Það eru nokkur atriði sem falla iðulega í grýttan jarðveg hjá þeim sem lagt hafa allt sitt í barna- og bílauppeldi:
Að sett sé út á börn þeirra og bíla.
Að fullyrt sé að þetta sama fólk tilheyri hópi lélegra bílstjóra.
Að það tilheyri hópi lélegra uppalenda.
Já, nú verður víst ekki hjá því komist öllu lengur að segja þetta bara umbúðalaust; hreint og beint, vafningalaust og allt það. Tilbúnir, lesendur góðir?
Játning hins einlæga og hjartahreina bíleiganda. Já og hógværa auðvitað!
Ég er BMW-eigandi. Það má ekki blanda mínum gamla eðalvagni inn í umræðuna á nokkurn hátt þegar gert er grín að mér. Það kemur einstaklega illa við mig ef eitthvað tengt bílnum er haft í flimtingum. Eða sett út á bílinn. Það er bannað! Höldum börnum og barnauppeldi utan við þessa umfjöllun þótt líkindin séu augljós.
Bílinn hef ég átt í að verða tvo áratugi og hefur hann alla tíð látið vel að minni stjórn. Þetta er frábær bíll, tryggur og trúr. Hann er vinur minn.
Þess vegna fannst mér til að mynda ekki hressandi þegar tryggingaráðgjafi nokkur hjá ónefndu tryggingafélagi er ég nefni af þeim sökum ekki á nafn. En það byrjar reyndar á staf aftarlega í íslensku stafrófi og endar á ÍS – en það er ekki til umfjöllunar hér!
Já, hvert var ég komin?
Jú, þegar tryggingaráðgjafinn gerði mér „tilboð“ í bifreiðatryggingar reyndist iðgjaldið fyrir FORNBÍLINN [þetta er jú bíll aðeins yngri en ég sjálf: Engum blöðum um það að fletta að þetta er býsna gamalt – eldra en internetið, ostapoppið og barómeterinn] hærra en svo að ég kynni að telja öll núllin sem á eftir númerarununni komu.
Skýringin kom beint upp úr morknum illþefjandi skræðum geymdum í skúffu merktri „spænski rannsóknarrétturinn“ eða eitthvað í þá veru (var ekki með gleraugun):
„Þetta er auðvitað BMW. Þá er iðgjaldið eðli máls samkvæmt hærra en gengur og gerist,“ sagði Tryggur, þ.e. hinn trúi og hyggni þjónn tryggingaapparatsins.
„Það er þumalputtaregla þegar iðgjöld eru áætluð, að eigendur BMW eru líklegri en aðrir til að lenda í óhöppum. Tjah, eða öllu heldur: Valda óhöppum,“ sagði Tryggvi, Trausti, Tryggur eða hvað það nú var.
„Jahá! Þannig að áhættugjald á áhættu- og vandræðagjald ofan bætist svo ofan á svimandi hátt BMW-ökuníðings-iðgjalda-forarvilpu-fúafens-útreikningsklessuna ef viðkomandi grútarnefur er kvenkyns og jafnvel hörundsdökkur í þokkabót?“ spurði ég, og var í hreinskilni sagt bara nokkuð sigurviss eftir að hafa notað mjög mörg orð til að vega upp á móti mjög mörgum tölum, númerum og krónuígildum sem af munni Tryggs hrutu.
En nei, ég hefði getað sleppt því að þenja mig.
„Nei. Þetta hefur bara með bíltegundina að gera og það fólk sem kaupir hana. Tölfræðin talar sínu máli og þess vegna þurfið þið að borga hærri iðgjöld.“
Já, VIÐ! Við, „þetta“ fólk sem á „svona“ bíla og veldur „svona“ árekstrum. Líka þótt það hafi aldrei valdið óhappi og átt sinn „stórvarasama“ bíl í mörg ár.
Ég þakkaði fyrir mig og yfirgaf svæðið áður en minn forboðni munnlúður, BMW-soraskoltur, segði eitthvað ljótt og miður göfugt eins og eflaust má búast við af „svona“ fólki. Þessari „tegund“ fólks sem á bíl af þessari tilteknu gerð og allt það.
Nóg af dramatík! Þessari dramatík alla vega. Förum í næstu dramatík: Breta.
Bretar bauna á þýsk gæði og aðdáendur þeirra
Þetta er nú þegar orðin hin undarlegasta grein. Alveg hreint stórfurðuleg í alla staði og ekki kom hún til af góðu. Nei, ljót var hún, kveikjan. Altsvo kveikjan að skrifunum.
Ljótleikinn heitir Moneybarn. Öllu heldur var það skoðanakönnun sem Moneybarn Vehicle Finance (öllu má nú nafn gefa) stóð fyrir í Bretlandi fyrir ekki svo löngu.
Spurt var: Hverjir eru verstu bílstjórarnir?
Svör Bretanna:
1. Ökumenn BMW (um 40%)
2. Ökumenn Audi (um 14%)
3. Ökumenn hvítra sendiferðabíla (tæp 8%)
4. Ökumenn Range Rover (4.6%)
Já, þeir geta nú aldeilis þakkað, Bretarnir, fyrir að ekki var spurt um verstu matargerð… jæja, best að segja ekki meir!
Höfuðlagsfræðin afturgengin?
„Sú bölvaða vitleysa,“ segjum við í dag, útbelgd af skjalfestri og vottaðri réttlætiskennd um höfuðlagsfræðikenningar fyrri tíma. Höfuðlags-, eða kúpufræði (e. phrenology) var kenningartutla, skammlíf en þó of langlíf.
Kenning, um taugakerfið, sett fram af Þjóðverjanum Franz Joseph Gall seint á átjándu öld en inntak hennar var að lögun höfuðkúpu manna segði það sem segja þyrfti um lögun þess er innan í henni væri – heilans. Af þeirri lögun mætti ráða eitt og annað um eiginleika eigandans.
Í mjög einfaldaðri mynd af þessari kenningu Galls þá hefði til að mynda mátt sjá af höfuðlagi hversu vel gefinn einstaklingur gæti talist, hversu náskyldur eða fjarskyldur hann væri öpum og hve líklegur hann væri til að feta glæpabrautina eður ei, í framtíðinni.
Vinsæl í Bretlandi
Það kemur kannski á óvart að kenning þessi, um tengsl lögunar höfuðkúpu og persónuleika manna, skyldi hafa átt miklu fylgi að fagna einmitt í Bretlandi.
Svo segir internetið. Jú, það hefur eflaust hentað nýlenduherrunum ágætlega að geta réttlætt hvernig þeir drottnuðu yfir lægra settu og „lakara“ mannfólki.
Rétt eins og að þeir sem eiga BMW eru pottþétt „lakari“ bílstjórar og líklegri til að skapa glundroða í umferðinni. Ætli ekki færi best á að senda þessa manntegund með sína bíltegund aftur til 18. aldar og skoða aðeins lögun höfuðkúpunnar „þeirra“?
Þarf nú vart að nefna það, við ykkur er skrifum undirritaðrar eruð kunnug, að hún skrifar hér sposk á svip og með eindæmum laus við hvers kyns meinfýsni.
Hvað sem því líður er alveg öskrandi ljóst að rétt eins og vinsældarskeið höfuðlags„fræða“ er sem betur fer löngu liðið þá er það jafn gapandi galið að tryggingafélög, til dæmis á Íslandi, bæti nokkrum núllum aftan við iðgjaldið þegar BMW-eigendur eru rukkaðir.
Það er nefnilega ekki gefið að náunginn með egglaga höfuðið verði ribbaldi, BMW-eigandinn fletji út allt sem á vegi hans verður né heldur að Bretinn bjóði þér upp á ólystuga blóðpylsu eða steikar-og nýrnarböku sem, ef heppnin er mönnum hliðholl, tekur aðeins fáeinar stundir að losna við úr gómnum. Svona eins og þegar maður slysast til að eta hundasúkkulaði.
Nei, það er ekkert sjálfsagt!
[Greinin birtist fyrst í júlí 2021]
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein