BMW og Ford munu fá sína fyrstu fastefnisrafhlöður frá sprotafyrirtækinu Solid Power í Bandaríkjunum fyrir lok þessa árs.
Samkvæmt frétt frá Reuters stefnir Solid Power, þróunaraðili á fastefnisrafhlöðum (solid-state) fyrir rafknúin farartæki, að því að byrja að senda rafhlöðusellur í forframleiðslu fyrir árslok í staðfestingarprófun hjá samstarfsaðilum BMW og Ford Motor, að því er fyrirtækið segir.
Í viðtali sagði Doug Campbell, forstjóri Solid Power og meðstofnandi, að fyrirtækið sem er í Colorado hafi komið upp tilraunaframleiðslulínu til að útbúa rafhöður til prófunar fyrir bílaframleiðendr á meðan Solid Power leitar að framleiðsluaðila til að unnt verði að hefja framleiðslu rafhlöðusella strax árið 2026.
Einn tilvonandi samstarfsaðili, sagði hann, er SK Innovation í Kóreu, sem er að smíða rafhlöðuverksmiðjur í samrekstri með Ford í Tennessee og Kentucky.
Campbell sagði að Solid Power hafi nægjanlega framleiðslugetu til að útvega frumgerð af rafhlöðusellum til annarra bílaframleiðenda en vildi ekki tjá sig nánar um málið.
Fyrirtækið, sem fór á markað í gegnum öfugan samruna árið 2021, fékk snemma fjárfestingar frá Hyundai og Samsung, auk Ford og BMW.
Campbell viðurkennir að samkeppnin sé mikil í þróun á fastefnisrafhlöðum (solid-state) milli „stóru strákanna – hópa eins og Toyota, Panasonic, Samsung, LG Energy Solution, Hyundai og CATL.“
„Við erum í flokki meðal margra mjög áberandi og trúverðugra leikmanna,“ sagði hann.
Eins og flest þessara fyrirtækja, þá eru rafhlöður Solid Power með súlfíð-undirstöðu raflausn í föstu formi, miðilinn sem litíumjónir streyma í gegnum milli jákvæðra og neikvæðra rafskauta við hleðslu og afhleðslu.
Rafhlöðusellur með raflausnum í föstu formi eru í minni hættu vegna íkviknunar út frá skammhlaupi en þær sem eru með fljótandi raflausn.
Campbell sagði að sellur Solid Power, sem nú nota kísilrík forskaut og nikkel-kóbalt-mangan bakskaut, hafi tilhneigingu til að halda meiri orku – þannig að rafknúin farartæki hafi lengri drægni – og kosta minna en hefðbundnar litíumjónarafhlöður.
Solid Power hefur einnig hannað fastefnisrafhlöður sínar til að vera samhæfðar núverandi litíumjóna framleiðsluferlum.
(Reuters – Automotive News Europe)
Umræður um þessa grein