Dodge WC57 sem gæti hafa verið bíll Pattons á leið á uppboð
- Vandinn er sá að það veit enginn hvort þetta er rétti bíllinn
- Að minnsta kosti gæti þessi bíll sem var áður á safni verið bíll herforingja í seinni heimsstyrjöldinni
Margir sem eru komnir á miðjan aldur vita eflaust hver George S. Patton var. En fyrir hina þá var Patton hershöfðingi í her Bandaríkjamanna á vígstöðvunum í Evrópu í seinni heimstyrjöldinni. Patton þótti litríkur mjög og fór ekki alltaf alveg eftir regluverki hersins. Hann lést eftir alvarlegt bílslys í Þýskalandi 21. desember 1945 og voru uppi sögusagnir að honum hafi verið ráðinn bani, en það var aldrei sannað.
Ein sérstaða Pattons birtist í bílavali hans. Flestir hershöfðingja og stjórnendur voru fljótir að tileinka sér kosti herjeppans um leið og hann kom fram á sjónarsviðið, en Patton fór sína leið og valdi að nota Dodge WC57 „Command Car“ sem „sinn bíl“.
Núna er einmitt „bíll Pattons“ kominn aftur í fréttirnar því í sumar á að fara bjóða upp einn svona bíl sem uppboðshaldarar staðhæfa að sé einmitt bíll Pattons.
En aðrir segja líka að þetta „gæti verið“ bíll hershöfðingjans fræga vegna þess að þótt þessi WC57 hafi komið frá „National Military History Center“ í Auburn í Indiana, fyrir nokkrum árum og er búinn þeim breytingum sem Patton lét gera á sínum persónulega WC57, þá er uppboðshúsið ekki með neina pappíra sem sérstaklega tengja Patton við þennan bíl, og það eru aðrar eftirlíkingar af Patton „Command Cars“ til í Bandaríkjunum.
Það gæti hjálpað til við að útskýra hvers vegna þegar uppboðsfyrirtækið RM Auctions setti þennan WC57 í sölu árið 2017 voru væntingar um sölu á 100.000 til 150.000 dollara, þá tókst ökutækinu ekki að ná lágmarkinu sem var 60.000 dollarar.
En nánar um Dodge WC57
Dodge hafði verið að búa til farartæki fyrir Bandaríkjaher síðan fyrir fyrri heimsstyrjöldina, flestir byggðir á borgaralegum gerðum.
Áður en Bandaríkin fóru í seinni heimsstyrjöldina, breytti Dodge borgaralegum TC-pallbíl sínum í VC-1 herbílinn árið 1940.
VC-1 þróaðist fljótt í WC-gerð, WC57 Command and Reconnaissance Weapons Carrier var smíðaður á þriggja fjórðungs tonns, 4×4 undirvagni og vegur næstum 2.450 kg. Þeir voru smíðaðir frá 1942 til 1945 og voru knúnir af T214 vél með hliðarventlum frá Dodge, 230 rúmtommu sex strokka línuvél með 92 hestöflum.
WC57 var einfaldur bíll, áreiðanlegur, dugmikill og í stríðslokin varð þessi bíll grunnurinn að Dodge Power Wagon.
Sagan er sú að hermenn, sem sneru aftur frá herþjónustu hafi einfaldlega beðið Dodge um borgaralega útgáfu af þessum nánast ósigrandi herbíl, svo að Dodge svaraði með einum öflugasta pallbíl eftirstríðsáranna árið 1946 – Dodge Power Wagon.
Vinsæll meðal bandarískra liðsforingja
Opin gerð WC57-bílsins var einnig vinsæl hjá yfirmönnum í Bandaríkjaher og vegna þess var bíllinn vinsælt skotmark fyrir þýska fótgönguliða og flugmenn Luftwaffe. Þannig að Patton, áður en hann hélt til Frakklands 1944 með þriðja hernum, lét hann bílaverkstæði hersins í Cheltenham á Englandi breyta sínum WC57. Verkstæðið bætti við brynjuhlíf til að verja vatnskassann, hálfrar tommu brynvörn undir gólfinu og Browning M2 .50 vélbyssu til að bægja loftárásum frá. Auka niðurfellanlegur hleri að aftan gaf aukið pláss og lokaða tækjageymslu.
Fánar og mjög öflugar flautur á frambrettinu gáfu til kynna stöðu og stjórn Pattons, og sérstakt grip fyrir aftan framsætin gaf Patton festu fyrir hendur þegar hann stóð til að ávarpa hermenn sína.
Uppboðsbifreiðin er frábrugðin þessum breytingum, kannski vegna óhjákvæmilegra breytinga, viðhalds og endurnýjunar eftir stríðið. Bíllinn er búinn Browning M1919 A44 .30-cal vélbyssu á stigbrettinu farþegamegin, og það er annar frágangur verkfæra á afturhleranum.
Umræður um þessa grein