Fastagesturinn á gamla skrjóðnum
Það er ekki endilega víst að sá sem ekur um á gömlum skrjóð sé illa stæður fjárhagslega. Eða hvað? Nei, það þarf alls ekki að vera. Hér er saga af karlinum sem mætti á barinn á hverju kvöldi og kom þangað akandi á gömlu bílskrifli.
Eins og lesendur gætu hafa tekið eftir þá á ég það til að vitna í síðuna Quora.com og það ætla ég einmitt að gera í dag. Þar varpaði einn notandi fram spurningu sem mér fannst nú ekki sérlega spennandi en hún er:
Þegar þið sjáið einhvern sem ekur 15 ára gömlum bíl, dragið þið þá ályktun að viðkomandi hafi lítið handa á milli?
Svarið sem kemur hér fyrir neðan er frá manni að nafni Russel Wark og er það nú bara nokkuð áhugavert. Svo áhugavert að mig langar til að deila því með lesendum.
„Nei, það geri ég ekki og lærði fyrir langa löngu að hrapa ekki að slíkri ályktun.
Foreldrar mínir ráku bar og ólst ég upp í því umhverfi [á Englandi þar sem barinn á horninu er kannski á jarðhæð í íbúðarhúsi]. Eitt kvöldið, þegar ég var um 10 ára gamall, kom ég niður á barinn úr íbúðinni okkar sem var á efri hæðinni. Þá kom ég auga á eldri herramann sem sat við enda barborðsins.
Maðurinn var klæddur rytjulegum tvíd-jakka og með sixpensara á kollinum. Ég hafði séð þennan mann áður, enda kom hann víst á barinn svo gott sem á hverju kvöldi. Hann var einatt eins til fara og var rólegur, kurteis og varð iðulega vel slompaður. Eða eiginlega bara alveg sauðdrukkinn.
Það brást ekki að alltaf pantaði hann sér það sama; London Pride og viskísjússa með.
Hann kom jafnan á svipuðum tíma, klukkan sjö um kvöldið, á sínum gamla bláa Austin Maxi (reyndar var ein hurðin drapplit). Jafnvel á þeim tíma, árið 1982, var þessi bíll ekkert annað en gamall og haugslitinn skrjóður.
Maðurinn lagði bílnum, kom inn á barinn, sat að sumbli til lokunar og alltaf var bílgarmurinn farinn að morgni (sem betur fer fór hann aldrei á bílnum heim að drykkju lokinni).
Við héldum að hann færi gangandi heim til sín þegar barinn lokaði, en nei, það gerði hann ekki. Hann gekk út að næsta horni og handan við hornið beið bílstjórinn hans á Rolls-Royce. Hann ók manninum á herragarð nokkurn, rétt fyrir utan bæinn.
Það var svo bílstjórinn sem fór að næturlagi og sótti gamla bláa skrjóðinn við krána og ók honum heim. Maðurinn á skrjóðnum reyndist vera aðalsmaður eða greifi, og átti helming alls landsins í kringum bæinn okkar. Jú, og hann átti meiri peninga en maður getur látið sig dreyma um að eignast á ævinni, og það í tíunda veldi.
En hann ók um á þessu bílflaki, sat á barnum eins og hver annar bæjarbúi og svo lengi sem enginn vissi hver hann var þá var ekkert sem benti til þess að þar færi auðkýfingur,“ skrifaði Wark og ég held að þetta sé nú bara nokkuð góð saga. Fyrir utan drykkjuna en já, það er svo annað mál.
Umræður um þessa grein