- Jepplingur og sportari eru tvær nýjar rafbílahugmyndir frá Honda á CES 2025.
Síðastliðinn þriðjudagsmorgun sló Honda heldur betur í gegn á tæknisýningunni CES sem haldin var í Las Vegas að þessu sinni. Samkvæmt því sem kom fram á síðustu sýningu CES lofaði Honda að koma með tvær gerðir af svokölluðum 0 series árið 2026 frá rafbíla bækistöðvum þeirra í Marysville, Ohio, norður af Columbus.
Ekki hafa verið gefin upp nein gerðarheiti enn, en bílarnir tveir eru meðalstór jepplingur og flaggskips sportari sem gengur undir vinnuheitinu Saloon.
Þó báðir séu bílarnir á frumgerðarstigi eins og er, heldur Honda því fram að þeir fari í framleiðslu á næsta ári.
Báðar gerðir eru hannaðir til að nota þriðja stigs sjálfvirkan akstur, þannig að menn ættu að geta keyrt með lokuð augun á meðan þeir gera eitthvað annað á meðan eins og að horfa á kvikmynd eða taka Zoom fund.
Honda þakkar nýju stýrikerfi að geta skapað einstaklingsmiðaða, sérsniðna akstursupplifun sem á að geta séð um afköst bílsins og allt til upplýsinga og afþreyingarstillinga. Framleiðsluútgáfur eiga að koma fyrst á Bandaríkjamarkað, síðan til Japan og þá Evrópu.
Honda 0 jeppinn verður fyrstur
0 Seris jeppinn kemur fyrstur árið 2026 en hann hvílir á sérstökum EV palli Honda (Honda Prologue sem þegar er fáanlegur, notar rafhlöðupall frá GM). Á CES kynningunni í fyrra lagði Honda sérstaka áherslu á það sem þeir kalla „Concept Space-Hub” sem liggur í plássmiklu og þægilegu innanrými.
Þó að Honda hafi ekki gefið út mikið af upplýsingum um tækniþætti bílanna vitum við að fjöðrun og bremsum verður stjórnað með tölvutækni.
Eftir jepplingnum kemur síðan sportarinn
Sportarinn er eins og þrumufleygur í laginu. Í fyrra spunnust talsverðar umræður um lag bílsins en líklega mun framleiðsluútgafan hafa svipaða lögun.
Hann liggur mjög lágt í anda Honda, klemmdur framendi og kassalaga hallandi bakendi sem gerir bílinn sérlega flottan og sérstakan. Það er á hreinu að þessi bíll verður ólíkur flestum öðrum á rafbílamarkaðinum. Hann á að koma út seinnipart árs 2026.
Nýtt stýrikerfi
0 Series verða fyrstu farartækin til að nota ASIMO OS, „in house” stýrikerfi Honda nefnt eftir manneskjulegu vélmenni Honda sem fyrst var kynnt árið 2000 og skammstöfun fyrir „Advanced Step in Innovative Mobility”.
Þar sem 0 serían er í raun „næsta kynslóðar” bílar vildu Honda fella nútíma vélaverkfræði og hugbúnaðarskildan arkitektúr inn í stýrikerfi bílanna.
Þetta þýðir að líklega verða kynntar einhverjar háþróaðar nýjungar varðandi sjálfkeyrandi akstur og upplýsinga- og afþreyingareiginleika bæði jeppans og sportarans.
Amazon á bak við tjöldin
Amazon Web Services, þekkt sem AWS, var einnig tilkynnt á þriðjudag sem nýr Honda samstarfsaðili sem mun sjá um hugbúnaðinn fyrir nýju rafbílana, á sama tíma og að hjálpa til við að hanna þá og smíða.
AWS verður nauðsynlegur hluti af háþróuðum aksturseiginleikum ásamt myndbands- og öðrum upplýsinga- og afþreyingar- og öryggiskerfum. Með lokamarkmiði Honda um að veita næstum ökumannslausa upplifun þarf að vera hægt að uppfæra hugbúnaðinn stöðugt og oft.
AWS mun einnig hjálpa til við að hanna rafhlöður frumgerðanna. Með því að nota skapandi gervigreindarkerfi munu bílarnir greina rauntímagögn eins og staðsetningu, rafhlöðustöðu, hleðslutíma og gjöld til að ákvarða hvar best sé að hlaða hverju sinni. Það verður þá nóg að gera í Staðarskála í Hrútafirði þegar þessir bílar koma hingað til lands.
Honda hefur sýnt að rafknúnar hugmyndir þeirra og frumgerðir, eiga möguleika á markaði og hafa lifnað við og náð árangri, með til dæmis Prologue rafjeppanum sem var fyrst sýndur árið 2022, en hann sló í gegn árið 2024.
Uppruni: Autoblog
Umræður um þessa grein