Fugladrit: Þessar viðurstyggilegu lummur sem helst mættu vera á hafi úti en lenda því miður á hverju því sem fyrir vill verða. Til dæmis bílum. Sumir bílar virðast fá voldugri skammt að skít en aðrir. Er eitthvað sem hefur þar áhrif? Lögun, litur, aflgjafi, tegund eða skrifast þetta á annað?
Heyrn dýra og rafbílar
Nú, auðvitað er hið augljósa það að ef maður leggur undir myndarlegu tré eða undir stóra ljósastaurnum niðri á höfn þá hljóta að vera meiri líkur á fuglaskít á bílnum en ef lagt er fjarri slíku. Og ekki þarf að taka fram (en ég geri það nú samt!) að inni í bílskúr eru vissulega litlar líkur á fugladriti – þó að allt geti sannarlega gerst!
Undirrituð veit um hund sem þolir ekki rafbíla. Blessaður hvuttinn á erfitt með hljóð eða tíðni í rafbílum (og það sama gildir um rafmagnsvespur, hjól og hlaupahjól) og verður trítilóður þegar eitthvað slíkt er í námunda við hann. Hann myndi örugglega ekki hika við að gera stykkin sín á rafbíla ef hann gæti, en það er nú önnur „pæling“.
Ekki er úr miklu að moða þegar leitað er að ritrýndum vísindagreinum um rafbíla, tíðnisvið og heyrn hunda.
Hvað sem því líður þá er það nú staðreynd að „rannsókn“ hefur verið gerð á „skítamálinu“ eða öllu heldur þessu með fugladritið og bílana. Öllu leiðinlegri staðreynd er sú að vísindaleg er hún nú ekki beint, að mati undirritaðrar, en látum það ekki spilla ánægjunni þá loksins maður fær tækifæri til að fjalla um eitthvað skítlegt.
Athugun Halfords
Þar sem þetta er ekki akademísk rannsókn er best að kalla þetta athugun eða einfaldlega könnun. Þeir sem fyrir henni fóru voru á vegum Halfords aukahlutakeðjunnar. Fylgdust þeir með 1140 bílum í fimm enskum borgum: Í Brighton, Glasgow, Leeds, Manchester og Bristol. Já, athugendur fylgdust með því hverjir þessara bíla væru „dritríkastir“ og töldu hversu oft fuglar drituðu á tiltekið úrtak bíla.
Það er sennilega ástæða fyrir því að ekki er greint mjög ítarlega frá aðferðum athugenda því þetta virkar frekar spes.
Þessu komust þeir að
Það sem út úr þessu öllu saman kom var að litur bíla hefði mest að segja. Þannig að svarið við spurningunni í fyrirsögninni er: Já, ef rafbíllinn er rauður. En það svar er vissulega á gráu svæði því þetta hefur ekkert með rafbíla að gera sérstaklega.
Einfaldlega var það sem út úr athuguninni kom að fuglar drituðu oftast á rauða bíla en svona var „dreifingin“ ef svo má komast að orði:
Rauðir: 18%
Bláir: 14%
Svartir: 11%
Hvítir: 7%
Gráir: 3%
Grænir: 1%
Skemmst er frá því að segja að eftir að niðurstöðurnar voru kynntar gaf British Trust for Ornithology lítið fyrir þær þegar viðbragða var óskað. Bent var á að það hefði meira að segja hvar bílnum væri lagt því þótt þekkt væri að fuglar heilluðust oft af bílum í áberandi litum (eins og rauðum) væri öllu ólíklegra að þeim tækist að miða með mikilli nákvæmni út hvar úrgangurinn kæmi til með að lenda.
Gaman að þessu! En þó ekki að dritinu sjálfu. Það er bölvaður óþverri hvar sem það lendir!
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein