Engin bifreiðaskoðun á Grænlandi í 23 ár
Það hendir besta fólk að gleyma að fara með bílinn í skoðun á réttum tíma. En að það sé hreinlega ekki skoðunarskylda og engar bifreiðaskoðunarstöðvar á landinu er nú allt annað mál. Síðast fór bíll í skoðun á Grænlandi árið 1999. Það var á síðustu öld!
Áhugavert er að skrifa um Grænland, bíla og umferð í einni og sömu greininni því fyrir utan Nuuk eru bílar mjög fáir. Undirrituð skrifaði um „versta bílinn í Nuuk“ fyrir nokkrum mánuðum og kom eftirfarandi meðal annars fram:
„Í Nuuk á Grænlandi eru um 5.000 bílar og malbikaðir vegir sem hægt er að aka þeim eftir eru samtals um 120 kílómetrar. Á Grænlandi eru rétt um 6.000 bílar í heildina og Nuuk er sá staður þar sem hægt er að aka aðeins lengra en á milli húsa.“
Í athugasemd frá lesanda var athygli vakin á því að lítið hafi farið fyrir bifreiðaskoðun á Grænlandi síðustu tvo áratugina eða svo en það stæði til að bæta þar úr. Þakka ég fyrir ábendinguna og hér verða bílaskoðunarmál rakin í stuttu máli.
„Hvað er bifreiðaskoðun?“
Í frétt sem birtist á vef grænlenska útvarpsins þann 9. ágúst síðastliðinn er rammi þar sem einfaldlega er útskýrt hvað það nú er sem kallast bifreiðaskoðun.
Það er ekkert undarlegt að útskýra þurfi fyrir lesendum hvað um sé að ræða því ekki hefur farið fram bifreiðaskoðun á Grænlandi á þessari öld, eins og kom fram hér í inngangi.
Þá ferðuðust fjórir bifreiðaskoðunarmenn um Grænlandi og skoðuðu bíla. Rakst ég á litla klausu í dagblaðinu Atuagagdliutit eða Grønlandsposten eins og það heitir á dönsku, frá 9. nóvember 1999. Þar er sagt frá bifreiðaskoðuninni:
1714 ökutæki voru skoðuð eða 44% af skráðum ökutækjum á Grænlandi. Var lögð áhersla á að skoða atvinnubíla sem og eldri bíla. 20% komust í gegnum skoðun án athugasemda. 48% með fengu eina athugasemd en stóðust þó skoðun. 27% fengu endurskoðun og 5% ökutækja voru hreinlega úr leik.
Það sem helst voru gerðar athugasemdir við voru léleg dekk. Þá var ekki um að ræða slitin dekk heldur voru þau gömul. Ljósabúnaður kom þar á eftir og tiltölulega lítið mál að bregðast við því. Ryð var lítið sem ekkert og bílarnir nokkuð heillegir, að dekkjum undanskildum.
Já, þetta var árið 1999 og innan við helmingur skráðra ökutækja var skoðaður þá. En nú á allt að breytast og eftir fund Eriks Jensen varaformanns Naalakkersuisut og Tine Bramsen samgönguráðherra Danmerkur var ákveðið að nú skyldi taka upp bifreiðaskoðun á Grænlandi. Tuttugu og þriggja ára skoðunarhléi er því að ljúka.
Hvernig komst þessi gegnum skoðun?
Þegar undirrituð fór fyrst til Grænlands í aðdraganda skákmóts á vegum Hróksins (árið 2005) fékk ég far upp bratta brekku. Þetta var í bænum Tasiilaq sem er stærsti þéttbýlisstaður á Austur-Grænlandi.
Man ég að þetta þótti mér spaugilegt því það voru nánast engir bílar í þessum bæ. Ojæja, far fengum við, ferðalangarnir, í litlu „bitaboxi“ og minnist ég þess að hafa hugsað: „Hvernig komst þessi gegnum skoðun?“ Nú er svarið við þeirri ágætu spurningu komið.
Það var engin skoðun til að „komast í gegnum“.
Hefur lengi staðið til
Nú er ég ekki með það á hreinu hvernig málin hafa þróast á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru frá því að ákveðið var að taka upp bifreiðaskoðun aftur á Grænlandi. Í ágúst kom fram að alla umgjörð vantaði utan um hvernig staðið skyldi að skoðuninni því ekkert var um hana að finna í grænlenskum umferðarlögum frá árinu 2008. Hvernig og hver ætti að framkvæma slíka skoðun var ekki ljóst en vonandi eru þau mál að taka á sig mynd.
Árið 2011 var blásið í lúðra og tilkynnti þáverandi samgönguráðherra, Henrik Dam Kristensen, að allt væri að smella og ný löggjöf um bifreiðaskoðun væri handan við hornið. Það horn hefur verið æði langt í burtu því ekkert gerðist. Nú eru þessi skrif mín orðin harla pólitísk og það er slæmt því ég hef ekki hundsvit á pólitík.
Hitt veit ég þó og það er að margir gleðjast yfir að til standi að bæta úr umferðaröryggismálum hjá nágrönnum okkar á Grænlandi.
Tengt efni:
Á versta bíl í Nuuk: Bílasaga frá Grænlandi
Þegar maður fær grænan miða…
Vanbúið ökutæki hinum megin á hnettinum
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein