Formúla 1 er íþrótt sem hefur þá aukaverkun að bílar eiga það til að skemmast. Stundum bara lítillega en stundum bara agalega mikið. Oft má rekja óhöpp til mistaka einhvers ökumanns og hér er ætlunin einmitt að skoða hvaða ökumenn eru „dýrustu“ ökumennirnir á brautinni í þeim skilningi hversu mikið það kostaði liðin að gera við bílana sem þeir skemmdu með beinum eða óbeinum hætti.
Þessi listi er e.t.v. ekki nákvæmur og heimildirnar heldur ekki þær sterkustu en tökum viljann fyrir verkið og sjáum hvort við verðum einhvers vísari.
Árið sem hér er skoðað er árið 2021 og keppnirnar 23 talsins svo ökumenn höfðu í mörg horn að líta til að afstýra óhöppum og skemmdum á bílum.
En skoðum aðeins listann. Upphæðir eru í íslenskum krónum.
20 – Esteban Ocon 41.104.000
19 – Fernando Alonso 46.242.000
18 – Sebastian Vettel 96.888.000
Ok, þrír ökumenn kostuðu lið sín og annarra undir hundrað milljónir þetta árið. Ekki eins og það sé nú eitthvað gott nema þegar litið er lengra niður listann.
17 – Daniel Ricciardo 104.668.400
16 – Antonio Giovinazzi 124.046.000
15 – Sergio Pere 137.845.200
14 – Pierre Gasly 163.388.400
13 – Lewis Hamilton 184.234.000
Það er skrýtin starfsstétt þar sem starfsmenn komast upp með að skemma og eyðileggja fyrir hátt í tvöhundruð milljónir á ári. Það er bara gert ráð fyrir þessu.
12 – Lando Norris 213.300.400
11 – Carlos Sainz 257.780.800
10 – George Russell 270.846.000
9 – Kimi Raikkonen 286.260.000
8 – Nikita Mazepin 362.302.400
7 – Yuki Tsunoda 382.634.200
Það væri fróðlegt að skoða iðgjöld þessarra ökumanna ef Íslensk tryggingafélög sæju sér fært að reikna þau út með sínum reikniaðferðum. Einhverjir þyrftu á áfallahjálp að halda.
6 – Lance Stroll 394.304.800
5 – Valtteri Bottas 398.341.800
4 – Nicholas Latifi 457.502.200
457 milljónir. Ég spyr nú bara, hvernig væri þetta hægt í umferðinni í Reykjavík? Gefum okkur að ökumaður leggi af stað, ekur á nokkra bíla þar til bifreið hans er orðin óökufær. Viðgerð tekur einhverja daga, segjum bara að hann komist jafn oft út í umferðina og F1 ökumenn á brautina, 23 bíltúrar á ári. Í hverjum “bíltúr” eyðileggur hann sinn bíl fyrir eina milljón og aðra bíla fyrir 5 milljónir. Þetta gera 138 milljónir svo ímyndaði ökuníðngurinn okkar þarf að gera mun betur til að eiga nokkurn séns í þá sem tróna efst á þessum lista.
3 – Max Verstappen 570.905.200
2 – Charles Leclerc 593.952.800
1 – Mick Schumacher 618.395.000
Úff, þetta lítur ekki vel út: 5,7 milljarðar fóru í klessu í keppnum F1 2021. Kannski er það einmitt það sem við áhorfendur hrífumst mest af, kröss og bílar í klessu. F1 sirkusinn er skrýtið fyrirbæri og himinhár kostnaður er hluti af leiknum. Árekstrar eru líka hluti af leiknum og það einfaldlega kostar peninga að búa til peninga og einhverra hluta vegna hafa liðin efni á þessu öllu saman.
Þórður Bragason.
Höfundur er áhugamaður um akstursíþróttir.
Umræður um þessa grein