegur, mjúkur og bíllinn svínliggur á veginum – enda með lágan þyngdarpunkt, þökk sé hinni níðsterku og snjöllu boxer vél sem liggur þvert í vélarrými bílsins.

Við skelltum okkur yfir hraðahindrun og ætluðum aðeins að láta Outbackinn finna fyrir því en hann hló nánast að okkur. Fjöðrunin er frábær og hann tekur svona „ójöfnur” eins og hraðahindranir án þess að taka eftir því.


Eitt af því sem við náðum ekki að venjast yfir helgina þegar við prófuðum bílinn var stefnuljósaarmurinn. Hann er með eins konar stiglausri stillingu þannig að við framúrakstur þarf maður að gæta þess að slá ekki of fast til baka til að gefa þá ekki stefnuljós í gagnstæða átt fyrir slysni.


Fjölnota harðjaxl
Subuaru Outback er lúxusbíll sem hentar mjög breiðum hópi bílakaupenda. Yngra fjölskyldu fólk hefur hér glæsilegan fjölskyldubíl sem hentar fyrir stórar fjölskyldur (fimm sæti).
Frábær í borgar aksturinn sem lipur og þægilegur og einstakur ferðabíll.
Góður kostur fyrir einyrkjann til nota í vinnu og sem vel búinn fjölskyldubíl. Einn besti kostur á markaðnum fyrir þá sem vilja sameina öflugan fjórhjóladrifs bíl og borgarbíl. Subaru Outback getur dregið um 750 kg. eftirvagn án bremsubúnaðar og allt að 2 tonna eftirvagn með bremsubúnaði.

Bílar í samkeppni eru til dæmis Volvo V60 Cross Country, Audi Allroad og Mercedes E-Class All-Terrain – bílar sem eru þó mun dýrari kostur.

Helstu tölur:
Verð frá : 7.590 þús. (Reynsluakstursbíll kr. 8.490 þús.)
Hestöfl: 182 hö.
Vél: 2.500 rms., fjórir strokkar, Boxer.
Tog: 245 Nm.
CO2: 192 g/km.
Eyðsla bl.ak.: 8.2 ltr/100km.
Eigin þyngd: 1.655 kg.
Dráttargeta: 750/2000 kg.
L/B/H 4860/2084/1687 mm.
Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson.
Ath. í myndbandinu kemur fram að reynsluakstursbíllinn sé af Premium gerð – hann er af LUX gerð. Einnig er misfarið með tog vélar en það er 245 Nm við 3400 sn en ekki um 230 Nm. Biðjumst við velvirðingar á þessu.