Ekur þú með lokuð augu?
Það er ekki að undra að maður spyrji! Jafngildir það ekki að aka með lokuð augu að slá inn skilaboð á messengerinn á 96 kílmótra hraða á Reykjanesbrautinni, þar sem hún er enn einbreið?
Tæknin er ekki öll þar sem hún er séð
Undanfarinn áratug eða svo hefur tækninni fleygt svo fram að hún er farin að snúast upp í öndverðu sína.
Meginþorri þjóðarinnar er á Facebook og notar ómældan tíma í að fylgjast með efni sem þar er að sjá.
Ungt fólk er hætt að tala saman og sendir hugsanir sínar, óritskoðaðar beint út í kosmóið. Úr er að verða hin mesta samfélagsflækja.
Blákaldur veruleikinn
Ég ætlaði alls ekki að skrifa einhvern sálgreiningarpistil hér á Bílablogg.is.
En ég hef verið hugsi undanfarið því mér finnst ég sjá svo marga tala í farsímann undir stýri.
Og sumir aka hratt, og sveigja á milli akreina á meðan.
Óþarfa, alþjóðleg rúlletta
Hafa lesendur prófað að aka á 80-90 km/klst. og senda skeyti í gegnum messenger á snjallsíma? Það tekur ekki nema um örfáar sekúndur að klessa bílinn, stórslasa bláókunnugt fólk og það eru kannski um 4-5 tímar sem líða frá banaslysi og að liggja inni í kæli í líkpoka. Þú ætlaðir kannski að vera kominn heim og drífa þig í sjósund með konunni.
Ekki treysta bílnum blint
Í dag er hægt að kaupa bifreið sem ekur sjálf, nánast hjálparlaust. Hún er með akreinavara, akreinastýringu, skynvæddum hraðastilli, getur ekið sjálf af stað úr kyrrstöðu, lætur þig vita ef þú heldur ekki nógu vel um stýrið, fylgir leyfilegum hámarkshraða og heldur að öllu leyti vel utan um ökumann og farþega í akstri.
Til að stilla bifreiðina í akstri þarftu að fikta í misstórum tölvuskjám og kafa missdjúpt inn í stýrikerfi stjórnkerfis bílsins. Eitthvað er hægt að stilla í kyrrstöðu en ekki allt.
Óhugnanlegar tölur
Bandaríkjamenn eru klárir í að safna tölulegum upplýsingum. Samkvæmt upplýsingum frá NHTSA, sem er nokkurskonar Samgöngustofa þeirra Bandaríkjamanna láta um 3.000 manns lífið við að senda skeyti úr snjallsímum eða spjaldtölvum. 60% af táningum, 18 ára og eldri viðurkenna að hafa sent tölvupóst eða skeyti í akstri.
Að senda skeyti í snjallsíma undir stýri, skerðir viðbragðstíma ökumanns svipað og þegar hann hefur drukkið fjóra sterka bjóra á einni klukkustund.
35% ofangreindra táninga viðurkenna að slá inn skilaboð á snjallsíma í akstri, jafnvel þó að 94% þeirra skilji hættuna við athæfið.
Einn af hverjum fjórum táningum viðurkenna að bregðast við allavega einu skeyti eða tölvupósti í hvert sinn sem þau aka bíl.
Hvað er til ráða?
Ef við getum ekki farið eftir reglunum, ætti þá til dæmis að gera skeytasendingar óvirkar þegar ökutæki er á ferð? Ef þú ert nappaður við slíkt athæfi, ætti að skylda þig til að horfa á aðkomu að slysi sem varð vegna þess að verið var að senda eða móttaka skeyti í snjallsíma?
Ætti að skylda þig til að heimsækja endurhæfingarstofnanir og ræða við fórnarlömb umferðarslysa vegna notkunar snjallsíma eða fara með þig í líkhús og sýna þér illa útleikið lík eftir umferðarslys þar sem snjallsími var orsakavaldurinn.
Það væri líka hægt að nota einfaldari refsingar eins og til dæmis að bora misstór göt í bretti bifreiðarinnar sem þú ert nappaður á við að nota snjallsíma.
Nú eða nafnið þitt færi í bæjarblaðið, líkt og um dagbók lögreglu væri að ræða. Bolli Bollason, 25 ára Reykvíkingur var stöðvaður í gær við að nota snjallsíma undir stýri. Hann fær nafnbótina drullusokkur dagsins í dagbók lögreglu.
Myndband:
Ekki fyrir viðkvæma!
Umræður um þessa grein