Chevrolet Blazer K5 Cheyenne frá 1979 var harðgerður og öflugur jeppi framleiddur af General Motors undir Chevrolet vörumerkinu.
Bíllinn á myndunum hefur verið í eigu sama eiganda frá upphafi. Það var læknir í Ohio sem keypti bílinn og fékk afhentan 9. september árið 1978. Blazerinn er lítið ekinn, rétt rúmlega 56.000 mílur á mælinum. Þetta er bílskúrsbíll og hefur ávallt fengið toppviðhald. Eigandinn lét taka bílinn í gegn árið 2015 og var þá sprautaður og innrétting frískuð upp.
Eins og nýr
Buick Skin innrétting bílsins er þó upprunaleg. Þessi Blazer kemur með Cheyenne pakka, réttri 5.7 lítra 350 cid V8 vél, TH350, 3 gíra sjálfskiptingu og NP-2058 millikassa.
Þessi 45 ára gæðingur keyrir einstaklega vel og fer afar vel með mann segir í sölulýsingu.
Einn með öllu
Vökvastýri, aflbremsur og hraðastillir, AM takka útvarp, rafknúin afturrúða og harður toppur sem taka má af bílnum. Allir pappírar fylgja bílnum og toppeintak af þjónustubók.
Því miður er bíllinn seldur er við skrifum þessa grein.
Chevrolet Blazer K5 var hluti af fyrstu kynslóð Blazer seríunnar sem kynnt var árið 1969. K5 merkinging vísaði sérstaklega til tveggja dyra gerðarinnar í fullri stærð. Hann var hannaður með harðtoppi sem taka mátti af bílnum sem gaf jeppanum meira notagildi.
Cheyenne gerðin var ein af toppútgáfunum sem boðnar voru í Blazer K5. Hún bauð venjulega upp á mun meiri þægindi samanborið við grunngerðirnar. Bílar af þessari gerð voru oftast með flottari innréttingum, loftkælingu og þessháttar.
Chevrolet Blazer K5 Cheyenne 1979 var boðinn með ýmsum vélarvalkostum sem henta mismunandi óskum og þörfum. Þetta voru yfirleitt V8 vélar, svo sem 5.7 lítra (350 rúmtommu) lítil blokk, V8 eða 6.6 lítra (400 rúmtommu) stór blokk, V8. Þessar vélar veittu nægt afl til aksturs við erfiðar aðstæður.
Duglegur í torfærum
Blazer K5 var þekktur fyrir torfæruhæfileika, að hluta til vegna þess hve sterkbyggður hann var og öflugs fjórhjóladrifskerfis. Notendahópurinn var fjölbreyttur enda Blazerinn hentugur í allskyns ferðalög og hafði góða dráttargetu.
Blazer K5 náði vinsældum á milli 1970 og 80 og varð einn af vinsælustu jeppum þess tíma í Bandaríkjunum. Harðgerir eiginleikar hans, fjölhæfni og klassísk hönnun gerði hann að uppáhaldi meðal útivistarfólks, fjölskyldufólks og áhugamanna um torfærur.
Þó að Chevrolet Blazer K5 hafi að lokum verið skipt út fyrir nútímalegri jeppagerðir, vekur hann óneitanlega upp góðar minningar hjá mörgum. Viðvarandi vinsældir hans hafa leitt til blómlegra viðskipta með gamla og uppgerða svona jeppa. Við eigum án efa eftir að sjá svona bíla öðru hvoru um ókomin ár.
Umræður um þessa grein