Flestir ökumenn eru á því að þeir séu góðir bílstjórar og sannfærðir um að færni þeirra sé vel yfir meðaltali og allt það. En það eru ýmis atriði sem einkenna lélega bílstjóra og hér eru þau helstu.
Byrjum á þeim atriðum sem beinlínis blasa við en er samt „gaman“ að nefna:
- Að hafa fallið oftar en þrisvar á ökuprófinu: Þegar ekki er „allt þegar þrennt er“ þá er sennilega ástæða fyrir því.
- Fólk verður oft hrætt í bíl hjá ökumanni: Þessu fylgja oft öskur, hróp og í versta falli reyna farþegar að stökkva út úr bifreiðinni á ferð. Mjög skýrt merki um að lítil eftirspurn sé eftir viðkomandi í námunda við stýrið.
- Bílstjórar sem vilja helst ekki vera bílstjórar eftir að skyggja tekur.
- Sé mikið flautað einmitt þegar bílstjóri er á ferðinni og bílflautið beinist að ökutæki hans, má draga þá ályktun að maðkur sé í mysunni eða lélegur bílstjóri í umferðinni.
- Margar beyglur á ökutæki geta reynst gagnlegar upplýsingar um þann er ökutækinu stýrir.
Þá að atriðum sem ekki eru eins æpandi:
- Þeir sem stöðva ekki á stöðvunarskyldu. Það er stigsmunur á biðskyldu og stöðvunarskyldu. Annars myndi duga að kalla hvort tveggja biðskyldu.
- Þeir sem verða óöruggir á gulu umferðarljósi; Stoppa, gefa í, stoppa, bakka, hægja á, æjæjæjæ… Ef gula ljósið kemur bílstjóra úr jafnvægi þá er viðkomandi sennilega „ekki með þetta!“
- Eitt sinn var ég farþegi í bíl hjá konu sem lokaði alltaf augunum þegar snjóskafl var framundan sem aka þurfti í gegn um. Afar vont að vera farþegi í bíl, vitandi af bílstjóranum með augun lokuð þegar síst skyldi.
- Svo eru það þeir fjölmörgu sem líta ekki til „beggja hliða“ heldur ganga út frá því að allt sé í lagi hinum megin líka.
- Ökumenn sem eru allt of nálægt bílnum fyrir framan. Þeir komast ekki fyrr á leiðarenda þótt þeir hangi í stuðaranum á „undanfaranum“.
Atriði sem erfiðara er að koma auga á:
Taki þeir til sín sem eiga
- Bílstjóri sem er með fótinn „á“ kúplingunni þó hann sé ekki að skipta um gír.
- Sá sem stöðugt rjátlar við gírstöngina eða skiptinguna er ekki traustvekjandi bílstjóri. Ef eitthvað kemur skyndilega upp á skiptir ekki endilega sköpum að skipta í snatri um gír, eða reka í hlutlausan. Burt með lúkuna!
- Þeir sem gefa í áður en bíllinn er orðinn heitur. Að þenja ískaldan bílinn er eins og að hrista kókakólaflösku svakalega og opna hana svo framan við eigið nef. Nema bara tíu sinnum verra. Hið minnsta.
Þetta eru nokkur atriði sem geta einkennt lélega bílstjóra. Á þokkalegri ástralskri bílasíðu rakst ég á dálítið sniðugt sem í raun treður þessu [framantöldu] öllu saman í örfáa gáfulega punkta og var þetta um það bil svona:
- Verstir eru þeir þó sem læra ekki af mistökunum og kenna öllum öðrum um það sem miður fer.
- Hvort sem eitthvað var manni sjálfum „að kenna“ eða ekki, þá ætti mál málanna að vera hvort maður hafi reynt að afstýra óhappi með öllum tiltækum ráðum.
- Góðir bílstjórar spyrja sig þeirrar spurningar því þeir vita að lítið gagn væri í því ef í legstein þeirra væri meitlað: „Hann var í rétti“.
Átt þú kannski eftir að lesa þessar greinar?
BMWagnstjórar þeir verstu?
Vondir bílstjórar á fínum bílum
Vonandi var enginn að horfa!
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein