Þau eru nokkur, fyrirtækin sem hannað hafa „body kit“ fyrir nýjan Toyota Land Cruiser 300. Nú er blaðamaður í bölvuðum vandræðum með að finna íslenskt orð sem gæti blásið lífi í „body kit“ og eru ábendingar vel þegnar í athugasemdum á Facebooksíðu Bílabloggs eða í tölvupósti á netfangið malin@bilablogg.is.
Meðan ég er „orðlaus“ verður „body kit“ að duga.
Sitt sýnist hverjum um útkomuna en þessi „kitt“ eru sko síður en svo ódýr, ekki frekar en margir af þeim bílum sem dubbaðir eru upp með þar til gerðu kitti.
Land Cruiser 300 fær sitt kitt
Japanska fyrirtækið Liberty Walk ??er eitt þeirra sem beið með garnirnar gaulandi eftir endanlegu útliti og málum á Land Cruiser 300 (árgerð 2022). „Kittin“ eru nú klár og kosta frá 6.270 dollurum til 19.580 dollara.
Samkvæmt nýjustu útreikningum í Hafnarfirði eru þetta 813.000 kr. til 2.540.000 kr. og fer verðið eftir hvort keypt er „light“, „full“ eða „premium“ kit.
Gríðarleg samkeppni meðal „kittara“
Í hvert skipti sem kræsilegt ökutæki kemur askvaðandi á japanskan markað eru þeir sem kittin framleiða búnir að setja sig í stellingar og svo byrjar ballið. Þetta snýst um að búa til kitt sem gerir bílinn villtan og svakalegan útlits. Hodoor er eitt þeirra fyrirtækja sem sérhæfa sig á þessu sviði en ekki er hægt að sjá verðið á kittunum frá þeim enn sem komið er.
Modellista er enn eitt fyrirtækið en hér má sjá myndband úr herbúðum þess af Land Cruiser 300:
Ekki getur maður gert sér í hugarlund hvernig hönnuðum bílsins líður: Um leið og verkið er frumsýnt koma fram tillögur um hvernig megi breyta útliti þess. Ekki það að hér á landi hafa breytingar á jeppum verið stundaðar lengi. Þó hafa þær breytingar oftast með notagildi tækjanna að gera, frekar en útlitið.
Umræður um þessa grein