Corolla Cross
Mest seldi bíll í heimi, Corolla, fær nýja yfirbyggu og verður að sportjeppa. Corolla Cross sameinar hagkvæmnina sem fylgir rúmgóðum og háum sportjeppa og fullkomnustu Hybrid- og öryggistækni Toyota til þessa, segja Toyotamenn.
Við settumst undir stýri í þessum nýja „sportjepplingi” og þar var bara ansi gott útsýni, nægt pláss og vel fór um mann í þessari nýstárlegu Toyota Corolla. Við fundum ekkert um verð bílsins í þessari umferð.
Hægt verður að forpanta bílinn hjá Toyota en hann kemur til afhendingar í haust.

Fjarri góðu gamni
Andi rafbílsins bZ4X frá Toyota sveif yfir vötnum og svöruðu sölufulltrúar spurningum forvitinna Toyota áhugamanna. Verðið á þessum flotta bíl verður frá rétt tæpum sjö milljónum króna.
Drægnin er frá 460 og upp í 500 km. skv. WLTP staðlinum og mótor bílsins gefur um 218 hestöfl.

Aygo X
Og aftur gefum við sölumönnum Toyota orðið. Aygo X sker sig úr fjöldanum hvert sem ekið er, með einstöku tvílitu ytra byrði og auðþekkjanlegri hönnun. Viltu elta tískuna – eða móta tískuna? Forpantaðu þinn Aygo X.
Það kemur á óvart að ekkert er sagt um verð bílsins á vefnum hjá Toyota en samt boðið upp á forpöntun á bílnum.


Það verður alveg að segjast að Toyota Aygo X er spennandi bíll og við hjá Bílablogg.is hlökkum til að fá hann í reynsluakstur. Hér er grein sem við birtum í fyrra um bílinn.
Lexus UX 300e
Við röltum svo yfir í Lexus salinn þar sem okkur langaði til að sjá splunkunýjan 300e frá Lexus. Hann er flottur.


Gefum sölumönnum Lexus orðið.
Þú ýtir á aflhnappinn og grípur um einstaklega fallega smíðað stýrið og þá finnur þú strax hvað þessi fyrsti rafbíll frá Lexus hefur sérstakan og magnaðan persónuleika. Svo ekur þú af stað og heillast um leið af snarpri, línulegri hröðun UX 300e og stöðugleika og öryggi í beygjum. Lexus UX 300e fangar augað um leið og er knúinn af háþróuðum rafmótor sem skilar 150 kW (204 DIN hö.) og 300 Nm af tafarlausu togi.
Verðið á Lexus UX 300e er á bilinu 8.490.000 upp í 10.390.000.
Umræður um þessa grein