Jóhannes Reykdal og Pétur R. Pétursson
Við fengum það ánægjulega tækifæri að prófa fyrsta Škoda Elroq bílinn sem fór á götuna á Íslandi, nýkominn til Heklu á Laugaveginum. Ef þetta er það sem Škoda stefnir á inn í framtíðina er framhaldið spennandi, Elroq leit vel út í bæklingnum – og stóð svo sannarlega undir væntingum í akstri.

Gullfalleg hönnun á nýjum Elroq frá Škoda.
Þrjár spennandi útfærslur
Škoda Elroq er fáanlegur í þremur útfærslum: Selection, Style og Sportline kemur síðan í sumar. Hver þeirra býður upp á einstaka eiginleika sem höfða til ólíkra notenda.
Selection er hagnýtur og hagkvæmur, Style býður upp á glæsileika og þægindi á meðan Sportline leggur áherslu á sportlegt útlit og kraftmikla upplifun.

Reynsluakstursbíllinn var með rafdrifinn afturhlera.
Hvernig er að aka nýja Elroq
Škoda Elroq er virkilega lipur og þægilegur í akstri. Stýrið er nokkuð nákvæmt í ætt við bíla frá VW samsteypunni. Fjöðrunin virkar meira eins og í hefðbundnum bíl með brunavél en þeim rafbílum sem við höfum prófað.

Það sem kom Jóhannesi Reykdal mest á óvart var hve fjöðrunin er góð í þessum bíl. (sjá myndband).
Framleiðendur virðast vera að færast nær því að bæta aksturseiginleika rafbíla með stillingu fjöðrunar og spila á þyngdina sem liggur neðst í svona bílum.
Elroq er afar hljóðlátur, enda ekki mikið mótorhljóð í rafbílum yfirleitt, vel einangraður og lítið umhverfisshljóð sem oftar en ekki fer í taugarnar á mörgum ökumönnum.

Afturhjóladrif með öflugri spólvörn
Einn helsti styrkleiki Elroq er afturhjóladrifið, sem gefur bílnum sportlegri aksturseiginleika. Spólvörnin kom skemmtilega á óvart, sérstaklega þegar ekið var á blautum götum – stöðugleikinn var til fyrirmyndar og gripið í beygjum áberandi betra en í mörgum öðrum sambærilegum rafmagnsbílum.






Öflug rafhlaða og framúrskarandi drægni
Með 77 kWh rafhlöðu fær Elroq drægni upp á 540–580 km samkvæmt WLTP mælingum. Þetta gerir bílinn að frábærum valkosti fyrir íslenskar aðstæður, hvort sem þú ert að keyra um höfuðborgarsvæðið eða leggja í lengri ferðir út á land.
Rafhlaðan hleðst hratt og auðveldlega, sem gerir daglegt líf einfaldara og fyrirhafnarminna.
Varmadæla er í öllum gerðum. Þú ert um 28 mínútur að hlaða bílinn í hraðhleðslu frá 10-80%.

Þrjár gerðir í boði, Selection, Style og Sportline.
Afl sem skilar sér auðveldlega
Með 286 hestöflum stendur Elroq aðeins uppúr í þessum stærðarflokki. Í reynsluakstrinum var greinilegt að þessi kraftur gerir bílinn kvikan í akstri, með frábæru viðbragði bæði í borgarakstri og á hraðbraut.
Hröðunin var slétt og kraftmikil – sem er eiginleiki sem mun án efa heilla akstursunnendur. Sætin halda vel utan um búkinn og maður sveiflast ekki til og frá í beygjum.
Fótapláss er mjög gott frammí, en ekki síður aftur í þar sem fór virkilega vel um okkur prófunarmenn – sem báðir eru frekar hávaxnir. Innréttingin í reynsluaksturs bílnum vekur eftirtekt fyrir að vera smart og hagnýt en leðuráferð er á slitflötum og sportlegt áklæði á milli. Allur frágangur 100% eins og Škoda er von og vísa.

Höfuðpláss aftur í er ótrúlega gott miðað við stærðarflokk bíls.
Simply clever
Þær lausnir sem Škoda hefur kosið að kalla Simply Clever eru einstakar. Til dæmis er skottið í bílnum með farmfestingum sem þú smellir á teppið með „frönskum” rennilás.
Þannig getur þú skorðað ýmislegt smádót þannig að það renni ekki um allt farangursrýmið.
Regnhlífin er á sínum stað í bílstjórahurð og snjóskafa með málstiku er í skottlokinu. Málstikan er til að mæla dýptina á munstri dekkjanna. Svo er farangursgeymslan á tveimur hæðum líka.





Sérlega vel búinn
Hægt er að panta bílinn í alls níu litum hjá Heklu. Selection útgáfan er mjög vel búinn bíll. Til að mynda er í honum hljóðeinangrandi gler, sem skýrir hversu lítið hljóð berst inn í bílinn. Hljómtæki með átta hátölurum, akreinavari, skynjarar að framan og aftan og umferðaskiltalesari.

Í Style bílnum eru þessi flottu sæti, klædd taui í miðju og leðri á slitflötum. Um er að ræða Lodge innréttingu.
Í Style gerð, umfram Selection bílinn erum við að tala um 20 tommu álfelgur, 360° myndavél, háuljósaaðstoð og nudd í ökumannsssæti.
Í toppgerðinni, Sportline eru síðan 20 tommu álfelgur, Sportline sæti, sportstilling í akstursvali og bílastæðaaðstoð. Bíllinn sem við prófuðum var af Style gerð, First edition með Lodge innréttingu og svokölluðum vetrarpakka – virkilega flottur bíll.

Niðurstaða
Nýi Škoda Elroq stenst allar væntingar og gott betur. Hann sameinar framúrskarandi drægni, kraftmikla frammistöðu og örugga aksturseiginleika.
Með þremur fjölbreyttum útfærslum, öflugri 77 kWh rafhlöðu og 286 hestöflum er hann vissulega einn af topp valkostunum á íslenska markaðnum.
Ef þú ert að leita að nýjum rafbíl sem sameinar gæði, kraft og akstursánægju, þá er Elroq sannarlega bíll sem vert er að prófa.
Við mælum eindregið með því að kíkja til Heklu á Laugaveginum og taka Elroq í reynsluakstur – það er upplifun sem þú munt ekki sjá eftir!
Myndband
Helstu tölur:
Verð: 5.990.000 kr. – 6.990.000 kr. með orkustyrk.
Orkugjafi: Rafmagn
Afl: 470 hö.
Tog: 545 Nm.
Rafhlaða: 77 kWh.
Farangursrými: 470 lítrar
Drægni: 540-580 km. skv. WLTP staðli
Drif: RWD
Lengd/breidd/hæð – mm: 4.488/1.884/1.625