Á leiðinni heim til Keflavíkur í dag datt mér í hug að telja Dacia Duster sem ég myndi mæta á leiðinni heim. Við vorum tvö í bílnum þannig að ekki varð mikil truflun á akstrinum enda var það konan sem ók.
Nokkrar Daciur sem bíða eftir að þjóna túristum.
Ég byrjaði að telja, og taldi og taldi og taldi alla leiðina suðurúr. Heildarfjöldinn var nú ekki nema rétt rúmlega tuttugu Dacia Duster frá álveri og uppá Aðaltorg, rétt áður en maður beygir upp á Leifsstöð.
Það er kannski óréttlátt að telja Dacia Duster á þessari leið því ansi margir af túristum sem koma til landsins aka Dacia Duster. Auðvitað eru fleiri gerðir inn á milli eins og Suzuki Vitara, Suzuki Jimny og svo er líka slatti af öðrum gerðum enda verða að vera til bílar fyrir alla þá túrista sem sækja okkur heim.
Þessar Daciur koma vel undan vetri og bíða eftir að vera settar á númer.
Ef maður fer að veita Dacia Duster einhverja sérstaka athygli detta manni alveg í hug nokkrir fimmaurabrandarar sem gætu alveg staðið fyrir sínu.
- Muniði eftir konunni sem kunni bara að keyra Dacia Duster.
- Lóan er ekki lengur vorboðinn ljúfi, heldur Dacia Duster þegar hún kemur undan snjónum.
- Hvort er skýst hraðar upp á vorin – Dacia Duster eða lúpínan?
- Hvernig segir maður góðan daginn á íslensku? Dacia Duster!
- Hvernig veistu að þú ert að lenda á Íslandi. Fyrst sérðu nokkra jökla og síðan sérðu breiður af Dacia Duster.
- Hvaða tölur hækka miklu hraðar stýrivextir? Innflutningstölur á Dacia Duster.
En hvað eru margir Dacia Duster til sölu á bílasölum í dag. Ég náði ekki að telja nema rétt um fimmtíu bíla. Ég get náttla ekki svarið fyrir að hafa talið einhverja tvisar en þeir eru margir til sölu og þeir eru yfirleitt mikið eknir, mjög mikið eknir.
Dacia Duster hefur staðið sig einstaklega vel á Íslandi. Sjáið þið hvað hann tekur sig vel út með lúpínunni.
Samt sem áður seldist mest af vörumerkinu Toyota árið 2022 – enda heita allir bílar innan línunnar Toyota. Þá kom Kia í öðru sæti og Hyundai í því þriðja. Tesla var mest selda undirtegundin á árinu 2022.
Og hér er einn Renault Duster í ofurbúningi en þeir frændur eru náskyldir.
Samt sem áður seldust ekki nema 993 kvikindi af Dacia Duster árið 2022 skv. opinberum tölum. Í heildina seldust rúmlega 23.000 ökutæki á árinu 2022. Dacia var í öðru sæti yfir mest seldu undirtegund ársins.
Umræður um þessa grein