Munið þið eftir þegar rafbílar voru hrikalega ljót og kassalaga fyrirbæri? Eitthvað sem stórfurðulegur karl í næsta bæjarfélagi átti og flestir töldu víst að hann hefði smíðað sjálfur.
Rafdolla sem var úti í sóðalegum bakgarðinum, innan um gömul baðker, ónýt raftæki og morkin dekk.
Þá sjaldan hann kom „tækinu“ af stað, biðu allir í hverfinu spenntir eftir að eitthvað klikkaði og svo þegar það gerðist, bentu menn á karlinn og „bílinn“ hans og hlógu bæði hátt og hrossalega.
Ég man eftir einum svona karli. Krakkarnir sögðu að hann væri „klikkaður vísindamaður“ sem hafði víst „lesið yfir sig“ þegar hann var að klára doktorinn og væri bara alveg ga-ga. Já, og sennilega væri hann að smíða geimflaug inni í stofunni hjá sér; þess vegna væri alltaf dregið fyrir hjá honum. Og í garðinum, innan um bilaða ísskápa, var eitthvað tæki sem hann kallaði „rafmagnsbíl“ sem væri framtíðarökutæki.
Hann átti kannski ekki við þetta eintak, heldur rafbílinn yfirleitt, sem ökutæki framtíðar.
Þetta er liðin tíð; að það séu bara einstaka sérlundaðir „rugludallar“ sem eiga rafbíla sem hlegið er að (bæði bílunum og körlunum). Og karlinn, þessi furðulegi, reyndist þegar allt kom til alls, vera algjör meistarasnillingur. Í dag þykast flestir eflaust hafa borið mikla virðingu fyrir honum „í denn“.
Gott og vel. Það sem er aðallega liðin tíð er að rafbílar séu ljótir, hallærislegir, alltaf bilaðir og hálfgerð fyrirbæri í ruslahrúgum sérvitringanna.
Þeir ætla líka með okkur inn í framtíðina. Það er að segja rafbílarnir.
Fyrir stuttu skrifaði undirrituð um bíl sem samtíminn hafnaði en hann, rétt eins og Kia EV6 og Hyundai Ioniq 5, hafði útlitið með sér. Munurinn hlýtur samt að felast í því að Stout Scarab var á undan sinni samtíð en hinir tveir eru á réttum tíma og ef við áttum okkur ekki á því…þá erum við eiginlega tímaskekkjan í þessu öllu saman.
Hæ nútími og halló þægindi
Auðvitað þurfa ekki allir að vera á sama máli um hvort bíllinn sé fallegur eða ekki. Það er nú í raun ekki mál málanna. Eitt lítið dæmi um útlitsatriði sem hinn gamli Stout, EV6 og Ioniq 5 eiga sameiginlegt, eru húnarnir.
Þeir eru „faldir“ þ.e. þeir falla að bílnum þegar honum er læst eða þegar ekið er af stað. Það er hugsun að baki; þetta dregur úr loftviðnámi. Jú, og svo gerir þetta bílana rennilegri ásýndar.
Skiptingin er á snúningshjóli eða skífu á miðjustokki og er ljómandi þægilegt að nota hana. Engar stangir eða stautar út í loftið. Miðstöðin er líka „áþreifanleg“, þ.e. þó að voðalega margt sé stafrænt þá er samt hægt að „skrúfa“ upp hitann eða niður. Það þykir mér alla vega fínt.
Vil hafa tilfinningu fyrir þessu – sérstaklega af því að oft hækkar eða lækkar maður hitann við akstur og vill að sjálfsögðu ekki þurfa að glápa á skjá til þess.
Bílstjórinn er ekki rammaður inn í „búr“ eða hólf í sætinu sínu heldur getur hann hreyft sig í þægilegu sætinu sem má fella alveg niður t.d. meðan hlaðið er. Það er nánast endalaust pláss hér og þar fyrir töskur og dót. Í miðjustokki, hurðum, hanskahólfi og já, það er alla vega nóg af hólfum í bílnum.
Blessuð börnin í góðum málum
Aftur í bílnum er heldur betur gott pláss og geta bæði smáir og ekki svo smáir látið fara vel um sig þar. Það er ekkert sem kemur upp úr gólfinu því hönnunin er þannig að rafgeymarnir liggja undir (kann ekki að skýra það nánar) og gólfið því sléttur flötur sem liggur við að segja að hægt sé að ganga um.
Engir hólar eða hæðir upp úr gólfinu. Sætin aftur í eru líka þægileg, rétt eins og framsætin og hægt að halla þeim (miðjusætið og vinstra aftursætið er þó ein eining), sem er góður kostur.
Okkur barst ábending, býsna góð ábending, í tölvupósti um það að gott væri ef við gætum haft í huga í reynsluakstri hversu auðvelt er að koma barnabílstól fyrir aftur í bílunum.
Góður punktur en þar sem undirrituð er ekki á þeim stað í tilverunni að vera með lítið barn þá fann ég sýnishorn í myndbandi og hér er hlekkur á það.
Segir sá sem þar talar að vel fari á að koma bílstól inn og út um afturdyr því þær má opna alveg upp á gátt og er opið sjálft virkilega rúmt. Þannig að barnabílstóll = já, ekkert mál.
Nefnir hann þó að ISOFIX bílstólafestingarnar séu dálítið faldar og að krækja þurfi í þær en það gæti verið af því að þær höfðu ekki verið notaðar áður. Um að gera að prófa bílinn með þetta í huga, þ.e. þau ykkar sem eruð með börn á þeim „bílstólaaldri“ en KIA EV6 er algjörlega frábær í heildina litið fyrir fjölskyldur.
Til dæmis má nefna farangursrýmið; að framan- og aftanverðu auðvitað. Samtals er farangursrými bílsins tæplega 600 lítrar.
USB-tengi eru í sætisbaki framsætanna fyrir þá sem sitja aftur í og geta allir tengst því sem tengjast þarf. Ekkert rifrildi takk!
Það er frekar erfitt að sjá út um afturrúðuna; hún er agnarsmá og er hátt uppi. Sem betur fer eru myndavélarnar góðar og ótal skynjarar en það virðist vera sem hönnun bíla, t.d. Polestar 2 og EV6 sé að færast í þá átt að afturrúðan er að verða að einhvers lags kýrauga og blindpunktarnir eru of margir. Kannski þarf maður bara að venjast því að treysta alfarið á tæknina?
Langt kemst hann á hleðslunni
Það er fínt að aka EV6 þó það sé ekki neinn sportbílafílingur til staðar, þannig séð. Það er nefnilega þannig að ekki þurfa allir bílar að vera „sport-eitthvað“.
EV6 er lipur, ljúfur, þýður og góður og í raun væri kjánalegt að reyna að troða einhverju voðalegu sporti í hann.
Afturhjóladrifni bíllinn með 58 kWh er skv. framleiðanda 8,5 sekúndur frá 0 upp í 100 km/klst og sá fjórhjóladrifni 6.2 sekúndur. Það er nú bara fínt.
Ég ætla ekkert að tjá mig um hraðhleðslu eða eitthvað hleðslutengt þar sem ég í fyrsta lagi ÞURFTI ekki að hlaða bílinn – já, það er nefnilega svo mikið brill!
Nýting hleðslunnar var svo miklu magnaðari en ég hafði þorað að vona (góðu vön eftir Ioniq 5 prófun sem fór skuggalega langt fram úr væntingum mínum) að þann tíma sem ég prófaði bílinn komst ég ekki einu sinni nærri því að hlaða hann. Það var reyndar ekki planið því ég vil helst alltaf prófa að hlaða þá rafbíla sem ég skrifa um.
En í þetta skiptið var það í lagi. Nánar um eyðslutölur, helstu mál og aðrar tölur hér.
Góður og gagnlegur staðalbúnaður
Verðið á EV6 í grunnútfærslu (Style) er 5.990.777 kr. (er þetta 777 á verðmiðum KIA til að minna á sjö ára ábyrgð? Hlýtur að vera…).
Búnaðurinn er mjög fínn í þeirri gerð og má þar til dæmis nefna varmadælu, akstursaðstoð, bakkmyndavél og blindblettavara (eins gott!), alla mögulega skynjara og árekstrarvara, hita í stýri og framsætum, íslenskt leiðsögukerfi og svo mætti áfram telja. Hlekkurinn hér að ofan vísar líka á upptalningu staðalbúnaðar.
Dásamlegu smáatriðin
Eins og lesendur kannski vita þá gleðja smáatriði í hönnun bíla mig oft afskaplega mikið. Eitt sem ég er æðislega hrifin af í nýlegum bílum frá KIA og Hyundai er að bíllinn lætur mann vita þegar bíllinn fyrir framan er farinn af stað, þ.e. ef maður er eitthvað utangátta og lengur að taka við sér en alla jafna.
Þetta má stilla en gott er að hafa þetta á t.d. í umferðarteppu eða bara alltaf. Það hefði nú verið fínt að hafa svona í Woodstock-öngþveitinu mikla um árið!
Næsta smáatriði sem á líka við um nýlega Hyundai og KIA er það sem kallast „voice memo“.
Segjum sem svo að skáldagyðjan banki óvænt upp á þegar maður er úti að aka þá er það í góðu lagi. Getur maður þá blaðrað viðstöðulaust og tekið herlegheitin upp og hver veit nema úr því verði bók. Og svo getur verið gaman að hlusta á vitleysuna í sjálfum sér seinna. Eða kannski ekki.
Í flestum rafbílum er hægt að svæðisskipta miðstöðinni, þ.e. þannig að ekki sé allt á fullu, hakkandi í sig rafhleðsluna þegar maður er t.d. einn í bílnum. Mikið gott.
Næstsíðasta smáatriðið er hljóðið sem hægt er að kveikja á og urrar það í takt við gjöfina, eða malar. Allt eftir því hvernig skapi maður er í þá stundina. Því miður gleymdi ég að taka upp smá hljóðdæmi en hér er eitthvað sem ég fann á YouTube (frekar lélegt myndband en samt eitthvað):
Athugið að hér er margt óheppilegt og alls ekki til eftirbreytni, eins og að kvikmynda og aka á sama tíma og það að aka voða hratt. En hljóðið er skemmtilegt.
Síðasta og alls ekki sísta smáatriðið er hvernig hleðslubrettið fyrir farsímann er vel staðsett í miðjustokki. Síminn er vel skorðaður og fer ekki á flakk þó svo að hleðslan sé þráðlaus.
Ótrúlegt en satt þá er allt of sjaldgæft að símtæki „sitji kyrr“ á þar til gerðu hleðslubretti og það fer óheyrilega í taugarnar á mér að þurfa að dorga símann upp þar sem hann hefur skoppað á milli sætanna.
Í heildina litið var ég afskaplega ánægð með KIA EV6. Þó svo að ég myndi ekki velja hann til að keppa á í bakkaksturskeppni. Það er ekki að ástæðulausu að bílablaðamenn hafa hrósað þessum bíl í bak og fyrir; meira að segja Top Gear gaf EV6 9 stig af 10 mögulegum. Það er nú eitthvað!
Heimurinn er loks tilbúinn fyrir bíla á borð við þá frændur EV6 og Ioniq 5. Það er gott og um að gera að taka þeim fagnandi. Kannski tími Stout Scarab sé loks að renna upp? Þeir myndu taka sig vel út saman.