Brandon mun aldrei framar týna bíllyklinum
Brandon Dalaly virðist hafa andúð á lyklum. Í það minnsta hefur hann gengið býsna langt til þess að komast hjá því að týna lyklum, læsa sig úti o.s.frv. Hann er alsæll með staðinn þar sem hann geymir lykilinn að Teslunni sinni.
Bandaríkjamaðurinn Brandon Dalaly er í rauninni lykill, holdi klæddur. Það er undarlegt en satt. Hann lét græða örflögu inn í handarbak hægri handar sinnar og það er sjálfur Teslulykillinn. Þetta finnst honum algjörlega frábær hugmynd og er viss um að þetta sé „lykillinn að framtíðinni“ og að aldrei muni hann framar þurfa að fylla vasana af lyklum.
Nei, til hvers að fylla vasana af lyklum þegar maður getur fyllt líkama sinn af örflögum (hóst hóst)?
Í viðtali við Teslarati greindi Brandon frá því að þetta væri raunar ekki fyrsta ígræðslan hans:
„Hugmyndin var sú að húslykillinn væri í vinstri hendinni og bíllykillinn í hægri,“ en það er einmitt málið; húslykillinn eða örflagan sem gegnir þar lykilhlutverki, var fyrst grædd í hann og þetta fannst honum svo snjallt að bíllykillinn fylgdi í kjölfarið. „Þetta er mjög kúl sko, þegar þetta er komið í gagnið því þá getur maður tengt ýmislegt við flöguna, eins og greiðslukort og fleira.“
En hvað með Apple Pay?
Maður spyr sig hvort ekki sé hægt að nota Apple Pay eða álíka til að greiða snertilaust fyrir hluti úti í búð. Brandon virðist hrifnari af því að vera með þetta allt í „lúkunum“ ef svo má segja. „Jú, þetta er í sjálfu sér ekkert frábrugðið Apple Pay. Þetta virkar alveg eins og það nema það er bara í höndunum en ekki símanum,“ sagði hann við blaðamann Teslarati.
Undirritaðri er fyrirmunað að skilja af hverju Brandon kýs að hafa þetta svona en það er nú svo margt sem maður skilur ekki. Þetta er sannarlega eitt af því.
Hvað svo?
Blaðamaðurinn spurði örflögukarlinn, Brandon, hvort þetta væri kannski eins og húðflúr fyrir tæknifólk; eitthvert æði sem myndi fara út í vitleysu.
Brandon er ekki spámaður þótt hann sé örflögumaður en hann sagðist ekki ráðgera að fá græddar í sig fleiri örflögur. Alla vega ekki á næstunni.
„Í mínum huga er þetta mjög rökrétt. Svo er þetta líka nokkurs konar partíbrella því með því að tengja símann við þetta þá logar grænt ljós undir yfirborði húðarinnar,“ segir Brandon og ekki veit ég í hvernig teiti svona karl fer og slær í gegn með sinni grænu krumlu en svona er þetta nú.
Meðan einn fær sér eyrnalokka og annar húðflúr, fær Brandon Dalaly sér bara flögur. Hér er viðtal við manninn:
Umræður um þessa grein