EV eða PHEV? Sá á kvölina sem á völina.
Það eru til ýmsar útgáfur af bílum sem eru með rafmótorum og stundum eru illskiljanlegar skammstafanir viðloðandi þá. Reynum að átta okkur aðeins á þessum skammstöfunum í vonandi ekki allt of löngu máli.
EV eða Electric Vehicle er bíll sem er knúinn áfram með rafmagni; svokallaður rafbíll.
BEV eða Battery Electric Vehicle er líka rafbíll sem tekur eingöngu orku frá rafgeymum en þetta er skrifað svona til aðgreiningar frá bílum sem hafa tvo orkugjafa og tvo mótora.
HEV eða Hybrid Electric Vehicle er tvinnbíll. En slíkur bíll er með tvo mótora; annar er rafmótor en hinn er brunahreyfill. Þessir bílar eru aldrei tengdir í rafmagn með snúru heldur eru rafgeymar eða þéttar hlaðnir í akstri með ýmsum aðferðum. Í sumum útfærslum snýr brunahreyfillinn rafal sem framleiðir rafmagn fyrir rafmótor.
Þetta er gert til að ná niður eldsneytiseyðslu (sem þýðir minni mengun) og/eða afköstum.
PHEV stendur fyrir Plug-in Hybrid Electric Vehicle sem eru svokallaðir tengi- eða tengitvinnbílar. Hægt er að hlaða rafgeyma í tengitvinnbílum með því að stinga þeim í samband við rafmagn með snúru eins og 100% rafbílum. En þetta er meginmunurinn á tengitvinnbíl og tvinnbíl.
Tengitvinnbílar eiga að vera hagkvæmari í rekstri en bílar sem eru eingöngu með brunahreyfil.
Tvinn- og tengitvinnbílar eiga það sameiginlegt að geta verið drifnir eingöngu af rafmótorum (þá er brunamótorinn eingöngu til að drífa rafal), bruna- og rafmótor sem vinna alltaf saman eða bruna- og rafmótor sem geta bæði unnið saman eða í sitt hvoru lagi.
Vonandi eru lesendur einhverju nær.
Umræður um þessa grein