Bílamenning
Forlagið hefur gefið út bókina Bílamenningu eftir Örn Sigurðsson, en hún inniheldur 154 áhugaverða kafla um bíla og bílamenn. Hér eru bílar almennings, lögreglu og slökkviliðs; trukkar jafnt sem eðalvagnar, keppnisbílar, jeppar, vörubílar, húsbílar og snjóbílar, svo fátt eitt sé talið.
Auk þess er fjallað á nýstárlegan hátt um fjölmargt annað sem tengist bílum, svo sem bensín- og smurstöðvar, verkstæði, bílasölur, hjólhýsi, leikföng, söfn og sýningar, að ógleymdri vega- og gatnagerð.
Íslenskar yfirbyggingar, einstakt númerakerfi, sölunefndin og áralöng barátta bíleigenda við bifreiðaeftirlitið fá sinn skerf, líkt og H-dagurinn og ungir vegfarendur. Íslendingar hafa ekki fremur en aðrir farið varhluta af þeirri áhugaverðu þróun bílamenningar sem hér er fjallað um á einstakan hátt á 320 síðum, en auk vandaðs texta prýða bókina rúmlega þúsund ljósmyndir sem margar hafa hvergi sést áður.
Bílamenning er ómissandi stórvirki fyrir alla bílaáhugamenn.
Gatnagerð í Reykjavík vélvæddist hægt og sígandi þegar leið fram á þriðja áratuginn. Tekið var til við að malbika göturnar og til þess notaður grjótmulningur úr Skólavörðuholtinu sem blandaður var saman við tjöru úr Gasstöðinni.
Púkkað var vandlega undir göturnar og síðan sett tvö lög af bikmulningi og valtað yfir með gufuvaltara bæjarins sem nefndur hafði verið Bríet Knútsdóttir; í höfuðið á bæjarfulltrúanum Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og borgarstjóranum Knud Zimsen.
Hér er ferlíkið að valta yfir bikmulning og þjappa niður grjóti með „makadamiseringu“ í Pósthússtræti. Með þessari aðferð var grjótið valtað án þess að í það væri sett tjara.
Þegar Ísland var hernumið árið 1940 þótti vissara að bæta tækjakost slökkviliðsins, einkum vegna aukinnar hættu á loftárásum.
Keyptar voru til landsins tíu vélknúnar dælur sem geymdar voru víðsvegar um Reykjavík, auk þess sem bætt var við tíu kílómetrum af slöngum.
Með komu breska hernámsliðsins og byggingu flugvallarins var sett á laggirnar sérstök slökkvistöð á vellinum og létti það mesta álaginu af stöðinni í Tjarnargötu. Þegar Bandaríkjamenn tóku við hervörnum landsins árið 1941 reistu þeir slökkvistöð á horni Egilsgötu og Snorrabrautar, en þar vildu margir reisa fullkomna slökkvistöð að stríði loknu.
Hér má sjá brúnmálaða braggana á Snorrabrautinni ásamt nýjum Ford, en þessi gerð slökkvibíla var algeng á Íslandi og hafa nokkrir þeirra varðveist til dagsins í dag.
Eitt mikilvægasta viðhaldverkefni hvers bíleiganda er að halda bílnum vel smurðum og tryggja að á vél hans sé ávallt vönduð olía og góð smursía svo hún nái að snúast óhindrað og geti skilað starfi sínu eins og til er ætlast.
Smurstöð Ræsis við Skúlagötu var óvenju rúmgóð og hefur án efa verið ein sú besta hérlendis þegar þessi mynd var tekin árið 1942, en á lyftunni er nýlegur Dodge.
Það fór lítið fyrir malbiki á götum íslenskra bæja fyrir miðja síðustu öld og enn færri voru gangstéttirnar.
Hér er horft upp Vitastíginn í Reykjavík að gatnamótunum við Grettisgötu þar sem laxableikum Whippet árgerð 1931 hefur verið lagt fast upp við eitt íbúðarhúsið, en þessir ágætu bílar voru framleiddir af bandaríska fyrirtækinu Willys-Overland, líkt og frændi þeirra Willys-jeppinn sem fluttur var inn í miklu magni eftir stríð.
Smíðuð voru vönduð tréhús yfir flesta þeirra hérlendis, enda veittu upprunalegu blæjurnar litla vörn gegn slagviðri og kulda.
Vinsælasta bílastæði Reykjavíkur í eina tíð var án efa gamla Hallærisplanið sem forðum stóð þar sem mannfátt Ingólfstorgið er núna.
Hér stóð forðum Hótel Ísland sem brann til kaldra kola árið 1944 og í kjölfarið var lóðinni breytt í bílastæði sem þjónaði miðbænum vel í marga áratugi, enda þéttskipað nánast alla daga vikunnar.
Á kvöldin var hér vinsæll viðkomustaður þeirra sem keyrðu rúntinn og því má segja að Hallærisplanið hafi verið hálfgerð menningarmiðstöð borgarbúa í hartnær 60 ár.
Myndin var tekin á sólbjörtum sumardegi árið 1949 og umferðin er umtalsvert, enda miðborg Reykjavíkur mikilvæg miðstöð stjórnsýslu og viðskipta. Hér eru bandarískir og breskir bílar mest áberandi, en það vekur athygli að sjá þrjár Renault-hagamýs á planinu Austurstrætismegin, en nærri 200 þannig bílar bárust óvænt til landsins árið 1947.
Þessa fallega ljósmynd var tekin á sólríkum sumardegi árið 1949 og sýnir neðsta hluta Vesturgötunnar og Grófarplanið þar sem gamla Zimsen-húsið stendur núna.
Sjá má nokkra bíla á þvottaplani Shell Vesturgötumegin, en nær okkur er hins vegar BP-stöð sem bauð bara upp á eldsneyti.
Viðskiptavinir Olíuverslunar Íslands þurftu þó ekki að örvænta, því að á Klöpp við Skúlagötu var þvottaaðstaða fyrir fjölda bíla, auk smurstöðvar, en á þessum árum hugsuðu olíufélögin þrjú vel um íslenska bíleigendur.
Hálendisfarinn og fjallabílstjórinn Guðmundur Jónasson keypti til landsins kanadískan Bombardier-snjóbíl árið 1951.
Það var skoðun Guðmundar að vetrarvegir framtíðarinnar skyldu liggja ofan á snjónum, en ekki grafast í hann. Hann taldi misráðið að láta ýtur ryðja honum burt, heldur ætti að troða hann með snjóbílum eða beltisvélum. Síðan gætu aðrir bílar runnið brautina, sem gera mætti jafnvel enn þéttari með því að sprauta yfir hana vatni.
Vegagerðin var ekki hrifin af þessum hugmyndum og því snéri Guðmundur sér að jöklaferðum á snjóbíl sínum.
Fyrsta fornbílasýningin á Íslandi var haldin 17. júní árið 1967 og voru þar saman komnir 25 aldnir glæsivagnar. Með sýningunni kviknaði fyrsti vísirinn að varðveislu gamalla bíla hérlendis, þó að enn ætti eftir að líða heill áratugur í stofnun Fornbílaklúbbs Íslands.
Sýningin var endurtekin tveimur árum síðar, árið 1969, og merkilegasti bíllinn þá var án efa Mercedes-Benz 290 árgerð 1937, sem upphaflega var í eigu Werners Gerlach, en hann var aðalræðismaður Þjóðverja á Íslandi frá apríl 1939 til maí 1940, þegar hann var tekinn höndum af Bretum og fluttur af landi brott.
Bíllinn varð hins vegar eftir og boðinn upp eftir stríð. Árið 1968 var hann lagfærður og síðan seldur setuliðsmanni á Keflavíkurflugvelli árið 1972, sem flutti hann með sér vestur um haf og gerði upp frá grunni.
Eftir það spurðist ekkert til bílsins í yfir 30 ár, eða þangað til íslenskir fornbílamenn fundu hann aftur fyrir hreina tilviljun og fluttu til landsins á ný árið 2007.
Árið 1974 var framkvæmdur umdeildur listgjörningur á Lækjartorgi þar sem Mercedes-Benz árgerð 1955 var málaður gylltur og síðan lagður í rúst af listakonunni Rúrí.
Með þessum gjörningi vildi hún leggja áherslu á að bíllinn væri tákn efnishyggju og lífsgæðakapphlaups og verðskuldaði því hin maklegu málagjöld.
Margir líktu eyðileggingu gullbílsins á Lækjartorgi við það þegar Móse mölvaði gullkálfinn í eyðimörkinni forðum.
Umræður um þessa grein