BYD Dolphin gæti slegið í gegn á Íslandi!

Tegund: BYD Dolphin

Árgerð: 2023

Orkugjafi: Rafmagn

Akstursupplifun, pláss, frágangur
Grafík í leiðsögukerfi
236
DEILINGAR
2.1k
SMELLIR

Vatt ehf. bauð okkur hjá Bílabloggi á Evrópukynningu á nýjum rafbíl frá BYD í Kína. Kynningin fór fram í Madrid nýverið.

Um er að ræða smábíl sem hefur fengið nafnið Dolphin og verður sennilega með ódýrustu rafbílum á markaðnum þegar hann kemur til Íslands nú í haust.

Falleg hönnun á BYD Dolphin.

Skemmtilegur bíll

Við tókum snúning á bílnum og urðum hrifin. Þetta er bíll sem keppir við rafbíla á borð við Hyundai Kona og MG4 til að mynda.

Dolphin er laglegur bíll og líkist meira „venjulegum” bíl og ekki undirstrikaður af sérstakri hönnun vegna þess að hann er rafmagnsbíll. Virkilega laglegur bíll.

Bíllinn kemur á mismunandi felgum eftir gerðum.

Meiri drægni

Þó Dolphin sé nokkuð hefðbundinn í útliti er hann byggður á nýjustu tækni sem bransinn býður upp á.

BYD Dolphin er byggður á grunni sem kallaður er Platform 3.0 en hann er þannig uppsettur að rafhlaðan verður hluti af pallinum sem bíllinn er byggður á.

Það sem BYD kallar CTB technology eða Cell-To-Body. Fyrir vikið er hægt að hafa bílinn lægri og hann er sterkari þar sem rafhlaðan er í raun byggð inn í bílinn.

Efnisval og frágangur til fyrirmyndar. Skjárinn er 12.8 tommur og getur verið hvort sem er, lóðréttur eða láréttur.

Níðsterkar rafhlöður

Annað sem vert er að nefna og er nýjung í bransanum eru rafhlöðurnar. BYD kallar þær Blade rafhlöður en þær eru þunnar sterkbyggðar rafhlöðueiningar sem raðast saman og mynda þannig eina heild.

Að innan en rafhlaðan með svokölluðum „honeycomb” strúktur sem gerir hana afar sterka.

Allt þetta þýðir að rafhlaðan er léttari og gerð til að endast betur fyrir utan að minna fer fyrir henni en öðrum rafhlöðum. Dolphin er með allt að 427 km. drægni. Minni rafhlaða, meiri drægni og meira pláss.

Bíllinn er ekki nema um 1.685 kg. að þyngd – sem er frekar lítið fyrir rafbíl.

Flott pláss í aftursætum, jafnvel fyrir hávaxna einstaklinga.

Vel búinn

BYD Dolphin er kynntur í fjórum útfærslum, Active sem er grunngerðin, Boost, Comfort og Design. Eins og er vitum við ekki hvaða gerðir verða boðnar hér á landi en okkur grunar að þær geti verið Boost og Comfort gerðir bílsins.

Um tvær rafhlöðustærðir er að ræða, 45 kW og 61 kW. Sú minni gerir ráð fyrir að bíllinn fari um 310 km. á hleðslunni en með þá stærri um 427 km.

Togið er um 290 Nm. Það þýðir að bíllinn er þræl snöggur og verður fyrir vikið lipur og þægilegur í akstri.

Ljúfur í akstri og lipur bíll.

Við reynsluókum BYD Dolphin Comfort sem er með stærri rafhlöðunni og er um 204 hestöfl. Sá bíll er með 88 kW hraðhleðslugetu og getur tekið við allt að 11 kW á klukkustund í heimahleðslustöð.

Lipur og þægilegur bíll

Og það er gott að aka þessum bíl. Dolphin Comfort kemur virkilega á óvart. Þetta er sá rafbíll sem undirritaður hefur ekið sem er hvað líkastur því að aka hefðbundnum bíl með brunavél.

Auðvitað eru fleiri nýir rafbílar sem ná þessum „gæðastimpil” en það eru allt stærri og dýrari bílar en Dolphin.

Mælaborðið er ofan á stýrinu, líkt og í ID línu VW. Allar upplýsingar til staðar, beint fyrir framan ökumanninn.

Tilfinningin: mun stærri bíll

Akstursupplifunin var frábær. Bíllinn er enginn sportbíll, enda ekki hannaður sem slíkur.

Fjöðrun er frekar mjúk og stýrið er nákvæmt. Það er eins og maður sé að aka mun stærri bíl en raun ber vitni.

Sætin eru sérlega góð og satt best að segja er þessi bíll ekki langt frá bróður sínum, Atto3. Hann er bara örlítið minni.

Farangursgeymslan er um 345 lítrar og stækkanleg í rúma 1300 lítra.

BYD Dolphin er mjög vel búinn í grunninn en Comfort bíllinn er með öllu því sem þykir tíðindum sæta í nútímabíl í dag.

Við erum að tala um akreinavara, akreinastýringu, skynvæddan hraðastilli, bremsuaðstoð, hliðarárkestrarvörn, sex loftpúðum, rafdrifnum sætum, 360° myndavélakerfi og 12.8 tommu snúaanlegum miðjuskjá, Android Auto og Apple Carplay. Nokkuð vel í lagt finnst okkur, í ekki stærri bíl.

Gott að ganga um bílinn

Við ókum bílnum talsvert um krókótta sveitavegina í útjaðri Madridborgar en leiðin lá svo inn í borgina þar sem vel kom í ljós hversu frábær bíllinn er í borgarumferðinni.

Sjónlínan er frekar há í þessum bíl og þú situr vel í honum. Þú sest inn í bílinn en ekki ofan í hann.

Hurðir opnast vel og það er gott að stíga inn og út úr bílnum að aftan. Aftur í er nægt pláss þó svo að framsætin séu stillt fyrir hávaxna einstaklinga. Höfuðpláss aftur í er einnig ágætt en tekið skal fram að undirritaður er um 187 sm. á hæð.

Skottið er um 345 lítrar, stækkanlegt með niðurfellingu sæta upp í rúmlega 1.300 lítra.

BYD Dolphin er mun stærri en hann lítur út fyrir að vera – sérstaklega þegar inn er komið.

Allur frágangur til fyrirmyndar

Við nefndum það sem mínus þegar við reynsluókum Atto3 að birtustig skjásins væri ekki nægilegt.

Í þessum bíl var það ekki vandamál og líklega verðum við að éta hatt okkar hvað það varðar í Atto3, við höfum bara ekki fundið út hvernig stilla átti birtustigið.

Tæknilegur

Við ókum eftir leiðarkerfi appsins í bílnum og það virkaði ágætlega en vegakortið hefði mátt sýna betur akreinaskiptingar. Algjört smáatriði. Hins vegar hefði ekki verið stórmál að tengja símann við Apple Carplay eða Android Auto og nota símann sem leiðsögutæki.

Þráðlaus hleðsla, takkar í mælaborði fyrir helstu aðgerðir og stýrið er þægilegt og gott að halda um það.

„Mælaborðið” er bara skjár á stýrinu, líkt og í ID bílum VW. Skjárinn virkar vel og upplýsir mann ágætlega um það sem maður þarf að vita þegar maður ekur bíl – rafbíl.

Hann kemur í haust

Það verður að segjast að framtíðin í rafbílamálum á Íslandi er nokkuð björt að okkar mati. Þeir BYD bílar sem við höfum reynsluekið hafa komið sérlega vel út.

Tæknilega fullkomnir, þægilegir í akstri og vandaður frágangur hvert sem litið er. Það eina sem er öðruvísi en hjá samkeppnisaðilunum er verðið. Það er lægra fyrir sama eða meiri búnað.

Myndband

Helstu tölur:

Verð: Liggur ekki fyrir enn – en Comfort týpan er boðin á um 31 þús. EUR í Evrópu

Afl mótors: 204 hö.

Tog: 290 Nm.

Drægni: 427 km. skv. WLTP staðli

Hleðslugeta: 88 kW á klst.

Hleðslugeta með heimastöð: allt að 11 kW á klst.

Stærð rafhlöðu: 61 kWst.

Lengd/breidd/hæð: 4.290/1.770/1.570 mm.

Myndir: Pétur R. Pétursson og BYD.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar