Bíll ársins í Evrópu
Þá er komið að upprifjun á bílum áranna 1981 til 1990. Er þetta framhald greinarinnar um bíla ársins 1971 til 1980 en hana má finna hér.
Þetta er áratugurinn sem undirritaður fékk bílprófið og er því með þennan áratug í fersku minni. Margir evrópsku bílaframleiðendanna koma við sögu þennan áratug og Ford, Fiat, Citroen og Renault meðal þeirra.
Sérstaka athygli vekur þó að enginn asíubíll bíll náði fyrsta sætinu þennan áratuginn, né öðru sætinu.
Það var ekki fyrr en 1988 að Honda Prelude komst í þriðja sætið í vali á bíl ársins í Evrópu á níunda áratugnum.
1981 Ford Escort III
Ford Escort kom fyrst til sögunnar árið 1968. Áður hafði Ford Cortina ráðið lögum og lofum á markaðnum. Önnur kynslóð bílsins leit síðan dagsins ljós árið 1974 og sú þriðja árið 1980. Ford Escort urðu gríðarlega vinsælir bílar.
Þeir voru framleiddir af Ford Europe í Þýskalandi. Escortinn varð oft og mörgum sinnum langsamlega söluhæsti bíllinn í Bretlandi.
Escortinn var framleiddur í fjölda útgáfa og með mismunandi vélastærðum. Fjögurra dyra stallbakurinn var sígildur, fimm dyra „hatchbakkinn“ náði miklum vinsældum og skutbíllinn einnig. Díana prinsessa átti árgerð 1981 stallbak af Ghia gerð. Í grein í Morgunblaðinu 1. apríl 1981 er fjallað um opnun bílasýningarinnar Auto ’81 sem haldin var í sýningahöllinni á Bíldshöfða (nú Húsgagnahöllin).
Escortinn sem kom 1981 var gjörbreyttur frá fyrri árgerð eins og segir í sömu grein – bæði að ytri og innri gerð. Verð bílsins var árið 1981 rétt um 106 þúsund krónur.
Ég átti sjálfur árgerð 1982 af Ford Escort með 1,1 lítra vél. Það var í einu orði sagt hrikalega slappur bíll. Vélarstærðir voru þó almennt 1,3 eða 1,6 lítra og var þá mun meira afl í boði.
1982 Renault 9
Renault kemur inn á markaðinn með trompi árið 1982 með Renault 9 og 11. Umboðið fyrir Renault á Íslandi var þá í höndum Kristins Guðnasonar á Suðurlandsbraut 20. Þessi bíll var í anda síns tíma, kantaður í útlti og frekar hvassar kassalaga línur. Renault 9 var með vélina þversum og framdrifi, sjálfstæðri fjöðrun á hverju hjóli. Renault 9 má segja að sé afi Megané bílsins.
Renault átti eftir að reyna við sölu þessarar gerðar í Bandaríkjunum í samstarfi við AMC (American Motors Corporation). Í þeim bílum voru stærri vélar og meiri búnaður. Ekki náði bíllinn miklum vinsældum vestanhafs.
Sighvatur Blöndal segir í Morgunblaðinu þann 21. ágúst árið 1982. „Þegar upp er staðið eftir reynsluakstur Renault 9 TLT er ekki hægt að segja annað en að hann hafi komið mjög vel út, enda kannski ekki við öðru að búast af bíl ársins 1982. Bíllinn er stílhreinn. Frágangur mjög góður. Hann er ágætlega kraftmikill og aksturseiginleikar eru góðir, bæði á malbikinu og úti á mölinni.“
1983 Audi 100
Audi 100 árgerð 1983 er ansi huggulegur bíll. Útlitið er ferskara en gerist og gengur á þessum árum, mýkri línur og vönduð framleiðsla. Á þessum árum er Audi að sérhæfa sig í meiri lúxus og sportlegri eiginleikum. Audi kom með þriðju kynslóð bílsins í september árið 1982.
Bíllinn var hugsaður sem stór fjögurra dyra stallbakur. Ekki voru lengur í boði tveggja dyra týpur bílsins og Avant bíllinn var nú skilgreindur sem skutbíll.
Audi hafði bætt loftmótstöðuna og var bíllinn með 0,3 í loftmótstöðustuðul. Audi bauð bílinn með í tveimur megin vélarstærðum árið 1981. 1,8 lítra 4 strokka bensín línuvél sem gaf 90 hestöfl og 2 lítra 5 strokka dísil línuvél sem gaf 86 hestöfl.
1984 Fiat Uno
Hér er kominn bíll sem brýtur blað í sögunni. Einn langlífasti smábíllinn í Evrópu. Um 8.8 milljónir eintaka framleidd. Áttundi mest framleiddi bíll í heimi. Framleiddur í Brasilíu til ársins 2014.
Ég náði að eiga tvo svona bíla. Uno 45 árgerð 1987 og einn af síðustu bílunum sem seldir voru splunkunýir hér á landi árið 1995.
Ég veit líka að Malín Brand félagi okkar og blaðamaður hjá Bílabloggi átti svona bíl og man hann enn.
Það var hreint ótrúlegt hvað þessi litli bíll leyndi á sér. Eins og gerðarheitið gefur til kynna var Uno 45 aðeins 45 hestöfl. Bíllinn var fyrst boðinn með 0,9 lítra vél auk 1,1 lítra og 1.3 lítra véla. Þetta voru allt gamlar vélar úr fyrri módelum Fiat.
Árið 1985 er bíllinn síðan boðinn með 1 lítra SOCH vél.
Aksturseiginleikarnir eru mun betri en hjá 127 bílnum. Aðalmunurinn liggur í fjöðruninni að aftan en nú eru afturhjólin með sjálfstæða fjöðrun á sveifluörmum og jafnvægisstöng, segir í frétt um frumsýningu á Fiat Uno í Danmörku í DV-bílum í júní 1983.
1985 Opel Kadett
Opel Kadett, síðar Astra og Vauxhall Astra í Bretlandi, var kynntur á bílasýningunni í Frankfurt árið 1985. Bíllinn var í sama stærðarflokki og VW Golf og Ford Escort. Kadettinn var gamalt Opel nafn en fyrsti Kadettinn kom á markað árið 1936.
Eftir síðari heimsstyrjöldina tóku Sovétmenn verksmiðju Opel í Russelheim eignarnámi og framleiddu þeir Kadettinn sem Moskvitch 400/402.
Rússarnir framleiddu bílinn frá 1946 og til 1956 með minniháttar breytingum milli ára. Kadett skutbíllinn var kallaður Kadett Caravan.
Kadettinn var framleiddur með fjölda vélastærða frá árunum 1984 til 1991. Sú minnsta var 1,2 lítra vél, frekar slöpp, sem gaf um 56 hestöfl og upp í 2 lítra, 129 hestafla vél með beinni innspýtingu.
Bíllinn var hins vegar ágætur í útliti á þess tíma mælikvarða.
Ómar Ragnarsson segir í Vísi í febrúar 1985. „Mínusarnir eru takmarkað útsýni úr bílnum, fjöðrun í stinnara lagi, hljóðleiðni í meira lagi á grófu undirlagi og takmörkuð vinnsla í vél á lágum snúningi.”
1986 Ford Scorpio
Kynntur árið 1985 í flokki stærri fjölskyldubíla kemur Ford fram á sjónvarsviðið með Scorpio. Scorpioinn er mjög líkur örlítið smávaxnari bróður sínum Ford Sierra enda byggður á grunni þess bíls – bara aðeins teygður. Scorpioinn er forveri Granada bílsins. Seinna kom hann í Ghia gerð sem er lúxusgerðin hjá Ford.
Ég man að ég leigði svona bíl í Lúxemburg árið 1987. Þetta var hörkukerra. Scorpio kom fyrst með ansi vel þekktri vél sem var úr vandræðagripnum Ford Pinto. Vélar í boði voru 1,8 lítra og 2 lítra bensínvélar með fjórum strokkum, 2,4 lítra og 2,8 lítra sex strokka Cologne vélum.
Seinna kom svo Ford með 2 lítra DOCH (tvöfaldur yfirliggjandi kambás) vél sem skipt var út fyrir Pinto vélarnar.
Scorpio var hugsaður til höfuðs bílum eins og Omega og Mercedes E gerðunum. Hægt var að fá lúxusgerð af þessari gerð bíla og hétu þá Ghia.
1987 Opel Omega
Opel Omega er í sama flokki og Scorpio. Árið eftir að ég leigði Scorpio bílinn átti ég aftur leið um Evrópu og leigði mér þá Omega á ferð minni um Benelux löndin. Ég man eftir að 1.8 lítra vélin sem var rétt um 90 hestöfl var of lítil fyrir þennan bíl. Hins vegar vorum við fjögur í bílnum og með mikinn farangur í Caravan bíl.
Hægt var að fá bílinn með fjölbreyttum vélakosti, bæði fjögurra og sex strokka.
„Það er nánast hægt að segja að þetta sé úrvalsbíll á alla lund og aðfinnslur jaðri við nöldur,“ segir Ásgeir Sigurgestsson í stórri og mikilli reynsluakstursgrein í Þjóðlífi í desember 1987.”
Íslenska lögreglan notaði svona bíla í sinni þjónustu. Segir í Víkurfréttum í júní árið 2000 í fréttum að lögreglan í Keflavík hafi fengið mjög kraftmikinn og rúmgóðan lögreglubíl. Þetta er Opel Omega.
1988 Peugeot 405
Peugeot 405 náði miklum vinsældum á evrópskum bílamarkaði. 405 bíllinn þótti vel hannaður. Frakkarnir klikkuðu ekki á smáatriðunum. Sætin voru sérlega þægileg, pláss bílsins var úthugsað og í Break bílnum (skutbíll) nýtist plássið enn betur vegna haganlegrar hönnunar á fjöðrunarbúnaði. Enda er fyrirsögn Jóhannesar Reykdal í DV frá því í mars 1989 svona; „Gott pláss og snerpa”.
Peugeot bílarnir hafa verið þekktir fyrir þægindi og 405 var engin undantekning þar að lútandi.
Snúningsmælir var staðalbúnaður, sjálfskiptingin skilar mjúkum og áhyggjulausum akstri og 110 hestafla vélin skilaði bílnum fyllilega því afli sem sóst var eftir.
1989 Fiat Tipo
„Fjöðrunin er fyllilega nógu góð til að takast á við grófa íslenska vegi. Samt á bíllinn það til að sveiflast til í snöggum beygjum á lausamöl ef stýrinu er snúið of snögglega þrátt fyrir jafnvægisstengur bæði að framan og aftan,” segir félagi okkar Jóhannes Reykdal í umfjöllun um bílinn í DV-bílum í september 1988.
Fiat Tipo snýr dálítið blaði í sögu Fiat. Fiat hafði átt við ryðvandamál að stríða í gegnum árin. Bíllinn hentaði vel í heitari löndum þar sem ekki reyndi mikið á rafkerfin. Með Tipo kemur alveg nýtt módel fram hjá Fiat. Hann er algjörlega galvaníseraður til að sporna við ryði.
Tipoinn er smíðaður á splunkunýrri grind sem átti síðan einnig eftir að verða notuð hjá Alfa Romeo og Lancia.
Tipoinn náði engu flugi hér á landi held ég að megi segja en til dæmis í Brasilíu náði hann gríðarlegum vinsældum og seldist í fleiri eintökum en til dæmis Volkswagen Golf. Fallegur bíll og mjög nýtískulegur á sínum tíma. Tipo þýðir „týpa” eða „gerð” á ítölsku.
1990 Citroen XM
Árið 1990 segir í fréttatilkynningu frá Globus, Lágmúla 5 að frumsýndur verði splunkunýr Citroen XM. Bíllinn kom með flugi til landsins til myndatöku fyrir auglýsingu og fylgdu með honum nokkrir Frakkar sem óku bílnum um Suður- og Vesturland þar sem auglýsingamyndir voru teknar.
Eftir helgina átti bíllinn síðan að fara til baka til Frakklands með flugi.
Enn og aftur er það félagi okkar Jóhannes Reykdal sem á orðið en hann reynsluók þessum merka bíl í Fraklandi á sínum tíma. „Með XM hefur Citroen tekið skrefið inn í tæknöldina að fullu. Hér er það tölvutæknin sem ræður ríkjum, bæði hvað varðar vél og fjöðrun,” segir Jóhannes í DV-bílum í júní árið 1989.
Myndir af bílum eru oftast sömu árgerðar og viðurkenningarárið, annars sömu kynslóðar.
Myndir: Wikipedia og Depositphotos.
Umræður um þessa grein