Á tæplega fjögurra kílómetra dýpi, um 600 kílómetra suðsuðaustur af Nýfundnalandi er flak skipsins Titanic. Þar hefur það verið í 109 ár og til ársins 1985 var nákvæm staðsetning þess ekki vituð.
Frakkanum Jean-Louis Michel og hinum bandaríska Robert Ballard tókst að staðsetja flakið í leiðangri sem farinn var fyrir 36 árum, þ.e. 1985.
Þá kom nú ýmislegt merkilegt í ljós. Margt af því sem sökk með skipinu nóttina örlagaríku í apríl 1912 hafði varðveist á hafsbotni.
Þúsundum muna hefur verið bjargað, ef svo má að orði komast, úr undirdjúpunum og má þar til dæmis nefna snyrtivörur, vínflöskur, borðbúnað, spegla, ferðatöskur og öryggishólf.
Brak úr skipinu, varningur og munir dreifðust um 5,2 ferkílómetra svæði á þessu dýpi og förum ekki nánar út í hver á hvað af þessu öllu saman því auðvitað hefur verið deilt fram og aftur um eignarhald á því sem heilt er.
Franskur eðalvagn
Árið 1912 voru bílar sannarlega orðnir nokkuð algengir, í það minnsta á meðal efnameira fólks. Það kemur því kannski á óvart að samkvæmt farmskrá Titanic mun einungis hafa verið einn bíll um borð í skipinu.
Í lest skipsins, var bíll, Renault Type CB Coupé de Ville árgerð 1912. Honum hafði verið komið fyrir í eins konar „kassa“ og verið hífður um borð í Southampton. Honum var víst vandlega „pakkað inn“ enda langt ferðalag framundan og átti eðalvagninn að komast heill á áfangastað.
Þessi tiltekni Renault var með 2.6 lítra vél sem skilaði 25 hestöflum og náði bíllinn hátt í 60 kílómetra hraða á klukkustund. Hann þótti afar glæsilegur og kostaði skildinginn.
Bíll sömu gerðar var fyrir nokkrum árum seldur á uppboði fyrir 269.500 bandaríkjadali.
Carter og franski bíllinn
William Ernest Carter hét maður nokkur frá Bryn Mawr í Pennsylvaníu. Hann var vellauðugur kolakaupmaður og vorið 1912 ferðaðist hann um Evrópu ásamt konu sinni, Lucile, tveimur börnum, tveimur hundum, þjónustustúlku (einkakennara) og einkaþjóni. Börnin hétu í höfuðið á foreldrunum: William og Lucile. Stúlkan var þrettán ára gömul og pilturinn ellefu ára þegar dvöl fjölskyldunnar í Evrópu lauk en í heilt ár höfðu þau verið búsett á Englandi.
Það var því spenna í lofti þegar fjölskyldan fór um borð í Titanic, skipið „ósökkvandi“, í Southampton.
Nú færu þau heim á ný og það í flottasta skipi heims! Vart þarf að taka fram að fjölskyldan ferðaðist á fyrsta farrými (fargjaldið var 120 pund sem einhver talnaglöggur reiknaði út að samsvaraði um 77.000 dollurum í dag) og voru klefar B-96 og B-98 merktir fjölskyldunni. Þjónustufólkið var á öðru farrými.
Eflaust hefur borið nokkuð á fjölskyldunni því engir aðrir farþegar höfðu með sér bíl. Það hefur sennilega ekki farið framhjá neinum þegar Renault glæsivagninn var hífður um borð.
Þrátt fyrir íburðinn á fyrsta farrýminu, Bridge Deck, fannst hinum 11 ára gamla William skemmtilegast að hlaupa um hina fjölmörgu ganga skipsins því þar gat hann leikið við börn af öðrum farrýmum. Ef frásögnin er rétt þá er það góð áminning um að börn vilja leika sér og þá er ekki spurt að stétt eða stöðu. En það er önnur saga.
Niður fór skipið og bíllinn með
Herra Carter og frú snæddu síðasta kvöldverðinn á Titanic með skipstjóranum og fleirum. Hryllingurinn, fáeinum klukkustundum síðar, þegar skipið rakst á ísjaka, er á flestra vitorði.
1.500 manns drukknuðu en 675 var bjargað. Carter-fjölskyldan var á meðal þeirra sem björguðust. Þjónninn og bílstjóri fjölskyldunnar, Charles Aldworth, drukknaði en þjónustustúlkan og kennari barnanna, hin franska Auguste Serreplan, bjargaðist.
Bíllinn var í fremri lest skipsins og hefur hann aldrei fundist. Margir hafa leitað, nú síðast árið 2020, en líkurnar á að bíllinn hafi varðveist á hafsbotni eru ef til vill ekki miklar. Nema að honum hafi verið „pakkað“ alveg svakalega vel inn.
Flak Titanic er altsvo í tveimur hlutum og á milli þeirra eru um 600 metrar. Sagt er að fremri hlutinn sé lítið skemmdur og hafa því einhverjir haldið í vonina um að upp úr sæ fiskist einhvern daginn, sem nýr „úr kassanum“, Renault CB Coupe de Ville.
Einhverjir sem kannað hafa góssið í kringum flakið telja að á myndum megi sjá hluti sem líkjast bílstýri og speglum en ekkert hefur verið sannað hvað það snertir.
Það er þá sennilegra að eðalsteinar fjölskyldunnar finnist í iðrum einhverra djúpsjávarlífvera því auk bílsins (var kannski í sömu „pakkningu“) var afar fágætt eintak af The Rubaiyat Omars Khayyams alsett eðalsteinum.
Tryggingafé fyrir bíl og hunda
Því miður hefur saga bílaáhugamannsins Williams Ernests Carters ekki komið sérlega fallega út. Hann bjargaðist, jú, en höfum í huga að konur og börn gengu fyrir þegar verið var að koma fólki í björgunarbátana. Árið 1997 var greint frá því í Ameríkunni stóru, að Carter hafi verið mikið í mun að bjarga sjálfum sér og það jafnvel á kostnað annarra.
Einungis tveir karlmenn, Carter var annar þeirra, voru í samanbrjótanlegum björgunarbát, Collapsible C, þeim níunda og síðasta sem slakað var frá hinu sökkvandi skipi. Hinn karlmaðurinn var Bruce Ismay, sjálfur framkvæmdastjóri og stjórnarformaður útgerðar Titanic, White Star Line.
Var haft eftir sjónarvottum að sá síðarnefndi hafi troðið sér í björgunarbátinn og var síðar meir nánast hakkaður í spað opinberlega fyrir að hafa bjargað eigin skinni eins og rola í stað þess að hjálpa drukknandi fólki.
Kona Carters, börn og þjónustustúlka komust í björgunarbát 4 og voru á meðal 28 kvenna og barna sem komust af á þeim bát.
Þegar mesta fjaðrafokið var vegna gjörða Ismays nóttina skelfilegu, varði Carter Ismay og tók upp hanskann fyrir hann opinberlega. Þá tók athygli manna að beinast að hinum vellauðuga manni, Carter sjálfum, og spurningar vöknuðu. Af hverju bjargaðist hann innan um konur og börn? Karlarnir tveir, Ismay og Carter, sem þóttust vera að hjálpa þeim sem voru í forgangi.
Jæja, ekki leið á löngu þar til Carter krafði tryggingafélagið Lloyd´s í London um 5000 dollara fyrir bílinn fína og 200 dollara fyrir hundana tvo sem drukknuðu.
Jú, peninginn fékk hann en fjölskyldan var, að því er sagt var, ekki stolt af fjölskylduföðurnum og forgangsröð hans. Einu og hálfu ári síðar skildu hjónin og fjölskyldan tvístraðist.
Rithöfundarnir Rick Archbold og Dana McCauley, höfundar bókarinnar Last Dinner on the Titanic, hafa látið í veðri vaka að eiginkonan, Lucile Carter, hafi farið fram á skilnað því hún hafi fyrirlitið og haft skömm á eiginmanninum sem flúði af hólmi og yfirgaf sökkvandi skip.
Þetta var langa útgáfan af sögunni um bílinn sem sökk með Titanic en kveikjan að skrifunum tengist því að undirrituð keypti á eBay dagblöð frá apríl 1912.
Þar birtust fyrstu frásagnir þeirra sem björguðust nóttina örlagaríku. Blöðin eru, eðli máls samkvæmt, í lélegu standi og molnar úr þeim þegar maður fer um þau skjálfandi höndum. En sögurnar! Maður minn! Lýsingarnar eru svo rosalegar að maður kemst við.
Dauðakveinin sem smám saman þögnuðu þegar fólkið sökk ofan í hina votu gröf, undir stjörnubjörtu himinhvolfinu.
Þá verður veraldlegur auður hjóm eitt en aumt er til þess að hugsa að flestir þeirra sem fórust voru farþegar af þriðja farrými. Af 324 farþegum fyrsta farrýmis björguðust 202, af 284 á öðru farrými 115 og af 709 farþegum þess þriðja björguðust 178.
Áhafnarmeðlimir voru 688 talsins og af þeim björguðust 206, samkvæmt dagblaðinu fyrrnefnda en höfum í huga að samkvæmt fyrstu tölum voru þeir 705 talsins sem björguðust en ekki 675 eins og síðar kom í ljós.
[Greinin birtist fyrst í apríl 2021]
Greinar af svipuðum toga sem þér gæti þótt áhugaverðar:
Hundrað amerískir bílar settir saman á Mýrdalssandi 1941
Bölvaður bíllinn: Upphaf heimsstyrjaldar
Bifvélavirkinn Elísabet Englandsdrottning
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein