Er V8 vélin komin að leiðarlokum?
Þegar ég var lítill strákur að alast upp í nágrenni Hringbrautarinnar í Reykjavík var eitt hljóð sem skar sig úr, var spennandi og áberandi; hljóðið í V8 vélum. Þetta var á árunum í kringum 1970 en þá var verið að framleiða kraftmestu V8 mótorana í Bandaríkjunum. Svo skall á svokölluð orkukreppa og þá urðu vélarnar aflminni, sparneytnari og búnar mengunarbúnaði.
Ég held að þetta hljóð ásamt reffilegum amerískum köggum hafi verið kveikjan að bíladellunni hjá mér.
En það var kominn inn slatti af þessum V8 amerísku bílum, nóg til að maður heyrði þetta V8 hljóð á hverjum degi jafnvel áratugi á eftir. Malandi eins og köttur í hægagangi, urrandi og öskrandi eins og ljón þegar mótorinn var kominn á meiri snúning.
Með lítilsháttar breytingum eða stillingum varstu með verksmiðjuframleiddann bíl sem gat þess vegna prjónað úti á kvartmílubraut. Þetta voru sannkölluð tryllitæki.
Seinna var farið að framleiða nýja kynslóð af Chevrolet Camaro, Ford Mustang og Dodge Challenger sem voru meðal öflugustu bílanna seint á sjöunda og snemma á áttunda áratugnum og með svipuðu útliti.
Þá fjölgaði V8 bílunum aftur. Þetta voru bílar sem voru á löngu tímabili ekki of stór biti fyrir meðaljóninn að eignast. Þetta virðist vera mótor fyrir ríka fólkið núna eins og hann var upphaflega.
Nú er hending ef ég heyri í V8 mótor nema endrum og eins á sumrin. Ég held að það sé ekki þverrandi heyrn.
Því spyr ég er V8 mótorinn kominn að leiðarlokum? Er hann að hverfa?
Umræður um þessa grein