Bíltúr með Sigurði Inga Jóhannssyni
Virka akstursaðstoðarkerfi á götum Reykjavíkur og nágrennis?
Undanfarna mánuði höfum við hjá Bílabloggi verið að fjalla um rafbílavæðinguna frá hinum ýmsu hliðum. Við höfum verið í góðu samstarfi við Heklu, bílaumboð varðandi rafmagnaða upplifun sem gengur út á að lýsa því hvernig er að eiga og reka rafmagnsbíl dags daglega á Íslandi.
Nýjasta nálgun okkar tengd rafbílavæðingunni er hlutur stjórnvalda. Okkur langaði að skyggnast inn í framtíðarsýn stjórnvalda og fengum því Sigurð Inga Jóhannsson, innviðaráðherra til að skjótast með okkur í bíltúr og sýna honum hvernig skynvæddur búnaður bílsins virkar á götum borgarinnar.
Markmið bíltúrs með ráðherra
Við spurðum Sigurð Inga meðal annars hver stefna stjórnvalda í þróun og uppbyggingu vegakerfisins væri háttað tengd nýrri tækni nútíma rafmagnsbíla. Sjálfvirkni ryður sér nú til rúms á miklum hraða í bílahönnun og hægt er að fá bíla sem geta þess vegna ekið sjálfir (að hluta).
Okkur langaði líka að vita hvernig stjórnvöld sjá fyrir sér áframhaldandi stuðning við orkuskiptin og þá til langs tíma.
Við leitum upplýsinga um frekari uppbyggingu á innviðum, til dæmis hleðslustöðvaneti við þjóðvegi?
Erum við í stakk búin tæknilega til að bjóða upp á sjálfkeyrandi akstur að hluta?
Eru fjarskiptafyrirtækin höfð með í ráðum, til dæmis varðandi öflugt 5G net sem býður upp á nægilega hnökralaus samskipti við sjálfkeyrandi bíla svo öruggt sé að nota sjálfkeyrandi búnað?
Margir bílaframleiðendur rafmagnsbíla bjóða nú bíla með einhverskonar sjálfkeyrandi kerfum – misfullkomnum. Ætlar ríkið að lengja í fjárhagslegri ívilnun við kaup á rafmagnsbílum?
Nákvæm tækni
Til að sjálfkeyrandi akstur gangi upp má ekki vera meira en 15 sm. frávik við hliðar bíls og staðsetningarkerfis og 50 sm. fyrir framan og aftan bílinn. Einnig, til að sjálfkeyrandi kerfi virki þarf mjög nákvæm stafræn kort í þrívíðu formi.
Að endingu kallar sjálfkeyrandi á mjög öflugt fjarskiptakerfi sem er með stöðugan uppitíma.
Er Vegagerðin búin að kynna sér þarfir bíla sem lesa umferðarskilti, veglínur eða sem hafa aðra skynjun á búnaði vegarins? Til að umferðaskiltalesarar virki þarf að merkja akvegi þannig að bíllinn „ruglist” ekki. Vegmerkingar spila stórt hlutverk í akstursaðstoð t.d. akreinastýringu og akreinaaðstoð.
Létum bílinn lesa umferðarskiltin
Við hittum Sigurð Inga fyrir skömmu og buðum honum í bíltúr og að ræða málin. Hér má sjá bíltúrinn sem er um 30 mínútur.
Ráðherra prófaði sjálfur hvernig til dæmis umferðaskiltalesari virkar en í þessum stutta túr sjá menn fljótlega að úrbóta er þörf – allavega í uppsetningu umferðarskilta og veglínumerkinga til að hægt sé að nota búnað eins og akreina- og hraðastýringu með öruggum hætti.
Bæta þarf tækni vega
Til að mynda ef ekið er vestur eftir Reykjanesbraut áleiðis til Keflavíkur verða á vegi okkar allnokkur mislæg gatnamót. Við stillum bílinn á 90 km/klst. og notum skynvæddan hraðastilli.
Hann heldur ávallt jöfnu bili milli bílsins fyrir framan upp að 90 km. hraða á klukkustund.
Tökum sem dæmi gatnamótin eru við Hvassahraun.
Getur skapað hættu
Þar hægir bíllinn skyndilega á sér vegna hraðamerkinga á aðrein, en þar er leyfður hámarkshraði við bestu aðstæður 50 km/klst. Þetta er miðað við að við stillum skynvædda hraðastillinn þannig að hann lesi umferðaskilti og stilli hraðann eftir því sem skiltið sýnir
Undir veginum er einnig hringtorg en bifreiðin er með akstursaðstoðarkerfi sem dregur úr hraða bílsins til móts við hringtorg.
Bíllinn skynjar ekki að hringtorgið er á „fyrstu hæð“ (undir veginum).
Það skapar því stórhættu að nota þennan búnað til dæmis á Reykjanesbrautinni vegna ofangreindra þátta.
Fjölbreytt nálgun
Við höfum reynt að fjalla um málefnið varðandi upplifun á notkun rafmagnsbíls á fjölbreyttan máta og skoðað sem flesta snertifleti. Hér má til dæmis sjá grein um hleðslulausnir.
Við höfum tekið hús á tryggingafélögunum, viðhaldsaðilum og ekki síst höfum við skyggnst inn í líf og starf þeirra sem nota rafbíla í atvinnuskyni. Hér má einmitt lesa grein um það.
Hér má síðan sjá umfjöllun okkar um tryggingar og tjón á rafmagnsbílum.
Myndband og klipping: Dagur Jóhannsson.
Umræður um þessa grein