Eclipse Cross: Einfaldur og snjall

TEGUND: Mitsubishi Eclipse Cross PHEV

Árgerð: 2022

Orkugjafi:

Bensín/tengitvinn

142
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Eclipse Cross: Einfaldur og snjall

Þetta virðist kannski vera þversögn: Einfaldur og snjall. Hér er það einmitt snilldin sem felst í þessu. Í dag er býsna mikið um óþarft flækjustig fyrir einföldustu aðgerðir.

Í sumum nýjum bílum getur fólki liðið eins og það sé eitthvað að því þegar það getur ekki sett rúðuþurrkurnar í gang; því verður funheitt á botnstykkinu þegar það taldi sig vera að kveikja á þokuljósunum og snarkandi arinhljóð heyrist í stað fréttanna.

Skiljið þið hvað ég á við? Það eru ekki allir spenntir fyrir því að geta gangsett bílinn með augnaráðinu einu, læst hanskahólfinu með því að ýta á millumerki í farsímanum og hringt í neyðarlínuna með því að kveikja loftljósið (ok, þetta eru ýkjur en samt ekki svo fjarri lagi).

Spjallsími og tækniskilningur

Fyrir fáeinum árum var ég stödd á biðstofu á spítala. Þar sem ég beið og beið og beið datt mér í hug að líta á fréttirnar í símanum. Smám saman varð dimmt og dauf birta loftljóssins dofnaði enn frekar. Ég leit upp og rak þá trýnið nánast í eyrað á lækni sem hékk yfir mér eins og fuglahræða.

„Er þetta snjallsími eða spjallsími sem þú ert með þarna?“ spurði hann flissandi og óþarflega hátt svo þær fáu hræður sem á biðstofunni voru hrukku í kút.

„Öh, tja, jú, þetta er snjallsími sem er líka hægt að tala í,“ svaraði ég og læknirinn ljómaði alveg hreint.

„Er ég of gamall til að fá mér svona?“ spurði hann og ég sagðist nú ekki halda það en ég vissi þó ekki hvort aldurstakmörk væru á slíkum símakaupum.

Þá sveif hann hálfpartinn í loftinu og sagði: „Þá fer ég eftir vinnu og kaupi mér snjallsíma!“ Og svo sveif hann inn á deildina þaðan sem hann hafði komið. Lengi vel hélt ég að þetta væri falin myndavél eða eitthvert próf í mannlegum samskiptum en sennilega var þetta bara eitt af þessum frávikum hins daglega lífs.

Mitsubishi Eclipse Cross er eins og vin í eyðimörkinni. Bíllinn virkar eins og bílar gerðu áður en allt varð of flókið en það er líka hægt að tengja síma við hann og allt þetta hefðbundna.

Hann er ekki gamaldags heldur virðist hann einfaldlega hafinn yfir tíma og tæknilegar tískubylgjur. Það er snjallt!

Ekki gamaldags heldur þægilegur og hönnunin hnitmiðuð. „Ekkert-kjaftæði“ eins og ég hef einhvern tíma orðað það eins og ribbaldi.

Það sem er ekki í bílnum bilar ekki

Já, ég veit: Búin að skrifa þetta of oft – gömul lumma en sannleiksgildið er enn það sama. Það er ekki 17 síðna bæklingur yfir staðalbúnaðinn í Eclipse Cross en það er allt þarna sem manneskja þarf á að halda, að því gefnu að hún ætli ekki að búa í bílnum.

Öryggisbúnaður er til fyrirmyndar og bíllinn fékk fullt hús stiga í síðustu EuroNCAP prófun sem er ekki alveg ný en á samt við um búnaðinn í þessari gerð.

Smækkaður Outlander?

Það er stundum þannig að grunnatriðin rata ekki í upphaf greinarinnar. Þau koma núna:

Bíllinn sem hér er í brennidepli er fjórhjóladrifinn, tengitvinnbíll með 2.4 lítra bensínvél, sjálfskiptur, 204 hestöfl, kemst allt að 45 kílómetra á rafhleðslunni og getur dregið 1.500 kíló og verðið er frá 5.490.000 kr. en meira um það í lok greinar.

Það eru fjögur dekk undir bílnum og sest er beint inn í bílinn. Ekki klifrað upp í hann, brölt niður í hann eða skriðið ofan í hann. Sem sagt: Eins og meirihluti fólks sem ekki vinnur í sirkús vill hafa þetta.

Eclipse Cross er mjög svipaður hinum gríðarlega vinsæla Outlander, bara aðeins styttri og minni. Sætin eru þægileg, virkilega fínt að planta sér í bílinn sem er með eindæmum lipur í akstri. Snöggur og ekki til neitt í honum sem minnir á stirðbusahátt. Skiptingin er ljúf og finnur maður ekki fyrir því þegar hún vinnur sína vinnu; eins og það á að vera.

Fótógenískur er hann

Fegurð er afstæð en ég má til með að koma því að hér að gaman var að taka myndir af bílnum. Um það vorum við sonur minn sammála. Það er gott að mynda bíla: Þeir karpa ekki við mann og biðja ekki um að fá að sjá af sér myndina um leið og smellt hefur verið af (og heldur ekki síðar).

Það er samt ekki þar með sagt að alla bíla sé gaman að mynda. Þessi er einstaklega „fótógenískur“ og skemmtilegur frá öllum mögulegum sjónarhornum.

Húrra! Bíll með tökkum!

Það má eiginlega orða það svo að ég hefði fundið eitthvað sem ég óttaðist svo mjög að heyrði fortíðinni til. Það gerðist um leið og ég setti bílinn í gang og útvarpið baulaði á mig. Þá gat ég nefnilega „skrúfað niður“ í því.

Það að „skrúfa upp í“, „skrúfa niður í“ og að „skrúfa fyrir“ útvarpið eru athafnir í útrýmingarhættu. Allavega í bílum. Hér er hægt að „skrúfa“ og það er gaman.

Þegar allt kemur til alls

Í heildina litið er Mitsubishi Eclipse Cross PHEV bíll sem getur hentað býsna breiðum hópi kaupenda:

?
Fjölskyldufólki sem þarf bíl sem auðvelt er að ganga um með tilliti til barnabílstóla og farangurs sem barnafólki fylgir.
Eldra fólki og þeim sem setjast vilja „beint“ inn í bílinn (þ.e. áreynslulaust).
Fólki sem vill skreppa út fyrir borgarmörkin á fjórhjóladrifnum og sprækum bíl.
Þeim sem vilja bíl með tökkum en samt tæknilega snjallan.
Fólki sem vill fallegan bíl á sanngjörnu verði.

„Sanngjarnt verð“ skrifaði ég. 5.490.000 kr. er grunnverðið núna. Hekla hefur haldið verði síðasta árs á bílnum en í raun ætti bíllinn að vera 480.000 kr. Dýrari eða sem svarar til hækkunar á virðisaukaskatti sem gildi tók um áramót og lesa má nánar um hér.

Ljósmyndir: Óðinn Kári og Malín Brand

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar