Ekki þiggja far með þessum! – Íslensk bílalög
Íslenskir lagatextar þar sem bílar koma við sögu eiga það margir hverjir sammerkt að þar er fjallað um bílstjóra sem maður þægi aldrei far með eða… handónýtar bíldruslur sem aldrei hefðu átt að fá skoðun.
Svo ekki sé minnst á hið klassíska umfjöllunarefni sem gjarnan er uppspretta harkalegs orðaskaks og jafnvel slagsmála: Íslenskir vegir og íslenskar holur í stað vega.
Lítum nánar á þetta!
Brýtur alla gíra
Það er iðulega góð regla í þverfaglegri umfjöllun á borð við þessa að byrja einfaldlega á byrjuninni. Hvar eigum við að byrja? Jú, á Gamla Nóa.
Farkosturinn var nú ekki beysinn hjá hinum guðhrædda og vísa manni, Nóa.
Hann ók kassabíl en sérstæðum þó. Kassabíllinn var með gírkassa.
Gírkassa sem auðvelt er að telja hina mestu hrákasmíði því hinn frómi maður braut í honum alla gíra:
Gamli Nói, gamli Nói
keyrir kassabíl.
Hann kann ekki að stýra,
brýtur alla gíra.
Ekki skánar það þegar rýnt er í þýðingu hins upprunalega lagatexta eftir Carl Michael Bellman (íslensk þýðing: Eiríkur Björnsson). Hinn mikli kassabílafantur er nefnilega forfallinn drykkjumaður og ætti slíkur maður aldrei að stýra nokkru farartæki; enda ófær um að stýra samkvæmt textanum.
Ford ´57 kemur þér í partý
Í augum og eyrum sumra okkar fara partý og akstur bifreiða álíka vel saman og olía og vatn. Sumsé ekki.
Þó er til lag og lagatexti þar sem ræfilslegur Ford af árgerð 1957 varð til þess að maður nokkur endaði í teiti, einn með kviknöktum konum þremur. Allt væntanlega bifreiðinni að þakka.
Hér er vitnað í texta lagsins Komdu í partý, eftir Magnús Eiríksson. Mannakorn sáu um flutning.
Nú er hér aðeins um einfalda textarýni að ræða og byggist það sem fram kemur hvorki á sögu höfundar né útskýringum á nokkurn einasta hátt. Bara svo það sé á hreinu.
Gleymum okkur ekki í fluðri og höldum áfram!
Hefði hann (sögumaður) ekki verið á þessum Ford ´57, heldur t.d. rafmagnshlaupahjóli, þá hefði hann aldrei átt möguleika á að bjóða þessum „pæks“ far. Samkvæmt óáreiðanlegum heimildum greinarhöfundar merkir „pæks“ einfaldlega pæjur eða gellur.
Þ.e. snotrar stúlkur (einnig nefndar skutlur, skvísur, píur, duggur og guggur).
Svona er fyrsta erindið:
Ég var að rúnta á ræfilslegum Ford ´57,
einmana í brakinu og klukkan orðin tvö.
Þá urðu á vegi mínum pæks ég veifaði upp á grín,
þær sögðu komdu, komdu, komdu í partý til mín.
Hér er sögumaður augljóslega staddur á krossgötum: Hann er á vegamótum eða í það minnsta götum sem skerast. Hann stendur, á þessum tímapunkti, frammi fyrir einhvers konar vali eða þáttaskilum.
Leyfum textanum að njóta sín og segja söguna:
Veistu hvað ég gerði þarna á gamla Fordinum,
ég bauð þeim öllum þremur far og kveikti á kananum.
Ég spurði, hvert skal aka og hvort einhver ætti vín,
þær sögðu komdu, komdu, komdu í partý til mín.
Þegar maður er að aka um á gömlum skrjóð stendur það heima þegar mikið liggur við: Það koma upp álita- og vandamál. Hvað er þá best að gera? Segjum til dæmis að farin sé hjólalega.
Hvað gera flestir? Jú, mikið rétt: Þeir hækka í útvarpinu! Sem er einmitt það sem sögumaðurinn okkar gerði. Hann kveikti á Kanaútvarpinu.
Hér var þó engin hjólalega farin og svona endaði bíltúr sá, á slitnum Ford ´57 með útvapi og öllu:
Við fórum svo í kyrrlátt hús og kveiktum þar dauf ljós,
þær komu svo með brennivín og kókakóla í dós.
Þær klæddu sig úr hverri spjör og kneifðu þetta vín,
þær sögðu komdu, komdu, komdu í party til mín.
Nú tala ég sem kornung skutla: Ég hefði 100% látið til leiðast; heimtað bíllykilinn, skutlað liðinu í teitið og haldið áfram að rúnta á þessari gömlu drossíu fram í rauðabítið.
Ljósabekkir og ljósmyndir
Tvennt sem nánast heyrir fortíðinni til: Ljósabekkir og ljósmyndir. Um hvort tveggja er fjallað í lagi Bítlavinafélagsins Þrisvar í viku. Jón Ólafsson samdi lagið sem veitir innsýn í líf ungs manns með eilífðarbylgjur í hárinu. Auðbjörn hinn tvítugi var æði skipulagður og vanafastur; forgangsröðin var á hreinu og eflaust hægt að stilla einhverjar klukkur og jafnvel úr, eftir daglegri rútínu mannsins sem textinn fjallar um.
Ég heiti Auðbjörn, er tvítugur töffari,
Fór í bæinn í dag og fékk mér varanlegt.
Ég á hvítan sportbíl með topplúgu.
Ég hlusta á Wham og Ashford og Simpson
með bílgræjurnar í botni je je.
Og rúnta um helgar á bónuðum bílnum
Ég fer í ljós þrisvar í viku
og mæti reglulega í líkamsrækt
ég fer í Hollywood um helgar
með mynd af bílnum í vasanum
Auðbjörn, hinn tvítugi töffari, fór í ljós þvisvar í viku. Stundaði reglulega líkamsrækt. Átti hvítan sportbíl með topplúgu og fór á rúntinn um helgar á nýbónuðum kagganum.
Já og svo fór hann á skemmtistaðinn Hollywood um helgar en hann var ekki værukær – síður en svo! Hann gætti þess að mæta á tjúttið með mynd af bílnum í vasanum.
Þetta með myndina er lykilatriði:
Eftir erfiða viku, sem tilraunadýr húðlækna sem rannsökuðu skaðsemi ljósabekkja, var hann eflaust gjörsamlega búinn á því blessaður.
Eins og framlag hans til vísindarannsókna hafi eitt og sér ekki verið nóg þá fór hann sem fyrr segir, reglulega, í líkamsrækt.
Það gæti hafa verið á fjórða degi, þ.e. fimmtudegi.
Á fimmta degi, þ.e. föstudegi, bónaði hann hvíta sportarann og þá var nú góðri vinnuviku lokið.
Helgunum varði hann í Hollywood, skemmtistað í Reykjavík sem starfræktur var frá 1978-1987. Þá mátti ekki leyfa glaumi og kátínu að skyggja á tilganginn með þessu öllu:
Ef þú gast sýnt fram á að þú ættir almennilegan bíl voru líkur á því að einhver stúlka vildi koma með þér út fyrir. Kannski ekki til að skoða bílinn en hver veit.
Svo fylgir því án efa nokkur öryggistilfinning að vera með mynd af bílnum, besta vini mannsins (var það ekki annars örugglega bíllinn? Alla vega í nútímanum?), í vasanum.
Ef allar stelpurnar gæfu nú skít í sólbekkjahetjuna okkar þá er það huggun harmi gegn að geta laumað hendinni í vasann og dregið upp ljósmynd af þeim sem aldrei hallmælir manni: Bílnum!
Brotnar legur hvað?
Hvað eru brotnar legur á milli vina? Í það minnsta er þessi byrjun á lagatexta virkilega athyglisverð og eftirminnileg því textinn er tiltölulega einfaldur:
Taka taka taka taka taka ta
Búmm saka búmm búmm búmm [og áfram heldur lagið]
Hér má auðveldlega hrapa að þeirri ályktun að verið sé að lýsa með hljóðum (hljóðlýsa) íslenskum vega- og gatnamálum og er það alls ekki svo fjarri sanni.
Þarna er nefnilega hárfín lýsing á holóttum vegi og biluðum bíl. En jafnframt er hér um fallegt kærleikssamband manns og bíls að ræða. Reyndar einhliða þannig að samband er ekki alveg rétt, heldur kærleiksband…
Þetta er lagið Bíllinn minn og ég með Skriðjöklum.
Nema hvað: Eftir nokkur búmm saka búmm búmm búmm fáum við að vita að það er ekki bara vegurinn sem er í klessu heldur bíllinn líka:
Nú við ökum úr bænum
búmm saka búmm, búmm búmm,
upp í sveit í einum grænum
gatan er öll í holum
og þá ek ég þér hægar
gangverkið allt í molum
og ég tek á þér vægar.
Maður verður meyr við tilhugsunina um hversu vænt honum (held þetta sé ekki kona. Að minnsta kosti syngur karlmaður) þykir um bílinn.
En jafnframt skín í gegn ákveðinn kvíði. Verkkvíði og frestunarárátta. Jafnvel vankunnátta þegar kemur að bílaviðgerðum.
Hann veit að bíllinn er í köku, allt í steik, en samt ekur hann eftir handónýtum vegi og lofar öllu fögru og friðar hugann og kannski samviskuna líka með því að „taka vægar“ á bílnum.
Það breytir ekki þeirri staðreynd að gangverkið er jú í „molum“ og allra síst skánar ástandið við þetta.
En verkkvíðinn, frestunaráráttan eða hvað þetta nú er eykst bara. Næsta erindi segir meira um það:
Það er enginn sem getur skilið
hvað ég elska þig mikið
og þegar við komum aftur
skal ég þvo af þér rykið.
Vonandi gerir hann það, þvær blessaðan bílinn eftir þetta volk og torfærur.
Bíllinn lagast þó lítið við það og einhvern veginn grunar mann að bíllinn verði ekki þveginn í bráð.
Það er líka alveg satt og rétt sem segir í textanum að „enginn getur skilið hvað ég elska þig mikið“.
Nei, manni er hreinlega fyrirmunað að skilja hvernig hann getur elskað bíl sem hann hvorki heldur hreinum né lagar eða lætur laga.
Þetta hljómar allt eins og sjálfsblekking og réttlæting kvíðins manns fyrir því að gera hreint ekki baun fyrir ökutækið sitt.
Við skulum nú samt leyfa manninum að njóta vafans: Kannski er hann bara svona illa að sér hvað bíla snertir og hefur ekki hugmynd um í hversu hörmulegu standi bíllinn hans blái er.
Hann veit auðvitað ekki að hann ekur um á tæki sem setur bæði hann sjálfan og aðra vegfarendur í stórhættu. Hann veit ekki að þetta er tifandi tímasprengja sem hann situr í.
Eða hvað?
Við lestur á texta næstu erinda er ekki um að villast að ökumaðurinn breytir gegn betri vitund með því að aka bílnum í því ástandi sem hann (bíllinn) er.
Það þykir mér leitt því satt best að segja var ég farin að óska þess að ég væri að dæma manninn að ósekju og komin með samviskubit yfir því hversu óvægin ég var í umfjöllun minni.
En það er ekki svo gott. Næstu tvö erindi sýna því miður og sanna að það er engum vafa undirorpið: Maðurinn er skussi!
Búmm saka búmm, búmm, búmm,
elsku bíllinn minn blái
búmm saka búmm, búmm, búmm,
þó brotnar legur þig hrjái
kominn að niðurlotum
já, þú kemst þetta af vana
gírkassinn er í brotum,
já, þú ert dreginn af krana.
Þegar allar stelpur þáðu far með ókunnugum
Brrrr… Þessi millifyrirsögn verður til þess að manni rennur hreinlega kalt vatn (þó ekki frostlögur) á milli skinns og hörunds. Ekki þiggja far með ókunnugum! Og ekki hoppa upp í bíla!
Hér er sannarlega átt við lag HLH Flokksins, Vertu ekki að plata mig.
Þarna er augljóslega á ferðinni stelpa sem er engri annarri lík. Hún er með bein í nefinu og gefur frat í hjarðhegðunina þegar strákur, mjög heillaður af henni, reynir að fá hana inn í bílinn hans. Hún heldur nú ekki og segir (mögulega hálfmóðguð yfir því hversu vitlaust hann reiknaði hana út, strákskömmin):
Vertu ekki að plata mig,
þú ert bara að nota mig.
Ég er ekki eins og allar stelpurnar
sem hoppa’upp í bíla, með hverjum sem er.
Úff! Þetta er kjaftshögg. Gefum okkur að pilturinn hafi ekki haft neitt illt í hyggju. Þá er þetta einn feitur á lúðurinn: „Hvað heldurðu að ég sé? Þú ert bara eins og hinir slordónarnir; tælir auðtrúa stúlkukindur upp í bílinn og finnst þær allar af sama sauðahúsinu.“
En nei, ónei! Hún er sko ekki þannig. Sármóðguð yfir því að: a) Hann sé handónýtur mannþekkjari, eða b) Hann sé dónakarl.
Hvernig sem í pottinn er búið í þessu tilviki er strákur virkilega leiður því hann sennilega ætlaði að leyfa stelpunni sem hann hafði augastað á heyra hvernig bíllinn hans hljómaði í fjórða gír:
Ég myndi gera allt í veröldinni fyrir þig,
ef þú aðeins vildir fylgja mér.
Á drekanum við rennum niðr´í bæ
í fjórða gír.
Svona getur þetta stundum verið. En af hverju virðast það iðulega vera karlmenn sem, í þessum textum, bjóða kvenfólki far? Ojæja, kannski rötuðu hin tilvikin, þar sem kvk bauð kk far, ekki inn í lagatexta.
Myndbandið hefur löngum þótt agalega töff og því við hæfi að hafa það með.
Eitt jákvætt í lokin þótt óheppilegt sé
Undirritaðri finnst hún hafa verið ferlega kaldhæðin í þessari umfjöllun. Það er rétt, enda um grín að ræða á góðum degi.
Lagatextarnir voru ekki samdir til að kyrja í sunnudagsmessu, heldur eru þeir flestir laufléttir og minna okkur á að taka lífinu ekki alltaf háalvarlega. Það má nú sprella svolítið!
Trúið mér: Kæmi maður ekki auga á skoplegu hliðar lífsins, væri maður löngu dauður úr leiðindum. Það er alla vega reynsla mín því enn tóri ég!
Það er vel við hæfi að ljúka þessari „lagagrein“ á lagi með texta eftir mikinn aksturs- og bílaunnanda; Ómar Ragnarsson.
Lagið Þrjú hjól undir bílnum var hvorki samið um þríhjólabílinn Reliant Robin né Bond Bug, ef einhver kannast við þær tríólógísku hamfarir.
Ómar sagði frá því í viðtali sem birtist í Alþýðublaðinu árið 1965 að lagið væri erlent og textinn lauslega þýddur. Einhvern veginn efast ég þó um að Ómar hafi aldrei lent í því að hjólin voru ekki lengur fjögur undir bílnum, heldur þrjú.
Sjálf hef ég nú reynt það og gleymi seint þótt ekkert hroðalegt hafi beðið hnekki – annað en sjálfstraustið! Þannig var að ég ók upp í Mosfellsbæ árið 1998 á mínum skjannahvíta og nýbónaða Fiat Uno ´87.
Við pápi höfðum sett vetrardekkin undir Fiat fyrr um daginn og mér leið eins og forstjóra á svona fínum bíl með ný dekk (fjögur) undir bílnum.
Rétt eftir að ég ók fram hjá Korpúlfsstöðum tók náungi framúr og benti ítrekað og í óðagoti á mig.
Sautján ára blávatnið ég brosti bara og hélt að annað hvort þætti honum Fiatinn minn svona fínn eða ég svona sæt.
Brosið hvarf af andlitinu á mér við Lágafellskirkju þegar mikið „búmp“ heyrðist og skyndilega varð mikil vinstri slagsíða á okkur Uno, með tilheyrandi sargi og andstyggðarhljóðum.
Andartaki síðar tók dekk framúr okkur. Það var vinstra framdekkið og þarna voru þrjú hjól undir bílnum mínum.
Það er kannski óþarft að birta allan textann við lagið Þrjú hjól undir bílnum en síðasta erindið og hið dásamlega jákvæða viðlag birtast þó hér:
Ekkert hjól undir bílnum, hann áfram skröltir ei meir.
Hann liggur á hlið, í hyldjúpri á,straumurinn gjálfrar gluggum á.
En við kyrjum á kafi í vatni og leir.
Við syngjum: Hibbidí-hæ og hibbidí-hí,
svo bergmálar fjöllunum í.
Hérna rétt sunnan við hálsinn er sæluhús,
við gætum sofið þar öll, uns birtir á ný.
Best er að hlýða á lagið sem er hér fyrir neðan (ekki beint hægt að tala um myndband því þetta er upptaka án myndbands) og taka lífinu létt og þakka fyrir að oftast eru þau fjögur, hjólin undir bílunum okkar.
Ef þið, lesendur góðir, þekkið betur til lagatextanna og jafnvel tilurð þeirra eða sögu, þá megið þið endilega senda mér tölvupóst á malin@bilablogg.is
[Greinin birtist fyrst 10. mars 2021]
Hafðir þú gaman af þessari grein? Þá gætir þú haft áhuga á:
Sannleikurinn um Bjössa á mjólkurbílnum
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein