Síðustu vikurnar hafa margir spurt sig að því hvort Formúla 1 sé að þróast út í einhverja vitleysu? Síðasta sólarhringinn hefur sú spurning ítrekað komið upp hvort barátta þeirra Hamiltons og Verstappens um titilinn sé endanlega farin úr böndunum. Er það svo?
Ef því væri hægt að svara hér þá væri nú eitthvað verulega bogið við þennan vef og þá einkum blaðamann – en ætlunin er alls ekki að svara spurningunum heldur einfaldlega að miðla efninu.
Spurningarnar eiga vissulega rétt á sér því það sem til dæmis gerðist í keppninni í Sádí-Arabíu í gærkvöldi er eitthvað sem áhorfendur eiga ekki að venjast.
Keppnin þar sem allt klikkaði?
Eins og minnst var á í greinarkorni hér í gær þá fór æði margt úrskeiðis og var ræst þrisvar í keppninni; tvær endurræsingar þegar einungis 16 hringir af 50 höfðu verið eknir. Já, og fjórir keppendur úr leik.
Mick Schumacher ók út af á 10 hring og endaði á vegg. Þetta var á sama stað og Leclerk fór út af á föstudagskvöldið nema hvað bíll Schumachers skemmdist töluvert en hvorugur mannanna slasaðist.
Rétt eftir fyrri endurræsinguna ók Perez út af eftir samstuð hans og Leclerk. Þá ók Marzepin aftan á bíl Russels í algjöru kraðaki sem skapast hafði á brautinni.
Þá voru þeir Schumacher, Perez, Marzepin og Russel úr leik og óheyrilega mikið „drasl“ á brautinni eftir alla pústrana.
Framúrakstur, samningaviðræður og refsingar
Þegar undirrituð var að finna til myndbrot til að birta hér í tengslum við þau fjölmörgu atvik sem upp komu í gær varð á „internet-vegi“ mínum myndband þar sem farið er yfir umrædd atvik, auk þess sem búið er að klippa saman viðtöl við ökumenn og liðsstjóra sem tekin voru að keppni lokinni í gær. Er þetta svo vel unnið af REVV Motorsport að ég leyfi því að fylgja hér.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein