F-150 breytt af Arctic Trucks sökk í Norður-Íshafið í mars. Það var verið að bjarga honum
Í mars komu fréttir af því að breyttur Ford F-150 hafi fallið í gegnum ís nálægt Tasmaníueyjum við heimskautsbauginn. Pallbíllinn, sem Arctic Trucks hafði breytt fyrir ferðina, var hluti af hringferð sem kallast Transglobal Car Expedition, sem sneri aftur fimm mánuðum síðar til að ná ökutækinu upp úr Íshafinu. Hópurinn notaði kafara, flotbúnað fyrir loftpúða og þyrlu til að ná pallbílnum upp aftur.
Pallbíllinn var enginn venjulegur F-150. Arctic Trucks hafði breytt honum mikið í AT44 forskriftina, sem þýðir að hann var með stórum 44 tommu dekkjum sem eru tilvalin til að halda pallbílnum „fljótandi“ á djúpum snjó.
Eða eins og Autoblog-vefurinn segir í fréttinni: „Ef fyrirtækið hljómar kunnuglega, þá er það vegna þess að það er það sama og breytti bílum fyrir Top Gear-þættina í ferð Toyota Hilux pallbíla á norðurpólinn.“
Stærstur hluti breytinga fyrirtækisins er byggður á Toyota, þar á meðal Land Cruiser, bæði upprunalegan og Lexus GX, en fyrirtækið gerir einnig breytingar á Isuzu, Nissan, Mercedes Sprinter, VW Amarok og Iveco pallbílum og jeppum.
Endurhönnuðu í raun Ford F150-bílinn
Við hér hjá Bílabloggi vildum vita meira og leituðum til Emils Grímssonar framkvæmdastjóra Arctic Trucks til að fá nánari upplýsingar um málið.
„Leiðangurinn í mars var prófun á því hvort hægt væri að komast frá megin vegakerfi í Norður-Ameríku og upp á ís á Norður-Íshafinu, prófun okkar á því hvort AT44 byggður á Ford F150 myndi virka í svona umhverfi en við erum með gríðarlega reynslu með þetta byggt á Hilux,“ segir Emil.
„Við köllum bílinn AT44 F150, þar sem okkur finnst breyttur bíll ekki gefa rétta mynd, því bíllinn er að mörgu leyti endurhannaður.
Í þessum leiðangri var markmiðinu náð; að vera fyrstir til að komast uppá Íshafið. Það var á bakaleiðinni sem bíllinn fór niður um örþunnan ís en 4 dögum og 2 tímum fyrr vorum við búin að mæla þennan ís sem 50cm þykkan, okkar viðmið voru 30 cm sem öryggismörk.
Við vitum núna að við sérstakar aðstæður (nýtt tungl) myndast gríðarlegir straumar þarna á grynningum á milli eyjanna sem éta upp ísinn neðan frá, á yfirborðinu var í kringum 30 stiga frost allan þennan tíma.“
Flókið skipulag við björgunina
„Arctic Trucks skipulagði alla þessa björgun, það var í mínum höndum að setja þetta upp, sækja um öll leyfi og skrifa uppá,“ segir Emil.
„Skipulagið við þetta „recovery“ var mjög flókið. Ég byrjaði á því að skoða og kanna möguleika í byrjun apríl og planið er ekki komið í þessa mynd fyrr en í enda júlí. Master-skjalið með lýsingu á aðgerðaráætlun var upp á 57 síður. Það er ekki bara mjög flókið og erfitt skipulag varðandi flutninga hérna heldur fjölmargar opinberar stofnanir í Kanada og sérstök réttindi sem íbúar þessa svæðis hafa og þurfa að setja sinn stimpil á.“
Þessi eyja er mjög afskekkt og lítið hægt að grafa upp um staðhætti en næsta byggð er lítið inúíta þorp sem heitir Taloyoak í um 230km fjarlægð í loftlínu.
„En þar sem Taloyoak gat ekki boðið upp á gistingu fyrir flugáhöfn þá færðum við „basecamp“ til Gjoa Haven þar sem Amundsen dvaldi sínum tíma. Á siðustu stundu kom upp mál þar sem Gjoa Haven tilkynntu að þeir ættu ekki lengur eldsneyti nema í neyðarflug. Þessar byggðir fá bara eldsneyti einu sinni á ári sem er í fyrri hluta september en Taloyoak átti eldseyti þannig að við bjuggum til þríþyrningsflug til og frá eyjunni.“
Mikil straumur þar sem bíllinn lá
„Að ná bílnum sjálfum upp á yfirborðið var í höndum þriggja Íslendinga; Torfa Jóhannssonar, Jónasar Þorvaldssonar og Árna Kópssonar. Það var gríðarlegur straumur á staðnum og Jónas, sem fór fyrst niður að bílnum sem var á 11 metra dýpi, sagði að þetta hafi verið rosalegt.“
„En teymið leysti málið fljótt og náði að færa bílinn til rétt á meðan enginn ís var yfir bílnum, inn í vík þar sem auðveldara var að vinna við bílinn sem var á hvolfi, koma honum á rétta kjöl og síðan í land,“ sagði Emil Grímsson að lokum sem var á fullu við það að ganga frá áður en þeir færu aftur heim.
Dramatískt augnablik þegar bíllinn sökk
En við skulum enda á því að líta aftur á frásögn Autoblog af atvikinu í mars:
„Því miður dugði útbúnaðurinn ekki til að forða Ford frá því að fara í gegnum ísinn þegar reynt var að aka yfir ísilagt Franklin-sund þann 23. mars. Torfi Birkir Jóhannsson ökumaður sagði frá atburðinum:
„Mig grunaði fljótlega að það væri djúpt vatn undir og við myndum missa bílinn. Hugsun mín var „á hverju þurfum við mest að halda áður en við missum hann”. Ég var að meta hvort ég ætti að fara aftur inn í bílinn til að ná í föt, símann, tölvurnar mínar o.s.frv., en ákvað að hoppa upp á þakgrindina og ná í fatnað sem við fjögur höfðum geymt á þessum bíl.
Mér tókst að losa tvær ólar og töskurnar fjórar, ég hugsaði með mér að við þyrftum þetta sérstaklega ef hinn bíllinn myndi líka fara niður og stökk því af stað til að koma þessum töskum á öruggari ís.“
Engin önnur farartæki urðu fyrir óhappi en teymið segist hafa viljað yfirgefa staðinn í eins óspilltu ástandi og hægt var. Svo þeir vörðu mánuðum í að finna út hvernig hægt væri að endurheimta sokkinn Ford-bílinn. Lausnin fólst í því að vanir norðurskautskafarar festu stóra loftpúða á pallbílinn og fleyttu honum að nærliggjandi eyju.
Þar var bíllinn skoðaður og festur neðan í Super Puma þyrlu sem fór með hann til Taloyoak í Nunavut í Kanada. Leiðangurinn á einu afskekktasta svæði heimsins reyndist vel, eins og blaðið Car and Driver greindi frá. Fordinn bíður nú næsta skips sem mun flytja hann til Montreal.
Leiðangursmenn drógu dýrmætan lærdóm af þessum leiðangri, sem er aðeins prufuferð fyrir sjálfa hringferðina um jörðina. Sú 25.000 mílna ferð mun hefjast í september á suðurodda Argentínu, norður í gegnum Suður- og Norður-Ameríku áður en komið er á norðurpólinn.
Ætlunin er að skilja F-150 pallbílana eftir í Resolute, Nunavut, og halda áfram með fjóra rússneska Yamelya sex hjóla landgöngubíla til viðbótar. Þaðan ætlar 16 manna hópurinn að fara yfir heimskautið og ferðast suður um Grænland. Þeir munu koma með skipi til Danmerkur áður en þeir fara yfir Evrópu og Afríku. Að lokum ætla þeir að fara yfir Suðurskautslandið aftur til Argentínu og koma í janúar 2024.
Tilgangur leiðangursins er að „sameina fólk um allan heim í einni sameiginlegri ferð,“ segir á heimasíðu leiðangursins. Liðið samanstendur af Bandaríkjamönnum, Kanadamönnum, Rússum, Úkraínumönnum og Íslendingum.
Hér má fara inn á Facebooksíðu leiðangursins.
Umræður um þessa grein