Milton Da Silva, faðir kappaksturshetjunnar Ayrton Senna, lést í gær, 94 ára gamall. Tuttugu og sjö ár eru liðin síðan sonur hans dó í hörmulegu slysi á Imola-brautinni á Ítalíu. Senna varð í þrígang heimsmeistari í Formúlu 1 og var þrjátíu og fjögurra ára gamall þegar hann lést þann 1. maí árið 1994
Milton Da Silva var kaupsýslumaður og byrjaði viðskiptaferil sinn á því að kaupa og selja bíla. Eftir nokkur ár í bílabransanum færði hann út kvíarnar og stofnaði málmvinnslufyrirtæki. Hann var víst býsna slyngur kaupsýslumaður og fjölskyldufyrirækið var stöndugt.
Þótti Milton liggja beinast við að sonurinn, Ayrton, ynni við hlið hans í fjölskyldufyrirtækinu en það leyndi sér ekki að áhugi sonarins lá annars staðar. Og átti Milton þar hlut að máli.
Maðurinn sem kom Senna af stað
Þegar Ayrton Senna var um fimm ára gamall smíðaði Milton go-kart bíl handa honum. Og tengingunum var kastað. Strákurinn var heillaður af bílnum sínum og hafði yndi af því að þeysast um. Í bílnum var lítill sláttuvélarmótor sem kom fimm ára guttanum þangað sem hann þurfti.
Ayrton keppti fyrst í go-kart þrettán ára gamall, á öðrum bíl vissulega, og þá sá faðir hans að stráksi var bara virkilega góður ökumaður. Þarna var sko eitthvað! En hvað það var, átti eftir að koma í ljós svo um munaði.
Var stoð og stytta Senna
Það, að Ayrton hefði ekki áhuga á að vinna við hlið föður síns í fjölskyldufyrirtækinu, kom ekki illa við Milton. Það var jú hann sem kom drengnum af stað í mótorsportinu og hæfileikar hans leyndu sér ekki. Þess vegna hvatti hann son sinn alla tíð og var virkur þátttandi í öllu sem að kappakstursferli hans snéri.
Svo því sé haldið til haga þá er Senna komið úr móðurfjölskyldu Ayrton. Móðir hans og eftirlifandi eiginkona Milton Da Silva er Neyde Joanna Senna. Ástæða þess að Ayrton notað nafn móður sinnar mun hafa verið sú, samkvæmt Wikipediu, að það hentaði ferli hans betur því nafnið Da Silva mun vera eitt algengasta ættarnafnið í Brasílíu. Hið brasílíska Jónsson, ef svo má segja.
Charles Marzanasco Filho, vinur fjölskyldunnar og ráðgjafi Ayrton Senna skrifaði í Twitterfærslu að Milton hafi gegnt mikilvægu hlutverki allan keppnisferil Senna. Hann hafi hvatt hann og gefið sig allan í kappaksturinn og það sem honum fylgdi.
Filho skrifaði líka að Milton hafi haft miklar áhyggjur af syni sínum og verið afar hræddur um að eitthvað kæmi fyrir. Einkum og sér í lagi eftir að Ayrton Senna varð heimsmeistari í fyrsta sinn, árið 1988. Þá var Milton á því að þarna væri best að hætta. Hætta á toppnum. En ekki hætti sonurinn og átti hann glæstan feril uns yfir lauk.
Áfram lifir minningin um feðgana sem í sameiningu gáfu akstursíþróttaheiminum mikið og það mun ekki gleymast.
Umræður um þessa grein