Stundum eru fréttirnar um fréttamenn. Í gær fór á flug ein slík frétt um Tori nokkra Yorgey sem var í þann mund að hefja mál sitt í beinni fréttaútsendingu þegar ekið var á hana. Það sem gerðist svo er eiginlega enn sérstakara.
Auðvitað og sem betur fer er óvenjulegt að ekið sé á fréttamenn við vinnu sína en allt getur þó komið fyrir. Sjálf var ég eflaust bara heppin þegar ég gegndi starfi fréttamanns. Það eina óheppilega var þegar smábarn tók vænan bita af svampinum á hljóðnemanum þegar ég var í hálfnuð að taka viðtal við móðurina.
Okkur tókst með snarræði að ná bitanum rétt áður en barnið blessað kyngdi honum með RÚV-merkinu og öllu.
En þetta var nú algjör útúrdúr! Fréttamaðurinn sem hér er til umfjöllunar, Yorgey, var um það bil að hefja upp raust sína í beinni útsendingu í fréttatíma WSAZ í Vestur-Virginíu þegar ekið var á hana. Hún flaug um koll en það sem er svo magnað er að hún hélt bara áfram með sína frétt!
Þið verðið að sjá þetta til að átta ykkur á þessu sérstaka atviki:
Það er óhætt að segja að þessi kona sé vinnusöm því hún kláraði sitt. Bestu fréttirnar í fréttinni um fréttamanninn (hvað eru margar fréttir í því?) sem varð fyrir bíl eru auðvitað þær að í lagi var með Yorgey. Hún fór á sjúkrahús þar sem athugað hvort eitthvað væri laust sem ætti að vera fast o.s.frv. og allt reyndist í besta standi.
Ekki í fyrsta skipti…
Yorgey sagði í gær, þegar hún var komin á fréttastofuna í öruggt skjól, að í fyrstu hafi hún alls ekki áttað sig á að hún hefði orðið fyrir bíl. En eins og heyra má, eftir byltuna, var hún þó býsna fljót að hugsa og hætti í raun aldrei að „blaðra“ í útsendingunni.
Nú mætti kannski ætla að hún hafi staðið eins og algjör álfur úti á götu en það var alls ekki svo. Hún stóð á gangstétt. En þetta er ekki búið því eins og lesendur tóku kannski eftir þá var eitt það fyrsta sem hún sagði eftir „búmmsarabúmmið“ (enn í hvarfi og greinilega að brölta á fætur) að hún hefði lent í svipuðu áður.
„Reyndar var ekið á mig þegar ég var í menntaskóla, alveg eins og í þetta skipti,“ sagði hún móð og másandi þar sem hún reis upp og náði áttum „einn tveir og tíu“.
Frekar óheppin hún Tori Yorgey. Eða kannski óheyrilega heppin? Ég veit það ekki. Heimurinn veit alla vega af henni núna þó að fæstir viti hvert innihald fréttarinnar var sem hún flutti með svona líka ógleymanlegum hætti. „Aldrei lognmolla í kringum hana þessa,“ munu menn kannski segja um Yorgey seinna.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein