Átt þú skondna sögu af fyrsta bílnum þínum? Ég er nefnilega að safna og væri mjög þakklát ef lesendur vildu deila þeim. En þangað til þurfa erlendar sögur að duga og að sjálfsögðu eru það sögur frá Fiat-fólki þar sem fyrsti bíll undirritaðrar var þessi líka fín…flo… já þessi líka Fiat Uno ´87.

Gefum nú Fiat-fólkinu orðið en þessar sögur eða minningar voru skráðar á spjallsvæði FiatForum.com árið 2004 og kannast maður óþægilega vel við margt af því sem greint er frá:
Með handbremsuna í höndunum – Fiat Ritmo 85S (Strada)

„Fyrsti bíllinn minn var af gerðinni Ritmo 85S (Strada). Kúplingin var endanlega farin og já, maður þurfti að reka í gír og vona það besta. Þá hrundi pústið undan bílnum. Ég reif í handbremsuna og ætlaði að skoða undir bílinn. Já, ég reif handbremsuna hreinlega af!
Ekki leið á löngu þar til bremsudælan að aftan fór að gefa sig. Þegar ég bremsaði frussaðist bremsuvökvinn. Við tjökkuðum bílinn upp og framrúðan smallaðist þegar bíllinn hlunkaðist niður af tjakknum. Þarna áttaði ég mig á að bíllinn var haugryðgaður og ekki smuga að koma skrjóðnum gegnum skoðun.
Þannig ók ég garminum til partasalans: Engin kúpling, engin handbremsa en nógu mikill bremsuvökvi til að komast á leiðarenda. Það var líka síðasti spölurinn sem bílgarmurinn fór.“
Brást mér aðeins einu sinni – Uno 45 Fire (‘90)

„Fyrsti bíllinn minn var 1990 árgerðin af Uno 45 Fire. Hann brást mér bara einu sinni og það var mjög vandræðaleg uppákoma. Það var á Brands Hatch akstursbrautinni. Það hafði verið úrhellisrigning allan daginn og brautin er í miklum halla. Samsetning sem hentaði bílnum greinilega illa.
Bíllinn fór í gang í fyrstu en ekki leið á löngu þar til hann fór að hökta og drepa á sér. Það endaði á því að ég kom honum ekkert í gang aftur eftir að hann drap á sér í bröttustu brekkunni. Þetta leit ekki vel út og í lok dags var það mat flestra á svæðinu að ég kynni einfaldlega ekki að aka.“
Í lífshættu tvisvar sama dag – Cinquecento SX 899cc

„Fyrsti bíllinn minn var Cinquecento SX 899cc. Frábær bíll en vantaði alveg aflið. Einu sinni var ég í lífshættu og það í tvígang sama dag. Í fyrra skiptið var ég að koma frá Demon Tweeks í Wrexham. Þá datt mér í hug að gera heiðarlega tilraun til að taka fram úr traktor á leiðinni upp brekku.
899 rúmsentímetra vélin gerði sitt besta og þetta var alveg að takast þegar farþegi minn muldraði „Corsa“ en muldrið stigmagnaðist allt þar til ég áttaði mig á að um 40 metrar voru í Vauxhall Corsa sem kom á móti mér. Ég snarbremsaði og það gerðu aðrir líka og þetta fór vel, ótrúlegt en satt!
Seinna þennan sama dag fór ég of hratt inn í hringtorg. Á áttatíu kílómetra hraða með tvö hjól á götunni en hin tvö á lofti áttaði ég mig á að ég var á rangri akrein. Ah, þetta var ágætt!“
Bremsuför…í buxum -999cc Uno IE Fire

„Hann var virkilega skemmtilegur þessi fyrsti bíll sem ég eignaðist. 999cc Uno IE Fire. En bremsurnar voru svo lélegar að oftar en ekki var ég við það að gera í buxurnar. Þar voru alla vega bremsuförin.
Einu sinni ók ég á 60 eftir vegi þar sem hámarkshraðinn var 60 km/klst, eins og lög gera ráð fyrir. Á hinni akreininni var umferðarteppa. Kona nokkur ákvað að forða sér úr teppunni við næstu gatnamót þannig að hún beið á miðri götunni eftir að einhver gæfi henni séns. Þetta gerði hún snögglega og ég hafði um 20 metra til að afstýra árekstri.
Ég negldi niður og pedalinn fór alla leið niður í gólfið en það dró lítið úr ferðinni og innan skamms sat ég í bílnum á umferðareyju og bölvaði kerlu í huganum.“
Áleggið í samlokunni – Fiat Panda 1000s

„Mitt fyrsta ökutæki var Fiat Panda! Upprunaleg Panda að sjálfsögðu. Minnir að þetta hafi verið 1000s sem var með klukku (já einhverjir kunna að hlæja en ódýrari gerðirnar voru sko ekkert með neina klukku), fóðraða og fína farangurshillu og sanserað lakk!
Bíllinn leit ekki sérlega vel út eftir að hann kramdist rækilega á milli Peugeot 205 og Vauxhall Calibra. Eins og kramið álegg í bílasamloku.

Látum þetta gott heita en þeir sem vilja deila sögum með undirritaðri sendi póst á malin@bilablogg.is.
Aðrar greinar tengdar fyrsta bílnum:
Ég og Renault 5 Gt Turbo
Munið þið eftir AMC Concord?
Bílarnir sem ég hefði viljað eiga 1998
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein