Daninn sem keypti síðasta Saab-inn
Svíar gera stundum grín að Dönum: „Daninn var í vanda. Konan hans var væntanleg með lestinni en hann gat ómögulega munað hvort hún kæmi klukkan 8:40 eða 4:80.“ Ekki sérlega djúpur þessi, enda ristir þetta ekki djúpt. En að Dani kaupi síðasta Saab-inn og flytji hann úr landi…
Það er náttúrulega hið alvarlegasta mál og ekki vitund fyndið, að mati margra Svía. Það gerðist nú samt!
Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að Danir gera líka grín að Svíum og allir gera grín að öllum. Hér er einn frá Dönum:
„Hver er munurinn á moskítóflugum og Svíum? Moskítóflugurnar eru bara óþolandi á sumrin.“
Uss! Ekki er það nú fallegt. Eiginlega er þetta svipað að gæðum og Hafnfirðingabrandararnir. Nóg af glensi og nú tekur alvaran við!
Enginn Svíi vildi borga svo mikið
Saab 9-3 Aero Turbo 4, árgerð 2014. Með 2.0 lítra, fjögurra strokka EcoTec vél. 220 hestöfl, framhjóladrif og sex gíra sjálfskipting. Þannig var hann. Síðasti bíllinn sem kom af „færibandinu“ í Saab verksmiðjunni í Stallbacka í Trollhättan. Ekki síðasti Saab-inn í veröldinni heldur úr þessari verksmiðju og það er nú mál málanna.
Í nóvember árið 2019 sagði kílómetramælirinn að bílnum hefði verið ekið 66 kílómetra og það var alveg hárrétt. Fór aksturinn að mestu fram á prófunarbrautinni skammt frá verksmiðjunni í Trollhättan og þar voru teknar myndir (ein þeirra er myndin hér efst og sú fyrir neðan) af síðasta bílnum. Sögulegur bíll og eflaust sorgleg stund (án þess að hér verði farið nánar út í örlög bílaframleiðsluhlutans hjá Saab).
Bíllinn stóð óhreyfður í Trollhättan frá 2014 til ársins 2019 þegar hann var boðinn upp hjá Bilweb Auktioner.
Hæst bauð hinn danski Claus Spanggaard. Borgaði hann 465.000 sænskar krónur fyrir bílinn en á sínum tíma, þegar síðustu (þó ekki það langsíðasta) eintök framleiðslunnar í Stallbacka í Trollhättan voru seld ný, kostuðu bílarnir 279.000 sænskar eða 289.000 með sjálfskiptingu.
Eignaðist hluta bílasögunnar
Nokkuð gerðu sænskir fjölmiðlar úr þessum hluta; að maðurinn hefði borgað svona mikið fyrir bílinn! Já, enginn Svíi var reiðubúinn til að greiða svo háa upphæð. Var talið líklegt að bíllinn færi á 350.000 til 450.000 sænskar krónur en svo fór hann sko á hærra verði og það þótti mörgum rosalegt.
Því hefur verið fleygt að Svíar fari vel og varlega með peningana sína og kannski er það rétt. Í það minnsta var enginn Svíi svo „flippaður“ að borga fúlgur fjár fyrir síðasta Saab-inn. Þó að andvirði sölunnar rynni beint til „bílatengds“ námsstyrks einhvers nemanda við Väst háskólann í Trollhättan
Í frétt sænska fjölmiðilsins Teknikens Värld í nóvember 2019 voru lokaorðin einhvern veginn svona: „Hvort hann [Claus Spanggard] hafi látið flytja bílinn til Jótlands, til að bæta ekki kílómetrum á mælinn, eða hvort hann hafi sjálfur ekið heim, fylgir ekki sögunni.“
Tengingin við Saab rofnar seint
Danir fögnuðu þessum bílakaupum mannsins frá Jótlandi en Claus átti nú Saab fyrir. Hefur meira að segja átt sjö mismunandi gerðir en árið 2019 urðu þeir þrír á heimilinu þegar þessi bættist við.
„Í byrjun níunda áratugarins starfaði ég sem bifvélavirki hjá Saab,“ sagði Claus Spanggard í samtali við Folketidende á sínum tíma. Hann rekur bílaverkstæði í Hadsund og keypti bílinn reyndar til að nota hann, ólíkt því sem blaðamaður Teknikens Värld gaf í skyn.
Nú er hann á dönskum númerum og brunar vonandi sem lengst eftir dönskum og kannski sænskum vegum líka. Bíllinn er í það minnsta í góðum höndum.
Hér er myndband fyrir þá sem vilja sjá bílinn betur. Líka fyrir þá sem vilja rifja upp dönskuna og síðast en ekki síst þá sem vilja lesa sænskan texta til að komast í góðan gír í morgunsárið!
Umræður um þessa grein