Bölvaður klaufi að fjárfesta ekki í Tesla
Það hlýtur að vera skítt að líta til baka og vera einn þeirra sem fjárfesti vísvitandi ekki í Tesla árið 2007 því ráðgjafar mæltu gegn slíkum fjárfestingum; rafbílar væru bara „bóla“. Leyfið mér að kynna: John Doerr.
John þessi Doerr veitti „Bloomberg Wealth with David Rubenstein“ viðtal og birtist það í gær. Doerr er fjárfestir af stærðargráðu sem maður skilur varla en við skulum kalla hann stórlax.
Honum stóð til boða að fjárfesta í Tesla á merkilegum tímamótum hjá fyrirtækinu – ári áður en fyrsta Teslan leit dagsins ljós og Elon Musk var að taka við sem forstjóri. Marc Tarpenning og Martin Eberhard stofnuðu Tesla árið 2003 en sá síðarnefndi steig til hliðar (þó ekki hliðarspor í þeim skilningi) þegar Musk var orðinn aðsópsmikill innan fyrirtækisins. Já, svo því sé til haga haldið þá stofnaði Elon Musk ekki Tesla en hann kom inn í kompaníið með látum fáeinum misserum eftir að það varð til. Nánar um það síðar, hafi lesendur áhuga á þeirri sögu!
Nema hvað! Þetta var nú bráðnauðsynlegur útúrdúr því þegar Musk tók við stjórn Tesla, ákvað hinn mikli stórlax Doerr, að þetta væri nú ekki alveg málið; að fjárfesta í rafbílafyrirtæki sem engan bíl hafði framleitt.
Hann greindi frá því að til boða hafi staðið að „fjárfesta í snilldarlegri bílahönnun Henriks nokkurs Fisker eða í því sem léttgeggjaður en framtakssamur náungi, Elon Musk, var að gera hjá Tesla. Og við veðjuðum á rangan hest.“
Skemmst er frá því að segja að hann fjárfesti fyrir hönd Kleiner Perkins í Fisker Automotive fyrir rúmlega 10 milljónir dollara. Það fór eins og það fór og eyðum ekki of mörgum orðum í það ævintýr. Við getum bara orðað það sem svo að Tesla hafi tekið fram úr þar og á öðrum vígstöðvum.
„Þetta var sennilega versta ákvörðun allra tíma, séð frá sjónarhóli fjárfestis,“ sagðí Doerr í viðtalinu á Bloomberg. „Ég er ekki heltekinn af þessari hugsun, þessum mistökum. En þeim mistökum mun ég aldrei gleyma,“ sagði hann.
Doerr hefur komið að ýmsum stórfyrirtækjum og fjárfest meðal annars í Amazon, Google og Twitter. Sagðist hann undir eins myndað tengsl við hinn þrítuga Jeff Bezos þegar þeir hittust í fyrsta skipti. En eitthvað brást honum bogalistin þegar kom að Elon Musk og Tesla, enda segir hann það hafa verið reginmistök sem hann jú iðrist.
Forsíðumynd/Maja Hitij/Getty Images
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein