Dólgar í Denver gerðu óskunda
Ekki nóg með heimurinn hafi glatað 85 nýjum Lamborghini þegar bílaflutningaskipið Felicity Ace brann og sökk, heldur eru menn að stúta bílum í fíflagangi með tilheyrandi hættu og hörmungum. Hér er stutt saga af tveimur Lamborghini-slátrurum.
Ökufantar á fantafínum Lamborghini Huracán voru í spyrnu í miðbæ Denver. Götuspyrnu án þess að um formlegan viðburð væri að ræða, heldur voru þessir menn að leika ljótan leik innan um saklausa vegfarendur.
Af stað þustu ökuflónin á grænu ljósi; annar missti stjórn á sínum Huracán sem þvældist fyrir hinum og í sameiningu tóku þeir þriðja bílinn (ekki Lambó) með sér svo úr varð ein allsherjarklessa.
Þá kom upp eldur og viti menn! Þetta gerðist beint fyrir framan slökkvistöðina. Slökkviliðsmennirnir voru einmitt að teygja úr sér eftir að hafa fylgst með ruðningi í sjónvarpinu þar sem Denver Broncos „ruddust“. Ekki veit maður af hverju það kemur fram í frétt Fox 31 en mögulega er það lykilatriði sem mér er fyrirmunað að skilja.
Það voru því hæg heimatökin hjá slökkviliðinu að slökkva í logandi bílunum en sjaldnast er komið með eldsmatinn til þeirra á stöðina. Enginn slasaðist, sem er í sjálfu sér ótrúlegt miðað við myndir af vettvangi.
Nú eru mennirnir orðnir frægir fyrir flónskuna en þeir Hunter Hinson (28 ára) og Alexis Doyal (32 ára) voru handteknir og þá kom auðvitað fleira í ljós: Fíkniefni, ótryggð ökutæki, vopn, og ég veit ekki hvað og hvað.
Umræður um þessa grein