Er það svo einfalt að hægt sé að friða grautfúla kaupendur Tesla Cybertruck með alls konar drasli og dóti sem er „Cybertruck-eitthvað“? Grautfúlir kaupendur sem hafa mátt bíða eftir bílnum hrikalega lengi því stöðugt tefst framleiðslan. Þeir geta keypt sér Cybertruck bakpoka og sænguverasett og þá hlýtur biðin að verða þolanlegri.
Nei, varla en samt er þetta því miður ekki grín. Alls kyns varningur eða fylgihlutir seljast eins og heitar lummur og þannig hefur það verið býsna lengi. Já, svo vel selst þetta dót að margt hreinlega klárast á fáeinum dögum.
Tökum sem dæmi Cybertruck flautuna. Já, flautu! Ekki bílflautu heldur púkablístru sem er svo hvell að þegar í hana er blásið er næsta víst að fínustu bifhár eyrnaganganna brotna í fólki sem er svo óheppið að vera nálægt.
Þessi flauta seldist upp á örskömmum tíma og samt virðast fæstir, ef nokkrir, vita til hvers hún er:
Fylgihlutir með hverju?
Ég hef almennt gengið út frá því að fylgihlutir fylgi einhverju. Eðli máls samkvæmt. En því er ekki að skipta þegar Cybertruck fylgihlutirnir eru annars vegar því Cybertruck er ekki kominn á markað.
Þetta er bakpoki sem kostar „aðeins“ 35.000 krónur og lætur þann sem ber hann á bakinu líta út eins og skjaldbaka.
Nú kunna lesendur að halda að undirrituð sé bara „fúl“ yfir því að Cybertruck sé enn ekki kominn á markað. En það er ekki svo. Ég er bara fúl út af markaðssetningunni. Samt ekkert svakalega fúl en þetta er óneitanlega dálítið sérstakt.
Það er auðvitað dálítið kúnstugt og um leið kaldhæðnislegt að kalla blessaðan bakpokann „bakpoka framtíðarinnar“ því það er vissulega rétt að í fjarlægri framtíð getur fólk mögulega fengið hlunkinn sem allir fylgihlutirnir eiga að „fylgja“.
Segir svo á síðunni: „Morgundagurinn er að hringja. Cyberbackpack™ er tilvalinn í vinnuna, ferðirnar til og frá vinnu, gönguferðina og hvers kyns ævintýri. Sama hvert ferðinni er heitið þá mun Cyberbackpack™ fylgja þér hvert fótmál.“
Þvílíkt og annað eins! Þetta er slepjulegt og já, þetta er ekki alveg búið því á síðunni segir enn fremur: „Cyberbackpack™ er hannaður bæði fyrir Jörðina og Mars. Hlutverk hans er að fara þangað sem enginn bakpoki hefur nokkru sinni farið.“
Eigendaklúbbar bíla sem ekki eru til
Það ætti því ekki að koma á óvart að til sé risastórt samfélag fólks sem kallar sig Cybertruckeigendur (Cybertruck Owners Club) og þar má nálgast alls kyns varning. Er þetta ekki svipað því að ganga í eitthvert félag, segjum „Félag eigenda geirfugla“, og allir sem því tilheyra líta á sig sem eigendur fugls sem ekki er til? Ég held það bara, svei mér þá!
Í eigendaklúbbi þessum ræðir fólk í smáatriðum um hvernig dýnur það ætlar að hafa í bílnum, loftpressu og ég veit ekki hvað og hvað, allt verður nefnilega klárt fyrir ferðalagið þegar, já ÞEGAR Cybertruck kemur.
Það er ekki bara dót á borð við lyklakippur, sokka, töskur, minnislykla, símahulstur, derhúfur, bakpoka og þess háttar sem er verið að selja merkt Cybertruck.
Svona smádót er saklaust í samanburði við hjólhýsi og tengivagna sem kosta fúlgur fjár en ekki er hægt að tengja við neinn Cybertruck nema kannski með andlegri tengingu.
Þó svo að nýjustu „spár“ geri ráð fyrir fyrstu bílunum á næstu mánuðum er það nú svo að margra ára bið gæti orðið eftir bílnum – þeir sem pöntuðu bíl árið 2019 þurfa ekki endilega að bíða lengi en einhver reiknaði út að miðað við allt og allt gætu þeir sem pöntuðu sinn trukk 2021 þurft að bíða í nokkur ár.
„Ef rétt reynist þá hafa rúmlega þrjár milljónir Cybertruck-pantana verið staðfestar en áætlun Tesla gerir ráð fyrir framleiðslu 500.000 bíla á ári. Biðtíminn yrði því býsna langur miðað við ætlaða framleiðslugetu,“ segir í grein sem birtist hér fyrir nokkrum mánuðum.
Já, þá er nú aldeilis gott að vera búinn að fylla bílskúrinn af Cybertruck-mottum, sólskyggni og hinu og þessu sem vonandi passar í bílinn í framtíðinni.
Þessu tengt:
Cybertruck: Segir pantanir yfir þrjár milljónir
Meðan beðið er eftir Cybertruck
Tesla Cyberlandr húsbíllinn er tækniundur
Er Cybertruck bestur í hæfilegri fjarlægð?
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein