Fegurðin í???????

TEGUND: Toyota Camry Hybrid

Árgerð: 2021

Orkugjafi:

Bensín/rafmagn

136
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Þessu bjóst enginn við! Að japanska myndi rata inn í íslenska reynsluakstursgrein um japanskan bíl.

???????

Sjáið þið hvað þetta er fallegt? Línurnar eru svo fallegar og hvert tákn virðist einstakt listarverk. Það er nokkuð vel við hæfi því þetta þýðir Toyota Camry og sá bíll, er að mati undirritaðrar ákaflega fallegur og með fallegar línur.

Áður en lengra er haldið, á íslensku auðvitað, er rétt að geta þess að orðið Camry (kamuri) á rætur að rekja til orðsins kanmuri á japönsku og þýðir kóróna. En ekki fleiri orð um orð. Ekki orð um það meir!

Að nálgast fertugt

Toyota Camry kom á markað árið 1982 og er því að nálgast fertugt. Undirrituð er nýorðin fertug og verð ég °að segja að þetta er ekki svo slæmt. En ég ekki bíltegund þó ég beri nafnið Brand. Það er önnur tegund.

Fyrst var Toyota Camry getið í íslensku blaði þann 10. nóvember 1982. Það er gaman að sjá að þarna er minnst á vindstuðul bílsins: 0,35 til 0,37 Cw. Ekki notum við þetta í dag en í það minnsta kemur fram í þessari stuttu frétt að straumlínulögun hefur… tjah, fylgt Camry… Nei, Camry hefur fylgt straumlínulagaðri hönnun frá upphafi.

Sjáið þið línurnar! Straumlínulögun er fögur og einkenni Camry frá upphafi, ef hægt er að komast svo að orði.

Ah, er þetta bandarískur bíll?

Margir tengja Toyota Camry við Bandaríkin og er það ekki sérlega furðulegt þar sem bíllinn hefur verið með eindæmum vinsæll þar lengi. Svo vinsæll raunar, að síðustu átján árin hefur hann skotið öllum öðrum fólksbílum (sedan) ref fyrir rass hvað vinsældir snertir. Átján ár í röð, segir bandaríska bílablaðið Car and Driver og árið 2019 voru, svo dæmi sé tekið, seldir 336.978 bílar af gerðinni Toyota Camry í Bandaríkjunum.

Þetta er nánast eins og hver einn og einasti Íslendingur ætti eitt stykki. Mannfjöldi á Íslandi 1. janúar 2020 var 364.134.?

Ágætt að hugsa þetta svona til að átta sig á fjöldanum. En þó að Camry sé fallegur bíll að mati undirritaðrar er ágætt að hver einn og einasti Íslendingur eigi ekki eintak. Því myndu fylgja ýmis vandamál og nokkur einsleitni.

???????

En svarið við spurningunni í millifyrirsögninni að ofan er: Nei. Ekki bandarískur bíll.

Auglýsing sem birtist í íslenskum blöðum snemma árs 1983

Toyota Camry kom fyrst á markað hér á landi árið 1983 og seldist ágætlega en árirð 2004 sagði hann „bæbæ“ við markaðinn íslenska og í staðinn kom Toyota Avensis sem var líka vinsæll og seldist vel. Svona er þetta spes alveg hreint, því nú er Avensis farinn af markaði og hver er kominn aftur? Jú, mikil ósköp! Camry kom aftur árið 2019 og það í tvinnútgáfu.

Hybrid skal hann vera

Camry fæst eingöngu sem tvinnbíll hér á landi: með 2.5 lítra, fjögurra strokka bensínvél og 155kW rafmótor. Hestöflin eru 218. Hægt er að velja á milli tveggja gerða hvað útbúnað snertir og nefnast þær Live Plus og Luxury. Verðmiðinn á þeirri fyrrnefndu segir 7.690.000 krónur og 8.490.000 krónur á Luxury.

Bíllinn er sjálfskiptur, framhjóladrifinn og eyðslan er 4,4 lítrar á hundraðið í hinum fullkomna heimi en hjá mér í íslenskum veðurleika og veruleika var meðaleyðslan 5,8 lítrar á hundraðið og var ég nokkuð sátt. Sparakstur stundaði ég ekki í þetta skiptið og miðað við allt þá er þetta bara nokkuð gott að mínu mati.

Lítið fyrir ávexti

Undirrituð hefur aðeins fengið að finna fyrir því að undanförnu að eplasímar (iPhone) eru ekki endilega svo bílvænir. Á það hefur verið minnst í nýlegum reynsluakstursgreinum.

Í þetta skiptið var upplifunin dálítið eins og ég væri að troða snuði upp í barn sem ekki kærir sig um slíkt og spýtir því ítrekað út úr sér. Ekki svo að skilja að ég hafi troðið eplasímanum „upp í“ bílinn en viðmótið er betur fallið fyrir síma annarra gerða. Til dæmis vill hleðslustöðin í bílnum (þráðlaust) ekki sætta sig við símann og rennur hann inn og út úr stöðinni. Aðallega út úr henni. Aðra síma, eins og Samsung, bauð hann velkomna og hlóð jafnt og þétt.

Hefur maður svo sem „lent í“ þessu áður en ég man ekki í hvaða bílum. Ekkert stórmál held ég þótt bíll fari í „símgreinarálit“.

Eilítið talnatýndur

Kerfin sem bíllinn er búinn voru auðvitað ekki öll prófuð – sem betur fer kom ekki til þess að láta reyna á öryggiskerfi eins og „árekstrarviðvörunarkerfi með greiningu gangandi vegfarenda“ eða sjálfvirku neyðarhemlunina. Það hefði verið agalegt að þurfa að prófa þá tækni en ég efast ekkert um að hún virki vel. Vil bara ekki þurfa að athuga það.

Skriðstillirinn (e. Cruise Control) virkar ljómandi vel og passar upp á að rétt fjarlægð sé á milli bílsins og þess sem er fyrir framan. Það er vel.

Hins vegar virtist bíllinn fagri, Camry, eiga í dálitlum vandræðum með að lesa íslensku umferðarskiltin almennilega. Bíllinn er auðvitað hannaður í landi þar sem allt svona (skilti, vegakerfi og það allt) er upp á tíu eða jafnvel ellefu en kemur svo hingað þar sem göturnar eru í klessu, malbikið oft götótt eins og svissneskur afsláttarostur eða golfvöllur sem er líka lundabyggð, vegamerkingarnar gerðar úr þunnfljótandi málningarlíki og áfram mætti telja. Afsakið, en ég hef litlar mætur á sparnaðarhugmyndafræðinni sem virðist einkenna og viðgangast í íslenskri vegagerð og vil því fyrir alla muni leyfa bílnum að njóta vafans.

Nú er undirrituð orðin afar illskeytt, neikvæð og leiðinleg. Það er agalega ósanngjarnt gagnvart lesendum og bílnum sjálfum (þó hann sé ekki lifandi vera). Þetta getur gerst þegar ég tapa mér í #umferðarvegagerðarhryllingsbannaðinnan18umfjöllun.

Ljúfur í akstri, lipur og svo gaman að horfa á hann

Já, það verður ekki af honum tekið að ljúfur er hann í akstri, bíllinn sá. Lipur, jú, það er ekkert mál að gefa aðeins í og viðbrögðin láta ekki á sér standa. Svo er eitt voða spes atriði sem ratar ekki oft inn í reynsluakstursgreinarnar mínar; mikið óskaplega held ég að bíllinn eldist vel. Hann er fallegur og verður fallegur fornbíll. Þetta er auðvitað bara mín skoðun og huglægt mat en sjáum til eftir 25 ár hvort ég hafi haft rétt fyrir mér!

Ljósmyndir og texti: Malín Brand

Ljósmynd innan úr bíl: Toyota Europe

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar