Fallega ljótur
Fyrsti bíllinn minn var Austin Allegro skutbíll árgerð 1978. Mjúk sæti með plussáklæði, rúmgott farþegarými og fallega ljót hönnun bílsins kallaði eitthvað á mig. Það var þó verð bílsins sem freistaði mín en það var 50 þúsund krónur árið 1983.
Vinsæll bíll
Austin Allegro var bíll sem náði nokkrum vinsældum þó svo að hönnun hans væri mjög ábótavant. Allegro, kom fyrst á markað árið 1973 og átti að vera búbót í framleiðslulínu British Leyland bílaverksmiðjanna. Sir Harris Mann, yfirhönnuður British Leyland hannaði bílinn í ætt við annað módel sem fyrirtækið framleiddi en það var Austin Princess.
Sá bíll var nokkuð sportlegur, stóð frekar lágt og nokkuð straumlínulagaður miðað við hönnun þess tíma.
En áætlanir Brithis Leyland á þessum tíma miðuðu að því að halda sem mest niðri kostnaði í framleiðslu og því varð Allegro að þola að í hann væru notaðir hlutir úr eldri bílamódelum fyrirtækisins. Allegro var hugsaður sem arftaki hinna feykivinsælu Austin 1300 og Austin 1500.
Hönnun bílsins þurfti því að taka mið af því að vél Austin 1300 og 1500 passaði í hann ásamt því að forsvarsmenn British Leyland vildu nýta miðstöðvarkerfi sömu bíla. Það varð til þess að Austin Allegro tútnaði út og endaði með klunnalegar og bústnar línur.
Mistök í hönnun
Á þessum árum voru bílaframleiðendur eins og Lancia og Citroen að koma með framúrstefnulega og skemmtilega hönnun á bílunum sínum. „Hatchback“ formið var að kikka inn hjá framleiðendum eins og Volkswagen með Golf og Renault með módel 16.
Austin Allegro fékk strax viðurnefnið „the flying pig“ eða „svínið fljúgandi“!
Hálfkák
Nokkrar endurbætur voru gerðar á bílnum eftir að þeir fyrstu runnu af færibandinu 1973. Til að mynda var gert mikið úr ferköntuðu stýri fyrstu útgáfunnar sem átti að gefa aukið rými milli stýris og ökumanns. Þetta mæltist reyndar ekki vel fyrir og stýrinu var fljótlega breytt í hefðbundið hringlaga þar sem ferkantaða stýrið var alltof stórt og erfitt að stjórna bílnum með því. Í dag sjáum við lítil kassalaga stýri meðal annars í Peugeot.
Framleiddur úr afgöngum
Austin Allegro hefur verið talinn versti bíll sögunnar. Bíllinn fékk þó ekki slæma útreið gagnrýnenda í byrjun. Þegar fram liðu stundir áttuðu menn sig á hve illa bíllinn var hannaður og segja má að Austin Allegro, sem átti marka nýja stefnu hjá British Leyland hafi meira og minna verið framleiddur úr gömlum bílum fyrirtækisins.
Annað vandamál var hve bíllinn ryðgaði illa og þá sérstaklega afturendinn.
Mörgum þótti þessir bílar nokkuð knáir og voru þeir bílar sem komu seldir voru hér á landi með annaðhvort 1300 eða 1500 rúmsentimetra vélum. Enda byggði sölu- og markaðsdeild auglýsingar í kringum slagorðið „vroom“ á Allegro 3 árið 1979.
Samt vinsæll
Hvað sem því líður var Austin Allegro gríðarlega vinsæll bíll í Bretlandi á áttunda áratugnum. 1979 var Austin Allegro í sjötta sæti yfir mest seldu bíla í Bretlandi en það er sex árum eftir að hann kom fyrst á markað. Árið 1981 fór að draga úr sölu bílsins enda samkeppnisaðilar búnir að skjóta sér langt fram úr hvað hönnun og tækni varðar.
Árið 2006 vor samt sem áður yfir 1000 Austin Allegro enn skráðir í Bretlandi en sú tala var reyndar komin niður í um 200 bíla árið 2016. Það var svo árið 1987 sem hætt var að nota Austin vörumerkið sem hafði þá verið við lýði í 82 ár. Eftir það framleiddi British Leyland bíla undir nafninu Rover í samvinnu við Honda.
Sem eigandi Austin Allegro 1978 verð ég að segja að kaup mín á slíkum bíl voru eflaust þau verstu sem ég hef gert á mínum bílaferli.
Myndir: Wikipedia.
[Greinin birtist fyrst 2019]
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein