Bíllinn sem gjarnan hefði mátt koma til Íslands
- 2022 árgerð Mitsubishi Outlander frumsýnd – en kemur ekki til Íslands né nágrannalanda í Evrópu
- Fer til dæmis á markað í Ameríku og Ástralíu
Ég held að við getum talað fyrir stóran hóp aðdáenda Mitsubishi Outlander og lýst óánægju okkar að Mitsubishi í Japan hafi ákveðið að setja ekki nýjustu útgáfu af Mitsubishi Outlander á Evrópumarkað, og þar með kemur þessi nýi bíll sem framsýndur var í vikunni ekki hingað til lands.
En eins og fram kom hér að ofan er bíllinn kominn í ljós og hægt að skoða hann á heimasíðu Mitsubishi og á ýmsum erlendum bílavefsíðum.
Meðal þeirra sem hafa fjallað um bílinn er vefsíða Car and Driver í Bandaríkjunum, og við skulum skoða sumt af því sem þeir höfðu að segja um bílinn:
Með hátæknilegri hönnun að utan og flottari innréttingu, er Mitsubishi Outlander 2022 algerlega endurhugsaður og lítur út fyrir að vera verðugur þátttakandi í samkeppnishæfum minni flokki „crossover“ bíla. Staðalfyrirkomulag þriggja raða sæta eru einnig einkennandi fyrir þennan flokk. Outlander deilir grunni og öðrum íhlutum með nýendurhannaða Nissan Rogue, þar á meðal 181 hestafla fjögurra strokka aflrás.
Mitsubishi eykur einnig lista yfir eiginleika Outlander og stefnir að því að bæta aksturseiginleika miðað við bílinn sem hann leysir af hólmi.
Athyglisverðustu endurbæturnar gerast í innanrýminu sem státar af nútímalegri hönnun og flottari efnum en áður. Auk þess er úrval af nýjum tengibúnaði og tækni til aðstoðar við ökumenn. Plug-in-hybrid (PHEV) líkan mun að lokum bætast við í framboðið líka.
En hvað er nýtt fyrir árgerð 2022?
Vél, skipting og afköst
Outlander er með 2,5 lítra fjögurra strokka línuvél sem er 181 hestafl og togið er 245 Nm. Vélin er eingöngu pöruð við stiglausa sjálfskiptingu (CVT). Framhjóladrif er staðalútgáfa, en aldrif er valfrjálst. Eitt af því sem gerði fráfarandi gerð einstaka samanborið við flesta aðra millistóra „crossover“ bíla var tiltækur búnaður tengitvinnbíls.
Við vitum að Mitsubishi mun halda áfram að bjóða það í þessari nýjustu kynslóð en opinberar upplýsingar hafa ekki verið gefnar út. Við teljum að bensínvél PHEV gæti breyst úr 2,0 lítra fjögurra strokka í stóra 2,4 lítra einingu.
Mitsubishi hefur ekki sagt hversu sparneytinn 2022 Outlander verður í borginni eða á þjóðveginum.
Þegar þessar opinberu áætlanir hafa verið kynntar og við höfum tækifæri til að keyra einn slíkan á akstursleið, sem er hluti af umfangsmiklu prófunarferli okkar, getum við metið raunverulegar eyðslutölur þessa „crossover“ bíls, segja þeir hjá Car and Driver.
Innréttingar, þægindi og farmrými
Nýi Outlander lítur út fyrir að hafa verulega flottari efni i innanrými samanborið við forvera sinn, sem var með plast og glitrandi áherslur. Ekki aðeins eru innri áherslur og yfirborð með meiri gæðum, heldur er hönnunin að lokum orðin nútímaleg.
Sömuleiðis er úrval af atriðum, þar á meðal 12,3 tommu stafræn mælaþyrping og vörpun upplýsinga í sjónlínu ökumanns. Mitsubishi segist einnig hafa gert innréttinguna í Outlander rýmri, bætt útsýni og aukið hámarksflutningsgetu sína úr 1.869 lítrum í 2.265 lítra. Hann heldur einnig áfram að hafa þriggja raða sæti sem staðalbúnað, sem gerir Outlander að einum af tveimur minni „crossover“ með sæti fyrir allt að sjö farþega.
Volkswagen Tiguan er sem stendur eini annar kosturinn á Bandaríkjamarkaði.
Upplýsinga og afþreyingarkerfi og tengingar
Hvað varðar upplýsingamiðlun býður nýr Outlander bæði upp á 8,0 og 9,0 tommu snertiskjá. Samhliða hleðslutengjum neðst í miðjustokknum er kerfið með hnappa og snertifleti fyrir hljóðstyrk og stillingu. Outlander býður einnig upp á þráðlaust Apple CarPlay og Android Auto, þráðlausa snjallsímahleðslu og 10 hátalara Bose hljóðkerfi.
Öryggis- og aðstoðaraðgerðir ökumanns
2022 Outlander er fáanlegur með aðstoðartækni fyrir ökumenn sem felur í sér aðlögunarhraðastýringu og hálfsjálfstæða akstursstillingu. Helstu öryggiseiginleikar fela í sér:
- Tiltæk viðvörun fyrir hættu á árekstri að framan og sjálfvirk neyðarhemlun
- Tiltæk blindblettavöktun og viðvörun við þverumferð fyrir aftan bílinn
- Tiltæk viðvörun um staðsetningu í akrein og aðstoð við akstur í akreinum
En við verðum bara að horfa á þennan nýja Outlander úr fjarlægð (í bili að minnsta kosti) en þessi bíll á sér marga aðdáendur hér á landi, einkum í PHEV-útgáfunni, og hver veit nema að viðhorf Mitsubishi í Japan muni breytast og bíllinn komi aftur á Evrópumarkað!
(byggt á grein á vef Car and Driver og heimasíðu Mitsubishi – myndir frá Mistubishi)
Umræður um þessa grein