Eru rafbílar óþarflega litlir?
Allir fyrstu rafbílarnir sem undirritaður sá t.d. í sjónvarpi eða settist inn í voru litlir bílar. Mjög litlir bílar. Þeir sem hönnuðu þá virtust vera fastir í þeirri hugmynd að lítill bíll er sparneytinn og umhverfisvænn.
En rafbíll sem er lítill hefur lítið pláss fyrir rafhlöður. Lítill rafbíll hefur litla drægni. Rafhlaðan er í raun tankurinn í bílnum og því minni sem hann er því styttra kemstu á tanknum.
Þetta voru sannkallaðir snattbílar. Ekkert samviskubit yfir því að skjótast út í sjoppu á svoleiðis bíl en verra ef þú þurftir að keyra mikið yfir daginn.
Flestir rafbílar sem eru í boði núna eru í „eðlilegri“ stærð. En er það nóg þegar tekið er tillit til þess að stærri bíll getur borið stærri rafhlöðu?
Rétt eftir síðustu aldamót komu fram tveir athyglisverðir stórir 8 hjóla rafbílar í Japan sem slógu hraðamet, hröðunarmet og drægnimet fyrir rafbíla. Þeir voru KAZ (Keio Advanced Zero-emission vehicle) sem er hægt að lesa um hér (Electric Lithium-Ion Car) sjá hérna.
Kannski fengu Japanskir bílaframleiðendur sína verkfræðinga frá Keio háskólanum en fjöldaframleiðsla á rafbílum hófst skömmu síðar þar í landi?
Þó að rafhlöður fyrir rafbíla séu að þróast í rétta átt og léttast, verða minni og ódýrari, þá gildir enn að stór bíll getur borið stærri og jafnvel fleiri rafhlöður. Þar með ætti stór bíll að draga lengra en lítill rafbíll. Stór rafbíll gæti líka ferjað meiri farangur og farþega.
Mér finnst það hljóma skynsamlega að framleiða stóra rafbíla en þeir gætu verið með nokkrum vararafhlöðum ef út í það er farið og þá væri hægt að skipta yfir á vararafhlöðu ef aðalrafhlaðan tæmist. Þetta er ekki eins mikil spurning um eyðslu eins og í bíl með brunahreyfli. Hvað finnst ykkur?
En hér er ein spurning í lokin. Þegar það verður ekkert meira jarðefnaeldsneyti í boði og bensínstöðvarnar bjóða eingöngu upp á rafhleðslu verða þær ennþá kallaðar bensínstöðvar?
Umræður um þessa grein