Er Kia EV3 einn af þeim bestu í sínum flokki á rafbílamarkaðinum í dag?

Tegund: Kia EV3

Árgerð: 2025

Orkugjafi: Rafmagn

Góð sæti, þægilegur akstur, fín drægni
Stýri skyggir á skjá að hluta
279
DEILINGAR
2.5k
SMELLIR

  • Við mælum með myndbands umfjöllun með þessum bíl!

EV3 lúkkar sérlega vel. Það má vel sjá hönnunareinkenni stærri bílsins, EV9.

Kia EV3 er nýjasta viðbótin í rafbílaflóruna frá suður-kóreska bílarisanum, og við fengum að prófa hann á íslenskum vegum.

Þrátt fyrir að vera í minni kantinum miðað við EV6 og EV9, þá er EV3 allt annað en smár – sérstaklega þegar kemur að aksturseiginleikum, hönnun og tæknibúnaði.

Stílhrein LED-ljós, djarfar línur og nokkuð „speisaður” framhluti

Ferskur og djarfur

Það fyrsta sem grípur augað er útlitið. EV3 erfir margt frá stærri bræðrum sínum – stílhrein LED-ljós, djarfar línur og nokkuð „speisaður” framhluti.

Bíllinn fær stjörnu frá okkur fyrir að sameina borgarvæna stærð við útlit sem kallar á athygli. Þessi bíll vill láta taka eftir sér – og tekst það ansi vel.

Stílhrein hönnun

Þegar maður sest inn í EV3, verður maður strax var við hversu bjart og rúmgott innanrýmið er. Miðjustokkurinn er sveigjanlegur og býður upp á óvenju mikið geymslupláss.

Innanrýmið er sérlega hugglegt og sérstaklega líkaði okkur hve mikið fótapláss er fram í.

Mælaborðið er einfalt og nútímalegt, með tveimur skjám sem renna saman í eina sjónræna heild – annar fyrir akstursupplýsingar, hinn fyrir afþreyingu og loftræstingu.

Efnisval er vandað og Kia leggur mikla áherslu á sjálfbærni með notkun endurunninna efna. Hins vegar er einn galli á gjöf njarðar með mælaborðsskjáinn þar sem loftræstihlutinn er hýstur.

Það var sama hvernig við stilltum stýrið, skjárinn var alltaf í hvarfi þegar litið var á hann. Það kemur kannski ekki svo mikið að sök því mælaborðið er búið alvöru tökkum fyrir miðstöðina sem er mikill plús í skjávæðingu bílaflotans síðustu misseri.

Þokkalegasta pláss aftur í, þó svo að fótapláss megi ekki minna vera með sætin í þeirri stöðu sem stilltum þau.

Kraftur og jafnvægi

Við ókum bílnum út um borg og bí, renndum til Keflavíkur og fundum meira að segja smá malarbút líka – og EV3 stóð sig frábærlega, sama hvaða yfirborð við buðum honum.

Farangurshlerinn er rafdrifinn á bílnum sem við prófuðum, hann opnast vel og hleðsluhæðin þægileg. (Í myndbandinu má sjá fleiri kosti farangursrýmis).

Þrátt fyrir að vera með fremur hóflegan mótor (u.þ.b. 200 hestöfl í útgáfunni sem við prófuðum), var viðbragðið lipurt og hröðunin létt.

Bíllinn er með sportlegri stýristilfinningu en margir keppinautar, og fjöðrunarkerfið virkar ágætlega.

460 lítra farangursgeymsla og 25 lítra „frunk” undir „vélarhlífinni”

EV3 er mátulega stinnur og tekur misfellur þokkalega. Hægt er að velja um mismunandi akstursstillingar. Bíllinn er búinn varmadælu og er með forhitunarmöguleika.

Hentar íslenskum aðstæðum

EV3 kemur með mismunandi stærðum rafhlaðna – við prófuðum stærri útgáfuna (81.4 kWh) sem býður upp á um 600 km drægni samkvæmt WLTP. Sú minni er um 58.3 kWh.  

Fínt að setjast inn og stíga út bæði að framan og aftan.

Í raunverulegum aðstæðum – með hita í sætum, útvarp í gangi og smá mótvind – var eyðsla um 18 kWh/100 km, sem er vel ásættanlegt.

Hraðhleðsla gengur þokkalega, en er kannski ekki á pari við Kia EV6 – þó EV3 styðji hraðhleðslu upp í um 120 kW.

Mikið fyrir peninginn

EV3 kemur með öllum þeim búnaði sem nútímaökumaður væntir: skynvæddur hraðastillir, veglínuskynjari, akreinavari og bakkmyndavél eru staðalbúnaður í flestum útfærslum.

Reynsluaksturs bíllinn var á flottum 19 tommu felgum.

Auk þess er bíllinn með „Vehicle-to-Load“ tækni sem leyfir þér að hlaða raftæki beint úr bílnum – allt frá fartölvum upp í rafmagnsgrill. Hvað staðalbúnað varðar er Kia EV3 ansi vel búinn en hægt er að velja úr fjórum mismunandi gerðum, Air, Earth, Luxury og GT-line sem kemur síðar á árinu.

Mikilvæg viðbót á rafbílamarkaðinn

Kia EV3 er ekki bara litli bróðir – hann er sjálfstæður karakter sem býður upp á mikið. Fyrir þá sem vilja fá hagkvæman og stílhreinan rafbíl með góða drægni, fjölskylduvænt innanrými og nýjustu tækni, þá er EV3 ótrúlega spennandi kostur.

Miðjustokkurinn er fljótandi og þar hefur verið komið fyrir stillingum sem auðvelt er að ná til í akstri.

Hann gæti hæglega orðið einn vinsælasti rafbíllinn á Íslandi á næstu árum – og við skiljum vel af hverju.

Verðið á bílnum sem við prófuðum er á pari við nýja Skoda Elroq sem er í kringum sex milljónir og upp í sjö ef skoðaðir eru sambærilegar týpur.

Við mælum með að skella sér í Kia umboðið og skoða hvaða týpa hentar þér best. Bíllinn er boðinn í átta flottum litum og þú getur síðan valið um hagnýta aukahlutapakka á fínu verði.

Myndband

Helstu tölur:

Verð: 5.290.777 kr. – 7.590.777 kr. með orkustyrk.

Orkugjafi: Rafmagn

Afl: 201 hö.

Tog: 283 Nm.

Rafhlaða: 58.3 – 81.4 kWh.

Farangursrými: 460 lítrar og 25 lítra frunk (geymslurými að framan)

Drægni: 430-605 km. skv. WLTP staðli

Drif: FWD

Lengd/breidd/hæð – mm: 4.300/1.850/1.560

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar