Áfram halda mannlegu bílasögurnar og í þetta skiptið er sagan af manni nokkrum sem keypti bíl á uppboði hjá lögregunni og fann svo heilu dollarabúntin þegar hann skipti um rúðuupphalara í bílnum.
Eðli máls samkvæmt er ekki hlaupið að því að finna út hver þetta var sem árið 2013 keypti umræddan bíl í Vesturheimi. En hér er það helsta úr sögunum sem sagðar voru á sínum tíma af dollarabílnum.
Meðfylgjandi myndir fóru víða og hefur sú sem þetta skrifar ekki hugmynd um hverjum ber að eigna myndirnar en á einum stað segir að maðurinn hafi sjálfur deilt þessu en eytt færslunni þegar hann áttaði sig á að „eigandi“ peninganna gæti viljað fá þá aftur. Það er líkleg skýring!
Svo virðist vera sem maðurinn hafi upplifað „draum fátæka mannsins“ þegar hann ákvað að gera við bílinn sjálfur til að spara pening.
Það borgaði sig! Til að skipta um upphalara þarf aðeins að vasast í hurðarspjaldinu, eins og margir kannast við og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Þegar upphalarinn hættir að virka þarf að opna verkfærakassann og taka hurðarspjaldið af. Það gekk eins og í sögu og ekkert óvenjulegt að sjá.
Eða hvað?
Þegar maðurinn hafði losað um plastklæðninguna kom hann auga á svartan poka sem var úttroðinn af einhverju. Og þar með varð honum ljóst af hverju upphalarinn virkaði ekki sem skyldi. Fyrirstaðan var fundin!
Pakkanum hafði verið troðið vandlega á þennan stað og þurfti heilmikið að toga og rugga þessu – hvað þetta nú var – fram og aftur þar til það losnaði.
Þetta virtist ekkert sem komið hafði með bílnum úr verksmiðjunni. Bíleigandinn varð að vonum forvitinn en að sama skapi kvíðinn því þarna gæti vel verið um ólögleg fíkniefni að ræða. Alla vega eitthvað sem engum var ætlað að sjá.
Þegar pakkinn dularfulli var loks laus var eigandi bílsins orðinn bullsveittur og taugatrekktur. Hann fékk ekki betur séð en þetta væru fíkniefnapakkningar.
Tilbúnar til útflutnings.
Honum létti stórlega þegar í ljós kom að hver pakkning innihélt dollaraknippi. Mörg knippi. Hver eining var á stærð við múrstein og það nokkuð þéttan.
Af bananahýðisdruslunni segir ekki orð.
Þó svo að það hafi verið léttir að ekki væri um fíkniefni að ræða var maðurinn ekkert minna ringlaður með þá vitneskju að þarna væru þúsundir dollara á gólfinu hjá honum.
Hversu lengi ætli þetta hafi verið falið í hurðinni?
Á sínum tíma kom ekki fram hversu há fjárhæðin var en af myndunum að dæma var þetta veruleg upphæð. Nánari upplýsingar var hvergi að finna en er þetta staða sem einhver vill vera í? Þessir peningar voru þarna en ekki inni á bankareikningi af einhverri ástæðu.
Illa fengið fé eða ævisparnaður?
Hvað sem því líður eru myndirnar áhugaverðar: Sérstaklega bananahýðið sem ég get ekki með nokkru móti áttað mig á hvað er að gera inni á myndunum!
Fleiri mannlegar bílasögur:
Fann falin skilaboð í notuðum bíl
Martraðarkennd upplifun bílasala
Gleymdi hvar hann lagði bílnum: Svo liðu 20 ár
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein