Ferkantaður en fjölhæfur

TEGUND: Fiat Doblo Maxi

Árgerð: 2019

Orkugjafi:

Vörurými, gott aðgengi, hurðaopnari að aftan, bil á milli hjólaskála, hljóðeinangrun í farþegarými.
Hliðarstuðningur ökumanns- og farþega sæta.
137
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Ferkantaður en fjölhæfur

Sögu ítalska fyrirtækisins Fiat má rekja allt til ársins 1899.  Um árabil í sögu fyrirtækisins var Fiat stærsti evrópski bílaframleiðandinn.  Uppúr 1970 störfuðu um 100 þúsund ítalir hjá fyrirtækinu og voru framleiddir um 1400 þúsund bifreiðar bara á Ítalíu. Undir vörumerki Fiat hafa einnig verið framleiddir bílar í Argentínu, Mexíco og Póllandi. Árið 2014 voru Chrysler samsteypan og Fiat sameinuð undir einn hatt og framleiða meðal annars Dodge, Jeep, Fiat, Alfa Romea og Ram pallbíla.

Rísandi merki

Undanfarin ár hefur Fiat sótt fram með tegundarheiti eins og Tipo, Panda, 500, 500L og 500X.  Allt bílar sem hafa notið verðskuldaðrar athygli fyrir gæði og samkeppnishæfni.  

Fiat Doblo er ferkantaður á flesta kanta en það gerir hann einmitt að frábærum flutningabíl.

Maxi, aðeins lengri

Bíll dagsins hjá okkur einn seinni part í maí var Fiat Doblo Maxi, lítill sendibíll sem reyndist svo ekkert lítill þegar til kom. Hann rúmar 4,2 m³ sem segir venjulegum manni eins og mér svosem ekki mikið en hægt er að hlaða í hann tveimur EUR brettum og allt að 900 kg. Hæð hleðslu er allt að 130 sentimetrar á meðan mesta breidd er um 181 sentimeter. Fiat Doblo sigrar í samkeppni hvað bil á milli hjólaskála varðar en bilið er eitt það allra mesta í bílum í flokki lítilla sendibíla.  

Hægt er að opna hurðir í 180°.
Tvískiptar afturhurðir

Fjölhæfur sendill

Við erum að tala um þægilegan bæjarsnattara sem er lipur, léttur í akstri og með góðan beygjuradíus. Hvort sem þú ert smiður, málari eða keyrir út fyrir litla prentsmiðju ertu á bíl sem hentar vel í öll verkefnin. Sérlega gott að setjast undir stýri og fótarýmið er mjög þægilegt og hentar ágætlega á lengri vegelengdum. Við hjá Bílablogg.is tókum bíltúr til Keflavíkur og vorum hrifnir af. Sætin eru þægileg þó svo að það mætti vera meiri hliðarstuðningur. Að sjálfsögðu er ekki hægt að færa sætið mikið aftur en á móti kemur að hægt er að halla því þannig að hávaxinn einstaklingur, eins og ég situr þægilega í akstri.  

Hliðarhurðir beggja vegna eru aukabúnaður.
Eitt mesta bil milli hjólaskála á Fiat Doblo miðað við það sem gerist og gengur á markaðnum.

Vel búinn

Það merkilega er að þessi litli sendibíll er með öllum þeim lúxus sem við eigum að venjast í venjulegum fólksbílum. Sá bíll sem við prófuðum var með Bluetooth símatengi, algjörlega nauðsynlegu í vinnubíl og fyrir tónlistarstreymi, raddstýrðum búnaði í útvarpi, bakkskynjara (hægt að fá bakkmyndavél sem aukabúnað fyrir 100 þús.), USB tengimöguleiki og 5“ snertiskjá. Fiat Doblo Maxi bíllinn sem við prófuðum var búinn velti og aðdráttarstýri og hæðarstillanlegu ökumannsæti. Eftirtektarvert er hve vel hljóðeinangrað farþegarýmið er. Er hægt að biðja um meira í vinnubílnum?

Doblo Maxi er hægt að fá með veglegum aukahlutapökkum, allt eftir því í hvaða vinnu bílinn er hugsaður. Bílarnir koma allir með svokölluðum Íslandspakka sem inniheldur meðal annars dráttarauga, stærri alternator, öflugri startara, meira frostþol, íslenska ryðvörn og 5 ára ábyrgð eða 100 þúsund kílómetra.

Gott aðgengi og nóg fótapláss.

Fjölbreyttir aukahlutir

Aukahlutapakkarnir innilhalda meðal annars auka hliðarhurð, hraðhitara á miðstöð, tveiggja sæta niðurfellanlegt farþegasæti með klemmuspjaldi fyrir vinnutengda pappíra og nýttist ágætlega sem armpúði líka.  Undir farþegasætinu er stórt og mikið geymsluhólf.  Samlita stuðara og hliðarspegla, hiti í ökumannssæti, aðgerðarstýri, varadekk í fullri stærð og glugga í afturhurðum.

Við prófuðum að hlaða vörum í bílinn og komust að því að það var meira skemmtun en vinna.  Við vorum tveir að hlaða, sitthvormegin við bílinn þar sem tvær hliðarhurðar voru á reynsluakstursbílnum.  Í lokin skelltum við síðan EUR bretti þversum aftur í og voru þannig búnir að fylla bílinn á innan við 10 mínútum.  Auðvelt hefði verið að skella tveimur EUR brettum þversum inn í bílinn og hlaða hann þannig á örskömmum tíma.  Eftirtektarvert hversu bilið milli hjólaskála er mikið.  Gólfið í bílnum er með gúmmí dúk sem er staðalbúnaður.  Þannig er hægt að hlaða í hann pökkum og pinklum sem renna ekki út um allt þegar ekið er um stræti og torg.

Geymslubox undir sætum.
Klemmusbpjald á sætisbaki í miðju

Nokkrar útfærslur

Fiat Doblo kemur í þremur grunn útfærslum.  Stuttur, Maxi langur og Maxi langur háþekja.  Stutti bíllinn er með stigaopinu í endann sem hentar iðnaðarmönnum sérlega vel en lengri bílinn er ekki með slíkri lúgu enda hægt að hlaða hlutum allt að 230 sentimetrum á lengdina í Fiat Doblo Maxi bílinn.

Skilrúm með glugga á milli farþega-  og vörurýmis er staðalbúnaður.  Þannig tapast ekki varmi úr farþegarými þegar bíllinn er fermdur og affermdur. Farþegarýmið er með rafdrifnum rúðum beggja vegna og í því má einnig finna 12v hleðslutengi.

Þægilegt aðgengi

Vörurýmið er vel útfært með krókum til að festa varnig og afturhurð með 180° opnun.  Á afturhurð er sérlega hagnýtur „hurðarhúnn“ sem hægt er að grípa í til að opna hurðina en ekki að grufla undir skítugt handfang.  Gott þegar maður heldur á einhverju í fanginu og þarf að opna afturhlerann.

Þægilegt handfang á afturhlera.
Pláss fyrir tvö EUR bretti þversum í flutningarými. Jöfn lofthæð auðveldar brettaflutninginn til muna.

Fiat Doblo er með 1300 rúmsentimetra vél sem gefur 95 hestöfl. Vélin gefur sæmilegt afl en mætti hins vegar toga aðeins betur. CO? gildið er um 136 gr. á kílómetra. Bílinn er framdrifiinn, fimm gíra beinskiptur er og eyðir um 5,1 lítra á hundrað kílómetra í blönduðum akstri. Verð reynsluakstursbíls er 2.411.290 kr. án VSK. mv. gengi í maí 2019.

Það er nokkuð magnað að reynsluaka litlum sendibíl og standa upp úr honum með bros á vör og segja – þetta er alveg ótrúlega skemmtilegur ferkantaður og fjölhæfur bíll.  Það sem stendur upp úr að mati undirritaðs er að bílinn er með sjálfstæða fjöðrun að aftan en það er ekki það eina.  Dobloinn er einnig skriðvörn og ABS hemlalæsivörn.

Frændi minn hefur oft sagt mér að þegar hann var að keyra út árið 1986 á Subaru bitaboxi, engu útvarpi, lykli sem þurfti að læsa hverri hurð með í hvert skipti sem hann fór út úr bílnum og framstuðara sem var eins þykkur og rúgbrauð sagði hann alltaf – eina sem vantar í þennan bíl er brekku-aðstoð en það var staðalbúnaður í Subaru frá nánast upphafi.

Og það er einmitt brekku aðstoð í Fiat Doblo Maxi bílnum!

Verð á reynsluakstursbíl 2.990 þús.

Helstu tölur:

Flutningsrými: Maxi – 4,2 rúmmetrar

Stærð/m, l x h x b: 4,41 1,84 1,83

Díseltankur: 60 lítrar

Burðargeta: Maxi – 900 kílógrömm

Þyngd: 1000 kílógrömm

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar