1971 Dodge Challenger RT Hemi
- Einn af tólf verksmiðjubyggðum af árgerð 1971
- FE5 rauður og X9 svört leðurinnrétting
- 426 vélin er með verksmiðjunúmeri, er af Hemi gerð og gefur 425 hestöfl
- Vökvabremsur og stýri
- Upprunaleg íhlutaskrá fylgir
- Gerður upp á Weaver® W-Rotisserie snúningsgrind
- Mopar vottaður (bílapartar sérhannaðir fyrir Dodge og Chrysler)




Árið 1971 gerðu hönnuðir Challenger smá stílbreytingar. Meðal annars var afturljósum og grilli breytt. Heilu framljósin urðu að tveimur aðskildum ljósum og grillið var málað silfurlitað á venjulegu gerðunum en haft svart á R/T bílnum. R/T bílarnir voru síðan með plexigleri í litlu hliðargluggunum.
Að auki var einni gerð bætt við línu Dodge í Challenger gerðinni en það var bíll sem var með föstum hliðarglugga.
R/T gerðirnar voru búnar svörtum leðursætum með háum bökum, vökvabremsum og R/T aksturspakka. Undir bílnum voru G70, 14 tommu felgur með dekkjum sem á voru hvítir stafir. Grunntýpan var á um 426 þús. krónur á verðlagi ársins 1971. Þess má geta að árslaun í Bandaríkjunum voru um 850 þús. árið 1971.






Þá kostaði R/T uppfærslan um 116 þús. á þávirði og þótti dýr. Líklega leiddi það til dræmrar sölu R/T gerðarinnar því aðeins 70 eintök voru framleidd í heildina og því afar sjaldgæfir í dag og því hvalreki fyrir bílasafnara.
Þessi umræddi bíll var framleiddur þann 21. október 1971 í Hamtramck samsetningarverksmiðjunni í Michigan. Hann verður því 50 ára í mánuðinum. Bíllinn var afhentur í ljósrauðum lit sem kallaður er FE5 og innréttingin í X9 svörtu og með svörtum vínyltopp.




Og það sem gerir þennan bíl svo sérstakan er verksmiðjuframleidd 426 Hemi vélin. Aðeins voru framleiddir 70 bílar með þessari vél. Vélin skilar um 425 hestöflum.
Á meðal þessara 70 bíla voru aðeins tólf bílar búnir til með A727 Toqueflite sjálfskiptingu. Að auki er í þessum bíl búnaður eins og sport-húdd, ljósapakki, vökvadrifnar diskabremsur, vökvastýri, mælaborð með viðarklæðningu ,AM útvarp, A01 ljósapakki og A62 mælaborð.


Boddý bílsins var hreinsað inn að málmi, pússað og undirbúið fyrir málningu. Eftir málun var bíllinn massaður (wet sanded) til að ná sem bestri áferð á lakkinu. Allt króm var tekið, hreinsað og krómað upp á nýtt. Ryðfrítt var hreinsað og bónað.
Undirvagninn er nákvæmlega eins og þegar hann kom úr verksmiðjunni, grunnaður í sama lit og bíllinn. Allt í fjöðrunarkerfi bílsins hefur verið tekið í gegn, málað, hreinsað og merkt alveg eins og þegar bíllinn kom úr verksmiðjunni. Vélarblokkin er máluð í rauðum lit bílsins og allir hlutar hennar málaðir í réttum litum. Bíllinn er að öllu leyti topp uppgerður.

Challengerinn hefur ávallt verið vinsæll meðal jafningja. Hann stóð að mörgu leyti uppúr í samkeppninni á sínum tíma. Þetta eintak er ákaflega vel heppnað og sérlega vel hefur verið vandað til verka – enda er verðið ekki í lægri kantinum eða um 39 milljónir.
Senda má fyrirspurn til bílasala hér.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein