Jacuzzi, vatnsrúm, sundlaug, þyrlupallur og nóg pláss fyrir gott og fjölmennt partí! Þegar ég skoðaði sögu þessa 24 hjóla limmósínu varð mér starx hugsað til karaktersins stórkostlega í Vaktaseríunni sem Pétur Jóhann Sigfússon gerði ódauðlegan; Ólafs Ragnars.
Ameríski draumurinn var hann kallaður, lengsti bíll í heimi.
Þetta er limmósína, [rétt er að rita limúsína en hér eru ritreglur brotnar því það er föstudagur] 30.5 metra löng, knúin tveimur V8 vélum; einni að framan og annarri að aftan.
Hjólin 24 setja sannarlega svip sinn á bílinn en um fegurð hans má eflaust deila.
Ennþá sá lengsti
Bíllinn er byggður á Cadillac Eldorado áttunda áratugarins en limmósínunni má skipta í tvennt því liður er í henni miðri og hægt að aka framhlutanum einum og sér ef svo ber undir. Ef ekki væri fyrir liðinn í miðjunni væri nú ekki hægt að aka þessu á venjulegum götum.
Jay Ohrberg smíðaði Ameríska drauminn sem varð að veruleika árið 1986. Sama ár var bíllinn skráður í heimsmetabók Guinness sem lengsti bíll heims og er hann enn sá lengsti.
Þegar bíllinn var upp á sitt besta, ef svo má segja, var hann auðvitað algjört fyrirbæri: Yfir 70 manns komust fyrir í bílnum og þægindin slík að auðveldlega mátti bera saman við forsetasvítu á fimm stjörnu hóteli.
Á meðal þess sem var í bílnum á þeim árum má nefna flennistórt vatnsrúm, sundlaug með stökkbretti, „Jacuzzi“, eldhús, baðker, þyrlupallur, minigolfvöllur, allnokkur sjónvörp og sími.
Það er býsna margt í þessari upptalningu sem myndi eflaust falla Ólafi Ragnari í geð ef svo má segja um persónu í sjónvarpsþáttum.
?
Hér verður bara að fylgja myndskeið úr Næturvaktinni:
Drabbaðist niður og „hvarf“ í nokkur ár
Limmósínan var leigð út í ýmis kvikmyndatengd verkefni en vinsældirnar tóku skjótt að dala. Ameríski draumurinn var ekki lengur í sviðsljósinu heldur drabbaðist hann smám saman niður.
Fyrst á einhverju bílaplani, en svo inni í skemmu í New Jersey. Þá var nú dapurlegt útlitið á heimsmethafanum.
Ameríski draumurinn gæti þó orðið að veruleika aftur því árið 2019 var það sem eftir var af bílnum keypt af bílasafninu í Dezerland Park í Orlando þar sem unnið er að því að koma honum í fyrra horf.
Hér er örstutt myndband frá þeim tíma þegar Ameríski draumurinn þótti fáránlega svalur. Þar fyrir neðan er myndband frá því honum var „bjargað“ frá glötun.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein