Fæst okkar geta nefnt fyrsta bílinn sem fyrir augu okkar bar. Það var hins vegar eflaust öllu minna mál fyrir fólk sem fætt var í kringum aldamótin 1900.
Kona nokkur, fædd 1909 á ónefndum bæ í Rangárvallasýslu, mundi glöggt eftir fyrsta bílnum sem hún sá. Það var rétt fyrir árið 1930 sem hún leit ökutæki fyrst augum en heimildir þær er ég vísa hér í koma úr gögnum um þjóðhætti á Íslandi sem Þjóðminjasafnið varðveitir.
Stukku öll upp á mæni þegar bíllinn kom
Sagði konan ónafngreinda svo frá: „Fyrsti bíllinn sem ég man eftir var Ford pallbíll, sem Ólafur Sigurðsson í Hábæ átti. Allir voru mjög spenntir þegar von var á bílnum, en jafnframt vorum við hálfhrædd um að hann keyrði á okkur og stukkum við því upp á kofamæni sem þar var.“
Maður getur rétt ímyndað sér eftirvæntinguna í loftinu. Loftinu sem breyttist snarlega þegar rymjandi og reykspúandi bryndreki á fjórum hjólum skoppaði eftir stíg sem til þess dags hafði einungis borið hross, mannfólk og kerrur.
„Fyrsta ökuferðin mín var hér smáspöl upp að Fjarkastokk, sem kallaður var, og kostaði ferðin 25 aura,“ sagði okkar manneskja, sem hefur greinilega ekki látið hræðsluna við bílinn tefja sig til lengri tíma uppi á kofamæni. Enda spennandi að fá að sitja í bíl í fyrsta skipti!
Eini bílstjórinn groggaður
Víkur nú sögunni að réttarballi sem haldið var í Landréttum. Sérstök ferð var farin þangað. Á bílnum auðvitað!
„Það var trépallur aftan á bílnum festur með boltum og fólkið var á þessum palli. Ferðin gekk vel í Landréttir, en þegar heim átti að fara var bílstjórinn orðinn draugfullur, en keyrði samt, enda ekki um annan bílstjóra að ræða.“
Rysjótt heimferð
„Við leggjum af stað, en er áleiðis er komið dettur pallurinn af, en sem betur fer hafði fólkið orðið vart við að hann var að losna og það gat hoppað af pallinum áður en hann datt.“
„Þannig að ekki urðu slys á fólki og svo var pallurinn settur aftur á og fólkið á sinn stað og voru 2 karlmenn settir hvor til sinnar hliðar og áttu þeir að láta vita ef bíllinn færi í holur og reyna að vega salt á pallinum á móti holunum.“
„Hægt sóttist ferðin og loks neituðu farþegarnir að dvelja lengur á pallinum svona lausum, svo það var stoppað á Ægissíðu og fengið reipi til að binda niður pallinn, og þá var loks hægt að halda áfram för heim í Þykkvabæ,“ sagði konan sem lýsti ferðinni svo ljómandi vel að hægt er að sjá þetta fyrir sér tæpri öld síðar.
Þannig endaði ball- og bílferð sú en þetta hefur þó verið nokkur upplifun! Svo mikið er víst.
Umræður um þessa grein