Land Rover kynnir nýjan Defender og nýja „limited edition“ útgáfu Discovery
Ný afbrigði Land Rover Defender „Hard Top“
Bæði Discovery og Defender-jepparnir frá Land Rover flokkast örugglega í hugum margra sem vel búnir jeppar, nánast „lúxusjeppar“ – en það er greinilega enn hægt að gera gott betra!
Land Rover hefur uppfært Discovery og Defender bílana, þann fyrrnefnda með nýrri vel búinni útgáfu í takmörkuðu upplagi („Limited Edition“) og þann síðarnefnda með nokkrum minniháttar breytingum sem koma með nýju árgerðinni.

Land Rover Discovery „Metropolitan Edition“
Nýi Land Rover Discovery „Metropolitan Edition“ er verðlagður á heimamarkaði frá 73.250 pundum (um 12,9 milljónir króna) og hann kemur með nokkra sérstæða eiginleika í útliti og góðan búnað.
Bíllinn er byggður á „R-Dynamic HSE“-forskrift fyrirtækisins, en fær nýjar 22 tommu demantsskornar álfelgur, nýjar silfurlitar innfellur í stuðarana, skyggðar rúður og „panorama“-glerþak sem hægt er að opna.

Kaupendur bílanna fá einnig mikið af aukatækni, þar á meðal sprettiskjá í sjónlínu ökumanns með upplýsingum, hita í stýrishjól, þráðlausa snjallsímahleðslu, fjögurra svæða miðstöð/loftkælingu og kælibox í innanrýminu, en títan áherslur eru á mælaborðinu.

Land Rover hefur ekki vanrækt restina af Discovery framboðinu, þar sem „R-Dynamic-gerðin“ er nú staðalbúin með svörtu gljáandi þaki.
Allar gerðir í jeppaframboðinu eru einnig með háþróuðu loftræstikerfi JLR, sem vaktar loftgæði bæði innan og utan bílsins og getur síað agnir niður í allt að 2,5 míkrón úr loftinu.
Discovery Commercial bíllinn, sem sameinar notkun bílsins í atvinnuskyni hefur líka fengið snögga uppfærslu með nýju R-Dynamic-útliti.
Bíllinn fær sömu sportlegu útlits- og hönnunarbreytingar og staðalgerð jeppans ásamt vali á álfelgum á bilinu 20 til 22 tommur. Að innan eru sportfótstig úr málmi, álklæðningar og skiptiflipar í stýri.

Defender með fleiri valkostum og nýrri tækni
2023 árgerðin af Defender sem væntaleg er árið 2022 kemur með stærri lista yfir valkosti og nýja tækni.
Stærsta breytingin hjá Land Rover er stærra 11,4 tommu Pivi Pro upplýsingakerfi sem verður staðalbúnaður í öllum útgáfum. Land Rover selur nú einnig Defender 90 „Hard Top“ sem er ætlaður á atvinnumarkaðinn með D250 sex strokka dísilvél með 48 volta mildblendingsbúnaði sem er fyrir ofan núverandi D200 gerð í Defender „Hard Top“-framboðinu.
3,0 lítra túrbó-einingin framleiðir 247 hestöfl og 600 Nm tog.
Verðið á nýju vélinni og búnaðarstigið er frá 48.390 pundum (um 8,6 milljónir), þó að kaupendur geti valið um að eyða 55.830 pundum (liðlega 9,8 milljónum króna) og uppfæra í bílinn í SE-útfærslu sem er miðar frekar að því að fytja farþega.
En með þessari viðbótargreiðslu koma uppfærðar 20 tommu álfelgur, LED aðalljós, lyklalaust aðgengi og skynjun blindpunkta.
Að innan er einnig miðjustokkur með armpúða, Meridian hljóðkerfi og rafstillanleg framsæti sem hægt er að stilla á 12 vegu og eru líka með hita.
(frétt á Auto Express)
Umræður um þessa grein