Myndband með þessari grein!
BYD er stærsti rafbílaframleiðandi í heimi og jafnframt leiðandi á sviði rafhlöðuframleiðslu á mörkuðum á borð við Kína og Evrópu.
Fyrirtækið framleiðir meðal annars hinar tæknilegu Blade rafhlöður, sem hafa hlotið lof fyrir endingu, öryggi og góða orkuþéttni.
Með slíkum bakgrunni er ljóst að BYD hefur bæði burði og metnað til að bjóða upp á vandaða rafbíla – og BYD Seal U er þar engin undantekning.

Verulega huggulegur fjölskyldubíll.
Við reynsluökum reglulega nýjum bílum og að þessu sinni settum við BYD Seal U í gegnum ítarlegt aksturspróf. Niðurstaðan? Mjög jákvæð.
Nútímaleg hönnun
BYD Seal U er millistór SUV – bíll sem fellur vel að þörfum fjölskyldna og þeirra sem vilja fjölhæfan og hagkvæman rafbíl með góðu innanrými.
Bíllinn vekur strax athygli með straumlínulagaðri hönnun og vönduðum frágangi, bæði að utan og innan.
Miðlægur skjárinn er stór, skýr og auðlesinn – og það sem meira er: hægt er að snúa honum annað hvort í portrait eða landscape stillingu eftir þörfum. Þetta eykur sveigjanleika og aðgengi að upplýsingum í akstri.

Heil ljósastika að aftan.
Í framrúðunni má sjá „head-up display” sem sýnir mikilvægar upplýsingar beint fyrir framan ökumann, án þess að trufla sjónsvið eða einbeitingu. Þetta kemur sér sérstaklega vel við akstur á þjóðvegum með leiðsögn.
Tækni sem virkar
Seal U er útbúinn fjölmörgum nútímalausnum varðandi akstursaðstoð og öryggi. Þar á meðal er skynvæddur hraðastillir og akreinastýring, sem virkjast með einföldum hætti.

Mælaborðið og sjónlínuskjár virka mjög vel. Mælaborðið lúkkar mjög svipað og í Audi.
Við tókum hins vegar eftir því að kerfið hætti stundum að virka tímabundið ef vegmerkingar voru ófullnægjandi – en það er raunin víða á Íslandi, einkum eftir vetur þar sem saltað hefur verið ótæpilega.
Seal U fékk fimm stjörnur í öryggisprófunum EURO NCAP.

Öll stjórntæki eru innan seilingar og gírhnúðurinn flottur.
Viðmótið í snertiskjánum er einfalt og notendavænt, og það besta: flestar aðgerðir má einnig framkvæma með aðgerðarhnöppum í stýri eða í miðjustokk, þannig að ökumaður þarf ekki að færa augun of mikið af veginum.
Myndavélakerfið í bílnum er frábært – með skýrri og nákvæmri yfirsýn yfir akstursstefnu og aðstoð við að leggja eða aka úr þröngum stæðum. Þrívíddar myndavélakerfið virkar sem sagt mjög vel sem hjálpartæki.

Innanrými í BYD bílunum er í sérflokki hvað varðar lúxus og þægindi. Ljós skapa stemningu í mælaborðinu og efnisval er vandað hvar sem á er litið.
Afl, drægni og hleðsla sem stenst væntingar
Seal U er knúinn rafmótor sem drífur framhjólin og skilar 218 hestöflum og 360 Nm togi. Hann er nægilega aflmikill í upptakinu, fljótur að ná hraða og með skemmtilega nákvæmt og viðbragðsfljótt stýri.
Þetta gerir hann bæði lipran í borginni og þægilegan á þjóðvegi. Seal U er um 9,6 sekúndur í 100 km/klst. sem ætti að vera yfirnóg fyrir bíl á Íslandi.

BYD vinnur eftir ákveðinni hönnunarstefnu í öllum sínum bílum og bílar þeirra bera ákveðinn svip sem einkennir þá.
Drægni samkvæmt WLTP staðli er um 500 km sem er meira en nægilegt fyrir bæði daglegar og lengri ferðir út á land. Þú getur auðveldlega slegið inn leiðarlýsingu í leiðarkerfi bílsins og fengið upplýsingar um hleðslustöðvar á leiðinni.
Hins vegar vitum við að þær eru ekki of margar á t.d. leiðinni norður en við mælum með að eigendur rafbíla skipuleggi ferðina vel áður en lagt er í hann. Þannig verður ferðalagið áreynslulaust og þægilegt.
Þetta á að sjálfsögðu við um allar gerðir rafbíla. Hleðsluhraðinn er allt að 140 kW við hraðhleðslu og 11 kW í heimahleðslu, sem er í samræmi við kröfur nútímabíls.

Sætin eru fyrst og fremst þægileg. Það spillir heldur ekki fyrir að þau líta vel út og gott er að stíga út og inn í bílinn.
Pláss og notagildi
Seal U er bíll sem maður nýtur þess að aka. Hann er með rúmgott innanrými fyrir fimm fullorðna, gott fótapláss og þægilegt innstig að bæði framan og aftan. Sætin eru þægileg, og hönnun innanrýmisins er einföld, smekkleg og laus við óþarfa flækjur. Framsætin eru rafstillanleg með fjölda möguleika, auk þess með loftkælingu.





Farangursrýmið er 552 lítrar, en með því að leggja niður aftursætin stækkar það í tæpa 1500 lítra. Þetta nýtist einstaklega vel fyrir ferðalög, flutning á búnaði eða við heimsókn í Ikea.
Rafdrifinn afturhleri eykur notagildið enn frekar og gerir auðvelt að opna og loka skottinu með annarri hendi – eða jafnvel án þess að snerta bílinn ef rétt er stillt.

Miðjustokkurinn truflar ekki þó hávaxnir aki bílnum, fætur hafa nægt pláss og í miðju stokksins má sjá tvöfalda þráðlausa símahleðslu.
Þægindi og öryggi í forgrunni
Seal U er mjúkur og hljóðlátur, og hann fer vel með farþega yfir ójöfnur í íslensku vegakerfi. Stýrið er nákvæmt, fjöðrunin þægileg og almenn akstursupplifun er afslöppuð og örugg.

BYD Seal U er á 6.590.000 kr. þegar við prófuðum hann í apríl 2025.
Seal U er enginn kappakstursbíll, enda ekki hannaður sem slíkur – heldur bíll sem leggur áherslu á þægindi, rými og tæknilega útfærslu sem einfaldar daglega notkun.
Seal U sem er um 2.2 tonn að þyngd getur dregið allt að 1300 kg. kerru ef hún er með bremsubúnaði – annars um 750 kg. dráttargeta.
Og við erum mjög sátt
BYD Seal U er bíll sem sannar að kínverskir framleiðendur eru komnir ansi vel á veg inn í hana framtíð. Hann sameinar tæknivædda hönnun, góða drægni, vandaða innréttingu og notendavænt viðmót, ásamt áreiðanlegum og einföldum aksturseiginleikum. Getum við beðið um meira? Verðið spillir heldur ekki fyrir en toppgerðin er 6.590.000 krónur.

Afturhlerinn er rafdrifinn og opnast vel. Þú hefur fínt pláss til að ferma og afferma.
Þetta er bíll sem hentar jafnt í daglega notkun, helgarferðir eða til vinnu og skóla – og er frábær kostur fyrir þá sem vilja öruggan og hagkvæman rafbíl í millistærð.
Við fjöllum ítarlega um Seal U í myndbandinu sem er neðst í þessari grein – þar sem þú getur séð bílinn í notkun, skoðað tæknina og heyrt nánari umsagnir eftir reynsluakstur.
Myndband
Helstu tölur:
Verð 6.590.000 kr.
Drægni: allt að 500 km. skv. WLTP
Afl: 218 hö.
Tog: 360Nm.
Hleðsluhraði hraðhleðsla: allt að 140 kWh/klst.
Hleðsluhraði heimahleðsla: allt að 11 kWh/klst.
Veg/vindhljóð: 56 dB
Lengd/breidd/hæð í mm: 4.785/1.890/1.668
Myndataka: Radek Werbrowski
Samsetning myndbands: Pétur R. Pétursson
Reynsluakstur og álit: Radek Werbrowski og Pétur R. Pétursson